Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands í Djú…
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpar aðalfund Skógræktarfélags Íslands í Djúpavogskirkju.

Sigrún Magnúsdóttir ávarpaði aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem hófst í dag á Djúpavogi

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, vill auka skógrækt á skóglausum svæðum til að gera þau vænni til búsetu. Hún flutti ávarp við upphaf aðal­fund­ar Skógræktarfélags Íslands sem nú stendur yfir á Djúpavogi.

Í ræðu sinni vék Sigrún að loftslags­málun­um og sagði að nú væri unnið að inn­leið­ingu sóknaráætlunar Íslands í loftslags­málum og fyrir lægi að fullgilda Parísar­sátt­mál­ann á næstu vikum á Alþingi. Hún nefndi að sameining skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun, Skógræktina, væri mikið framfaraskref til meiri þjónustu og samhæfðari.

Þá notaði Sigrún tækifærið og tilkynnti um sérstakt verkefni sem hefði verið á teikniborðinu í ráðuneytinu. Hún hefði mikinn áhuga á því að stuðla að aukinni skógrækt á skóglausum svæðum með það að markmiði að gera þau vænni til búsetu, svo notuð séu orð ráðherra sjálfs. Hún sagði að í þessu efni mætti horfa til svæða eins og Vestur-Húnavatnssýslu sem væri fyrst og fremst sauðfjárræktarhérað. Vel gæti farið saman skógrækt og sauðfjárrækt enda veittu skógar búfé skjól og gætu með tíð og tíma orðið gjöfult beitiland með margfalt meiri framleiðni en núverandi gróðurfar byggi yfir. Hefur ráðherra nú falið Skógræktinni að vinna að sérstöku átaksverkefni í skógrækt í Húnaþingi vestra og er litið til þess að aðferðir Skjólskóga á Vestfjörðum geti orðið þar fyrirmynd.


Enn fremur ræddi umhverfis- og auðlinda­ráð­herra um aðferðir til að hraða endur­reisn skógræktar á Íslandi. Ráðuneytið hefði áhuga á að skoða skógrækt betur sem hugsanlegan fjárfestingarkost fyrir aðra en ríkisvaldið og í því skyni lægju nú fyrir drög að samningi. Felur hann í sér að Skógræktarfélag íslands í samstarfi við Skógræktina, skógareigendur og Hag­fræði­stofn­un Háskóla Íslands vinni greinargerð sem taki saman möguleg styrktarform til skógræktar, kosti og galla mismunandi stuðningskerfa, arðsemisútreikninga og greini mögulegar leiðir til að hvetja til fjárfestinga í skógrækt. Þannig megi gera sér betri grein fyrir möguleikum þess að laða að fjármagn. Sagði Sigrún að þetta ætti að verða tilbúið strax á næsta ári.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hófst í dag með venjulegum aðalfundarstörfum sem halda áfram á morgun, laugardag, og lýkur með kosningum og samþykktum um hádegisbil á sunnudag. Í dag var farið í skoðunarferð að Teigarhorni og á morgun verður skógarganga í Hálsaskógi, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Djúpavogs, gestgjafa aðalfundarins í ár.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson