Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, fylgist með kynningu á íslenskri skógrækt í fundarsal Skógræktarinnar á Egilsstöðum. Á myndinni eru líka frá vinstri: Steinar Kaldal, aðstoðarmaður ráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri, bak við Björtu glittir í Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, og Önnu Pálínu Jónsdóttur launafulltrúa en lengst til hægri er Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs.
Vill virkja atvinnulífið til bindingar með skógrækt
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, vill örva atvinnulífið til kolefnisbindingar með skógrækt. Hún segir að með aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál sem von er á fyrir árslok megi búast við auknum framlögum til skógræktar.
Ráðherra heimsótti Skógræktina í gær í höfuðstöðvarnar á Egilsstöðum á alþjóðlegum degi skóga ásamt aðstoðarmanni sínum, Steinari Kaldal, og Sigríði Auði Arnardóttur ráðuneytisstjóra. Þau áttu góðan fund með framkvæmdaráði Skógræktarinnar sem skipað er skógræktarstjóra, fagmálastjóra og fjórum sviðstjórum stofnunarinnar. Einnig voru á fundinum kynningarstjóri Skógræktarinnar og launafulltrúi. Fundurinn hófst með því að ráðherra var sýnt nýtt myndband sem Skógræktin gerði í tilefni af alþjóðlegum degi skóga.
Ýmislegt var rætt á fundinum með ráðherra. Gestirnir voru fræddir um margvíslegar hliðar skógræktar á Íslandi, um stofnunina og verkefni hennar, stöðu skógræktar í landinu, útbreiðslu og þróun skóglendis á Íslandi og margt fleira. Björt sagði frá því að hún væri ekki með öllu ókunnug skógrækt enda af skógarbændum komin. Meðal annars hefði hún starfað með ungmennum að gróðursetningu í heimahögum sínum í Biskupstungum.
Töluvert var rætt á fundinum um mál málanna í heiminum í dag, loftslagsbreytingar, einkum hvað snertir möguleika til kolefnisbindingar í skógi. Björt hefur mikinn áhuga á þessum efnum og vilja til að auka skógrækt í landinu, ekki síst sem aðgerð í loftslagsmálum. Ráðherra telur þó ekki rétt að ríkið standi eitt að aukningu bindingar með skógrækt. Hún vill liðka fyrir möguleikum atvinnulífsins til að leggja þar til málanna drjúgan skerf. Ekki liggur fyrir útfærsla í þeim efnum en von er á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum undir lok ársins. Óskaði ráðherra eftir því að Skógræktin legði ráðuneytinu til skýrar og hnitmiðaðar upplýsingar um möguleika Íslands í bindingu með skógrækt.
Að loknum fundinum í aðalstöðvum Skógræktarinnar á Egilsstöðum átti Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, viðtal við ráðherra og skógræktarstjóra sem birtist í útvarpsfréttum og á vef Ríkisútvarpsins.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri með orðið. Sviðstjórarnir Edda S. Oddsdóttir,
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Gunnlaugur Guðjónsson á rannsókna-,
skógarauðlinda- og fjármálasviði fylgjast með.