Hvítgreni (Picea glauca) vex upp í skjóli nöturaspar (Populus tremoluides), algeng náttúrleg samsetning í barrskógabeltinu í Kanada.Ræktun og nýting slíkra skóga hefur verið rannsökuð ítarlega. Þarna er öspin frumherjategundin sem fljótust er til eftir stórfellt rask af völdum t.d. skógarelda en smám saman kemur hvítgrenið upp í kjölfarið. Mynd: Phil Comeau
Viðbótarafrakstur vegur upp aukinn kostnað
Skógarreiti með blönduðum tegundum má skipuleggja og rækta með margvísleg samfélagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg markmið í huga. Slíkir skógar geta veitt mikilvæga vistkerfisþjónustu, stuðlað að verndun náttúruskóga og um leið bundið umtalsverðan hluta af því kolefni sem mannkynið losar út í andrúmsloftið með athöfnum sínum. En þeir veita líka möguleika á ræktun verðmætra afurða og aukinni heildarframleiðslu skógarreita.
Um þetta er fjallað í nýrri grein á vef norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar NordGen. Magnus Löf, prófessor við sænska landbúnaðarháskólann SLU, bendir þar á að gjöfulir blandskógar hafi æ mikilvægara hlutverki að gegna eftir því sem spurnin eykst eftir viði til sjálfbærrar orkuframleiðslu. Hraður vöxtur, mikil kolefnisbinding og góður viðnámsþróttur er meðal þeirra eiginleika sem sóst er eftir. Dæmi um slíka skógarreiti er „tveggja hæða“ blandskógur með skuggþolnum tegundum sem taka vöxtinn út seint en vaxa upp í skjóli af fljótsprottnum tegundum. Þær fyrrnefndu væru þá ræktaðar á langri lotu til framleiðslu á hágæðatimbri en þær fljótsprottnu á stuttri lotu til lífmassaframleiðslu. Ræktunarlíkön fyrir slíka blandskóga telur Magnus Löf vert að þróa áfram. Hann fjallaði um efnið á ráðstefnu NordGen sem haldin var í Växjö í Svíþjóð í september.
Nýting fósturtrjáa - hagkvæm aðferð
Með hraðvaxta fósturtrjám er mögulegt að koma nýjum skógarreitum fljótt af stað og í framhaldi af því að auka framleiðnina. Svo virðist sem þetta geti verið hagkvæm leið til að rækta nýja skóga. Fósturtrén geta dregið úr samkeppnisgróðri, veitt vernd gegn vorfrostum og auðveldað tegundunum sem njóta skjólsins að koma sér fyrir. Þetta bætir líka gjarnan vaxtarlag þessara hægvöxnu tegunda sem eiga að mynda lokaafurð skógarins enda eru þetta gjarnan tegundir sem aðlagaðar eru uppvexti í skugga og þrífast því best við þær aðstæður í uppvextinum.
Mörgum vænlegum samsetningum trjátegunda í blandskógum hefur verið lýst í fræðiritum, skrifar Magnus Löf, svo sem ösp gróðursettri með eik ellegar birki, lerki eða gráelri sem gróðursett væri með beyki, eik eða rauðgreni. Einnig megi hugsa sér að gjöful tegund eins og degli eða stórþinur (Abies grandis) yrðu tegundirnar sem framleiddu mestu verðmætin í blandskógum sem þessum í Danmörku. Tilraunir þar í landi og víðar hafa einmitt sýnt að þessar tegundir njóta mjög góðs af því að vaxa upp í skjóli hærri trjáa. Þeir fjölbreytilegu möguleikar sem eru í samsetningu blandskóga gera kleift skipuleggja blandskógarækt við margvísleg skógræktarskilyrði, segir Löf.
Ný skógræktaraðferð
Talið er að með skógrækt „á tveimur hæðum“ megi alla jafna búast við auknum heildarafrakstri. Sú hefur reynst raunin með ýmsar samsetningar sem kannaðar hafa verið svo sem þar sem rauðgreni endurnýjast af sjálfu sér í bland við birki. Þá reynist heildarframleiðsla skógarins 10-20 prósentum hærri en væri ef þessar tegundir yxu óblandaðar hvor í sínu lagi. Tuttugu prósenta viðbótarafrakstur hefur líka sést í skógum þar sem nöturösp (Populus tremuloides Michx.) og hvítgreni er í bland miðað við óblandaða reiti þessara sömu tegunda. Og þennan afrakstur er talið að auka megi enn frekar með því til dæmis að notast við kynbættan efnivið.
Nauðsynlegt er að mati Löfs að þróa áfram aðferðir við fósturtrjárækt sem þessa svo finna megi út hvernig best skuli standa að grisjun og hversu þétt laufþakið megi vera til að sem bestur árangur náist. Þessum þáttum getur þurft að stýra með mismunandi hætti eftir því hvaða tegund er ræktuð undir laufþakinu hverju sinni og hver ræktunarmarkmiðin eru.
Viðbótaruppskera upp á tíu prósent getur vegið upp á móti auknum kostnaði við gróðursetningu og umhirðu blandskógar miðað við einhæfan skóg, segir Magnus Löf undir lok greinar sinnar. Hins vegar sé óljóst hvaða áhrif blandskógaræktin hafi til verndunar líffjölbreytni og þann þátt þurfi því að taka með í reikninginn við áframhaldandi þróun þessarar nýju skógræktaraðferðar
Magnus Löf er prófessor við sænska landbúnaðarháskólann SLU (Sveriges Lantbruksuniversitet). Rannsóknir hans hafa einkum beinst að endurnýjun skóga og aðlögun skógræktaraðferða að breytingum í heiminum. Því hefur hann meðal annars rannsakað skóggræðslu og endurræktun skóga ásamt endurheimt blandskóga með lauf- og barrtrjátegundum, ýmist við náttúrlega endurnýjun eða með ræktun.