Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Landssamtaka skógareigenda, afhendir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, …
Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Landssamtaka skógareigenda, afhendir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, gróðursetningargeispu með áletruninni BINDUM KOLEFNI - RÆKTUM SKÓG!

Var boðið í skógarsúpu ásamt þingmönnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, um­hverfis- og auðlindaráðherra, þáði ásamt nokkrum þingmönnum boð Landssamtaka skógareigenda, Skóg­ræktar­innar og Skóg­ræktar­félags Íslands um skógarsúpu í tilefni af alþjóðlegum degi skóga sem var í gær. Ráðherra fékk að gjöf forláta geispu sem hvatningu til góðra verka í skógræktarmálum.

Gestgjafarnir hafa undanfarnar vikur unnið saman að tillögum til stjórn­valda um hvernig mætti með raun­hæfum hætti nýta skógrækt sem eina af leiðunum til að Íslendingar geti staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Lagt er til að nýskógrækt verði fjórfölduð á nokkrum árum frá því sem nú er og með því megi um miðja öldina binda eina milljón tonna af koltví­sýringi í skógum landsins. Um leið styrki slík verkefni byggð í dreif­býli á Íslandi og byggi upp auðlind til framtíðar.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri stýrði fundinum og fyrstur ráðherra stutt erindi. Hann talaði meðal annars um að mikilvægt væri að vinna að landsáætlun og landshlutaáætlun í skógrækt og landshlutaáætlunum. Einnig sagði hann stefnt að því að frumvarp til nýrra skógræktarlaga yrði lagt fram á Alþingi í haust. Með nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ætti að skýrast hvernig framlög til ýmissa verkefna, meðal annars skógræktar, muni þróast á næstu árum.


Að loknu erindi sínu tók Guðmundur Ingi við gjöf fr á Landssamtökum skógareigenda úr höndum for­manns­ins, Jóhanns Gísla Jóhanns­sonar, skógar- og kúabónda á Breiða­vaði í Eiðaþinghá. Með gjöf­inni fylgdi hvatning til góðra verka í skógræktarmálum. Ráðherra hafði á orði að hann hefði lengi langað í svona verkfæri til gróðursetningar trjáplantna og því ætti vart að standa á honum að ganga til verka.

Frumsýnt var nýtt myndband Skóg­rækt­arinnar um þema alþjóðlegs dags skóga 2018, skógrækt og sjálfbært þéttbýli en því næst voru haldin stutt erindi. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, rakti í stuttu máli hugmyndina um fjórföldun skógræktar og hvernig hún væri þjóðhagslega hagkvæm, Jóhann Gísli talaði um skógrækt og landbúnað og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, um mikilvægi þess að virkja fjöldann í baráttunni við loftslagsbreytingar.




Texti og myndir: Pétur Halldórsson