Dagana 18.-19. ágúst verður haldin norræn ráðherraráðstefna um skógarmál á Íslandi, með yfirskriftinni „ Samkeppnishæf skógrækt á Norðurlöndum – Hvernig tökum við á loftslagsbreytingum og kröfu um vatnsgæði?“ (sæ.: Ett konkurrenskraftigt skogsbruk i Norden – Hur möter vi klimatförändringar och krav på bra vatten?“) . Að þessu sinni fara Svíar með formennsku í ráðherranefndinni en Íslendingar munu taka við því hlutverki á næsta ári. Gestgjafar ráðstefnunnar verða því báðir íslensku ráðherrarnir sem tengjast skógarmálum, þau Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ásamt sænska landbúnaðarráðherranum Eskil Erlandsson (sem jafnframt fer með skógarmál í sínu heimalandi).
Fyrri dag ráðstefnunnar, mánudaginn 18. ágúst, verður haldið í kynnisför með gestum ráðstefnunnar um náttúrleg og ræktuð skóglendi, nýskógræktarsvæði bænda og auðnir á Suðurlandi. Jafnframt verður kynnt fyrir þeim stærsta umhverfisvandamál sem Íslendingar eiga við að glíma: gróður- og jarðvegseyðing, á uppblásturssvæðunum í Þjórsárdal og við Heklurætur, með áherslu á aðgerðir til þess að sporna við landhnignun, m.a. með ræktun skóga í tengslum við verkefnið Hekluskógar. Einar K. Guðfinnsson mun fylgja gestum í þessa för og er ætlunin að veita erlendum gestum ráðstefnunnar innsýn í hvernig staðið er að skóggræðslu til fjölþættra nota við þær einstæðu umhverfisaðstæður sem hér ríkja.
Á öðrum degi, þriðjudaginn 19. ágúst, hefst sjálf ráðstefnan á Hótel Selfossi. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra (sem jafnframt er ráðherra skógarmála á Íslandi) mun setja fundinn og bjóða gesti velkomna á ráðstefnuna. Að þessu sinni verða viðfangsefnin af tvennum toga, en þau tengjast um leið helstu áskorunum sem skógrækt á Norðurlöndunum stendur frammi fyrir um þessar mundir. Fyrra viðfangsefnið er „skógur og loftslag“. Um allan heim hafa menn áhyggjur af auknum gróðurhúsaáhrifum og ljóst að sporna verður við losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Flest ríki heims hafa þetta að markmiði og áætlanir eru í gangi um mótvægisaðgerðir. Þá er ekki hvað síst horft til skóganna sem binda koltvíoxíð. Það kolefni sem bundið er í skógum má einnig líta á sem endurnýjanlegan orkugjafa. Á ráðstefnunni verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á útbreiðslu trjátegunda, möguleika Norrænna skóga til kolefnisbindingar og í hvaða mæli mögulegt er að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir lífeldsneyti úr viðarafurðum.
Síðara viðfangsefni ráðstefnunnar lýtur að „skógi og vatnsgæðum“, Vatn er undirstaða lífs á jörðinni og sífellt verður okkur ljósara hvílík lífsgæði felast í aðgengi að hreinu vatni. Í þessu sambandi er hlutverk skógarins mikilvægt; hann hægir á yfirborðsflæði vatns, dregur úr flóðahættu og miðlar hreinu vatni til vatnsbóla. Um leið bætir skógur lífsskilyrði í ám og vötnum með temprandi áhrifum sínum og með því að vera fæðuuppspretta fyrir vatnalífverur. Á ráðstefnunni verður einnig fjallað um það hvernig skógariðnaðurinn á hinum Norðurlöndunum skuli taka tillit til stöðugt aukinna krafa um hreint vatn, m.a. í ljósi vatnatilskipunar Evrópusambandsins.
Hér á landi er unnið að fjölþættum rannsóknaverkefnum á báðum þessum sviðum. Viðamiklar rannsóknir á kolefnisbindingu skóglenda hafa verið stundaðar hér um árabil. Fylgst hefur verið með útbreiðslu og eðli íslenskra skóglenda og mat lagt á kolefnisbindingu þeirra. Niðurstöður rannsókna á kolefnisbindingu hérlendis hafa einnig verið notaðar til að spá fyrir um kolefnisbindingu á landsvísu. Verkefnið SkógVatn hófst árið 2007 og hefur það að meginmarkmiði að meta áhrif skógræktar og landgræðslu á vatnsgæði, vatnshag og vatnalíf. Lítið sem ekkert er til af rannsóknum hér á landi um áhrif gróðurfars á vatnalíf en erlendar rannsóknir sýna að skógur og annað gróðurlendi getur haft veruleg áhrif á vatnshag, vatnsgæði og vatnalíf. Verkefnið er unnið í samstarfi sjö íslenskra háskóla og rannsóknarstofnana og fer fram á Austur- og Suðurlandi.
Fyrri hluta dagsins verður boðið upp á fyrirlestra fræðimanna á þessum sviðum, auk pallborðsumræða og er sá hluti öllum opinn. Um miðjan dag hefst síðan hinn eiginlegi ráðherrafundur. Þar verður rætt um hvernig fylgt hefur verið eftir samþykktum síðasta fundar skógarmálaráðherranna og nýjar, sameiginlegar yfirlýsingar ráðherranna um mál sem tengjast viðfangsefnum ráðstefnunnar kynntar og undirritaðar. Frá þeim munum við greina eftir undirritun. Að fundinum loknum, þ.e. kl. 17:00 verður boðað til fréttamannafundar þar sem yfirlýsingarnar verða kynntar.
Þetta verður í annað sinn sem norrænir skógarmálaráðherrar hittast til þess að ræða skógarmál. Fyrsti ráðherrafundur um skógarmál var haldinn í Danmörku árið 2005. Viðfangsefni þess fundar var fjölþætt og staðbundið mikilvægi skóga fyrir nærsamfélög.
Samhliða og í beinu framhaldi af ráðherrafundinum verður ráðstefnan „Norrænir skógar í breyttu veðurfari“ haldin á Selfossi. Það eru Nordgenskog og Skógrækt ríkisins sem standa að þessari ráðstefnu en á henni verður fluttur fjöldi erinda á ensku. Dagskráin er fjölbreytt en viðfangsefnin skiptast í eftirfarandi flokka: a) skógur og veðurfar, b) skógur og vatn, c) veðurfarsbreytingar og samkeppnishæf skógrækt, d) nýr efniviður fyrir breytt veðurfar og nýjar plágur og e) landshlutabundin skógræktarverkefni og landgræðsla.