Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar á Suðurlandi, beindi þeirri fyrirspurn til landbúnaðarráðherra í síðustu viku, hvort til standi að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins og í öðru lagi hvort farið hafi fram undirbúningsvinna að slíkri sameiningu. ?Að mínu mati og margra mati mælir margt með því að sameina eigi Landgræðsluna og Skógræktina,? sagði Björgin. ?Samnýta mætti krafta beggja stofnananna sem mundi án vafa skila sér í skilvirkara starfi með margvíslegum og jákvæðum hætti. Stofnanirnar ráða yfir tækjum og tólum sem yrðu samnýtt og margs konar hagræði mætti hafa af sameinaðri og öflugri stofnun til hvers konar landgræðslu og skógræktar. Sem dæmi má nefna að Skógræktin ræður yfir yfirgripsmikilli þekkingu hvað varðar uppgræðslu með trjágróðri en fullyrða má að skógrækt sé afar góð og varanleg landgræðsla og jafnvel ein sú besta. Þá mundi samvinna sérfræðinga hjá stofnunum aukast, þekkingarflæði yrði meira á báða vegu og sú mikla sérfræðiþekking sem tilheyrir stofnununum nýttist betur ef kraftar þeirra lægju að fullu saman. Stofnanirnar vinna að svipuðum verkefnum á sömu svæðum, t.d. í Þórsmörk, og þurfa báðar að senda aðila er varða þau svæði á fundi þegar samningagerð stendur yfir o.fl. Báðar stofnanirnar vinna að rannsóknum á svipuðum sviðum, báðar stunda frærækt, spírunarprófanir á fræi og fleiri slík dæmi mætti nefna um skörun sem þýðir bæði óhagræði og tímasóun.?
Útilokar ekkert um það
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagðist í svari sínu telja mikilvægt að fara yfir allt stoðkerfi landbúnaðarins með það í huga að það verði sem skilvirkast og þjóni sem best hagsmunum landbúnaðarins og bændanna í breyttu þjóðfélagi. ?Ég vil líka segja frá að ný sýn sem ég hef sett fram er landbúnaðarstofnun þar sem allt eftirlit innan landbúnaðarins yrði staðsett. Ég tel t.d. að væntanleg matvælastofnun geti aldrei orðið langt frá landbúnaðarráðuneyti eða landbúnaðinum,? sagði ráðherra í svari sínu. ?Ég útiloka í raun ekki að það geti komið til þess og það þarf að fara rækilega yfir samruna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og hinna stórfenglegu skógræktarverkefna, landshlutaverkefnanna, og hvernig við þjónum best þeim nýja og öfluga atvinnuvegi sem er að rísa í landinu.? Sagðist ráðherra telja mjög mikilvægt að fara yfir það allt saman í heild sinni með Bændasamtökum Íslands hvernig allri ráðgjöf við landbúnaðinn verður hagað og hvar t.d. sterkar þjónustumiðstöðvar, ráðunautaþjónustan, séu staðsettar. ?Ég tel því fulla ástæðu til að skoða fyrst og fremst hvernig ráðgjafarþjónustu, kennslu og rannsóknum verði best fyrir komið í framtíðinni og útiloka ekkert um að það beri að endurskipuleggja og þess vegna sameina þessar stofnanir eða búa til sterkari stofnanir sem gætu betur nýtt sér þann tíma sem fram undan er, eins og hv. þm. ræddi um gagnvart styrkjum frá Evrópu og víðar og þeirri miklu þekkingu sem við erum líka að láta af okkur leiða um víða veröld í þessum efnum.?
Heimild: Glugginn (Sudurland.net), 20/4 2004. Sjá ennfremur: "...nýjar sólir rísa"