Rauðberjalyng með þroskuðum berjum. Ljósmynd af Wikipedia-vefnum
Undanfarin ár hefur rauðberjalyng fundist í fleiri landshlutum en áður og svo virðist sem tegundin sé að sækja í sig veðrið eftir því sem skóglendi breiðist út. Berin eru bragðgóð og mjög vinsæl í matargerð í Skandinavíu.
Héraðsfréttamiðillinn Skessuhorn í Borgarnesi fjallar um þetta og segir þau tíðindi að tegundin hafi nú numið land í Borgarfirði. Benedikt Sævarsson á Akranesi hafi nýlega gengið um Munaðarnes í Borgarfirði og séð þar rauðberjalyng. Einnig hafi það fundist víðar í héraðinu, til dæmis ofar í Norðurárdal.
Fram undir þetta hefur rauðberjalyng aðallega fundist á Austurlandi og við Öxarfjörð. Raunar virðist það einungis á síðari árum sem hún hefur verið talin til flóru Íslands. Til dæmis er hennar ekki getið í Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings frá 1983. Á vef Náttúrufræðistofnunar og á flóruvefnum floraislands.is skrifar Hörður Kristinsson grasafræðingur að rauðberjalyng sé mjög sjaldgæft á Íslandi þótt það sé mjög algengt í Noregi og Svíþjóð. Hann bendir á að rauðberjalyng líkist nokkuð sortulyngi. Víst er að auðvelt er að ruglast á þessum tveimur tegundum þótt þær séu ekki af sömu ættkvísl. Rauðberjalyngið má þekkja á því að blaðjaðrarnir eru svolítið tenntir og niðursveigðir og blöðin eilítið gulleitari en á sortulyngi. Svo er líka auðvelt að greina tegundirnar sundur á bragðinu því lúsamulningar sortulyngs eru beiskir og mjölkenndir en rauðberin sæt og safarík.
Hörður Kristinsson greinir frá því á Flóruvefnum að síðari árin hafi rauðberjalyng fundist í Þrastaskógi og furulundinum við Rauðavatn. Hann getur sér til að á báðum þessum stöðum geti það verið aðflutt með skógrækt. Í því sambandi er rétt að benda á að skógarplöntur á Íslandi eru ræktaðar upp af fræi en ekki fluttar inn á rót og því er ekki líklegt að rauðberjalyng flytjist inn í landið með trjáplöntum nema keyptar hafi verið innfluttar skrautplöntur í verslunum og fluttar út í skóg. Telja má líklegra að rauðberin flytjist til landsins með farfuglum, eða með flækingsfuglum sem einmitt berast gjarnan á norðausturhornið og Austurland um fartímann vor og haust.
Rauðberjalyng er lágvaxinn runni, 5–30 sm á hæð, með stinn, gulgræn blöð og hvít eða bleikleit blóm sem þroskast í rauð, safarík ber. Blöðin eru sígræn, jaðrar ofurlítið tenntir og áberandi niðurorpnir, samkvæmt lýsingu Harðar Kristinssonar á Flóruvefnum. Blómin drúpa á lynginu í knippum og svo þroskast af þeim knippi af eldrauðum og girnilegum berjum.
Aukin útbreiðsla rauðberjalyngs er fagnaðarefni enda eykur tegundin fjölbreytni í skógum landsins og fóðrar jafnframt fjölbreytilegra fuglalíf. Fuglarnir ættu að geta dreift rauðberjum æ hraðar eftir því sem þau nema land víðar og samhliða því er ekki ólíklegt að Íslendingar taki í vaxandi mæli að horfa eftir rauðberjalyngi til nytja. Þá má búast við því að rauðberjasulta bætist í búrið hjá sultugerðarfólki, rati á veisluborð landsmanna eða ofan á daglega brauðið hér, líkt og algengt er í Svíþjóð og Noregi.