Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. Mynd: Ríkisútvarpið.
Ríkið hugðist kolefnisjafna bílaflota sinn og flugferðir fyrir hrun
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, segir að ríkið eigi að ganga á undan í umhverfismálum með góðu fordæmi og hún er tilbúin af endurvekja kolefnisjöfnun vegna starfsemi ráðuneytanna sem var hætt fyrir 7 árum. Ríkið greiddi Kolviði fyrir bindingu bílaflota síns í tvö ár fyrir hrun en svo lögðust greiðslurnar af. Þetta kom fram í Speglinum í Útvarpinu í gærkvöld.
Í fréttinni er rifjað upp að áður en efnahagur landsins hrundi 2008 hafi ríkisstjórnin sem þá sat verið búin að ákveða að kolefnisjafna bæði bílanotkun og flugferðir allra ríkisstarfsmanna. Þessi áform féllu niður eftir hrunið eins og margt annað en nú vill umhverfisráðherra taka upp þráðinn með einhverjum hætti og segir orðrétt: „Það liggur fyrir að ég vil auka mjög mikið í bindingu í gegnum landgræðslu og skógrækt.“
Á vef Ríkisútvarpsins er útdráttur úr umfjölluninni á þessa leið:
Þegar allt lék í lyndi og mikil uppsveifla var í samfélaginu 2007 samþykkti þáverandi ríkisstjórn að kolefnisjafna vegna bifreiða stjórnarráðsins og jafnframt að frá ársbyrjun 2008 ætti að kolefnisjafna vegna flugferða allra ríkisstarfsmanna bæði innanlands og vegna flugs til útlanda. Samningur var undirritaður við Kolvið, sem var stofnaður daginn áður en ríkisstjórnin samþykkti þessar aðgerðir. Kolefnisjöfnun gengur út á það að planta trjám eða plötum sem sjá til þess að eyða koltvíoxíð mengun sem verður af notkun bíla og flugvéla í þessu tilviki. Ríkið greiddi Kolviði í tvö ár vegna mengunar af völdum bílaflota ríkisins. Í seinna skiptið nam greiðslan 24,5 milljónum króna en aldrei varð úr því að kolefnisjafnað yrði vegna flugsins. Greiðslurnar hættu og málið fjaraði út væntanlega vegna þrenginga í ríkismálum vegna bankahrunsins.
Verðum að endurvekja kolefnisjöfnun
Umhverfisráðherrar, sem setið hafa frá þessum tíma hafa verið minntir á að taka upp þráðinn en ekkert hefur þó verið að gert. En hvers vegna var þessum greiðslum hætt? Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra veit ekki hvers vegna. Hún geti ekki svarað fyrir það og að auki hafi hún ekki verið komin á þing á þessum tíma.
„Þetta var góð hugsun, gott verkefni sem við verðum að endurvekja. Ég veit til þess, alla vega í mínu ráðuneyti er verið að vinna það sem verður að liggja fyrir áður en farið er að kolefnisjafna. Það er mæling á því sem við erum að eyða eða hve mikið við erum að losa. Svokallað grænt bókhald. Ég held að fleiri ráðuneyti ástundi þetta græna bókhald. Við verðum að hafa það til að miða við,“ segir Björt.
Ekki tilbúin að skrifa undir hér og nú
„Ég hef ekki skoðað þennan samning nákvæmlega en þetta er mjög flott verkefni. Við verðum bara að skoða það hvernig við náum þessum markmiðum, hvort sem það er í gegnum Kolvið eða einhver önnur verkefni. Það liggur fyrir að ég vil auka mjög mikið í bindingu í gegnum landgræðslu og skógrækt. Þannig að við munum ná þessum verkefnum fram en ég er kannski ekki tilbúin að skrifa undir pappírana óséða. Ég þarf að sjá hvernig samkomulagið leit út. Það liggur líka fyrir að við erum að gera heildstæða aðgerðaráætlun þar sem leggjum kolefnisbindingu og alla aðra þætti í loftlagsmálum fyrir og myndum heildstæða áætlun. Þetta þarf að vinnast samhliða en það er ekkert sem segir að ráðuneyti eða stofnanir geti ekki hafist handa strax,“ segir Björt Ólafsdóttir
Landvernd, sem stendur að Kolviði ásamt Skógræktarfélagi Íslands, hefur skorað á stjórnvöld að taka upp þráðinn og kolefnisjafna. Formaður stjórnar Kolviðar sendi ráðherra bréf um helgina þar sem þessari ósk var komið á framfæri. En þó að umhverfisráðherra sé tilbúin að endurvekja kolefnisjöfnun ráðuneytanna er hún ekki tilbúin að taka upp pennann og skrifa undir.