Rauðgrenið vill helst hafa kaldan og stöðugan vetur en þarf 65 daga með a.m.k. 12,5 stiga hita til a…
Rauðgrenið vill helst hafa kaldan og stöðugan vetur en þarf 65 daga með a.m.k. 12,5 stiga hita til að vaxa vel og mynda fræ

Sjálfsánar ungplöntur stafafuru, lerkis og rauðgrenis áberandi á Vöglum á Þelamörk

Þegar unnið var við að hreinsa trjágróður undan háspennulínu í skóginum á Vöglum á Þelamörk nú í vikunni vakti athygli skógræktarmanna hversu mikið var þar af ungum, sjálfsánum barrtrjám. Sérstaklega þótti merkilegt að sjá svo mikið af sjálfsánu rauðgreni en slíkt hefur ekki verið algengt í skógum hérlendis fram undir þetta.

Í rauðgreniskógum Skandinavíu og á meginlandi Evrópu eru ungplöntur hvarvetna áberandi, sérstaklega í skógarjöðrum, með fram vegum og annars staðar þar sem sólar nýtur vel við á skógarbotninum. Þar standa lítil rauðgrenitré gjarnan í þéttum beðjum. Rauðgreni er öflugur fræframleiðandi en hér hefur vantað heldur lengri sumur og betri haust til að tegundin næði að þroska fræ að einhverju ráði. Ungplönturnar í skóginum á Vöglum á Þelamörk benda til þess að fræþroski hafi aukist þar undanfarin sumur enda veður farið hlýnandi og sumrin lengst eins og við þekkjum.

Samkvæmt fræðunum þarf rauðgrenið helst að fá 65 daga á sumri þar sem hitinn fer yfir 12,5 stig til að ná sem bestum vexti og þroska fræ. Áberandi voru stórir árhringir í sumum rauðgrenitrjánna sem felld voru í línustæðinu á Vöglum á Þelamörk og þar má sjá mörg mjög falleg og vöxtuleg rauðgrenitré. Það bendir til þess, ásamt sjálfsánu plöntunum, að rauðgrenið hafi það gott á þessum stað. Þelamörkin hentar líka mjög vel til skógræktar og heitið -mörk bendir til þess að þar hafi verið skógur til forna.

Sjálfsánu rauðgrenitrén á Vöglum á Þelamörk eru græn og pattaraleg og sama má segja um stafafuru sem mikið hefur sáð sér út í skóginum líka. Lerkið myndar líka greinilega mikið fræ í skóginum og sérstaka athygli vakti vöxtur ungra sjálfsáinna lerkitrjáa í línustæðinu. Ársprotar síðasta árs voru mjög langir á sumum trjánna og sá lengsti um 85 sentímetrar. Það er greinilega gott að vera barrtré á Þelamörkinni.


        Línustæðið er fyrirtaks uppeldisstöð fyrir fræplöntur. Lengst til vinstri sjást pattaralegar rauðgreniplöntur,
í miðjunni þráðbeint og fallegt lerki og til hægri efnileg fóstursystkin fædd á Vöglum á Þelamörk,
rauðgreni og stafafura.

Lerkið blómstrar vel á Vöglum á Þelamörk. Hér sjáum við eldri köngla og ný blóm
sem virðast þrauka í hretinu og bíða þess að hlýni.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson