Starfsreynsla geti nýst sem hluti skógræktarnáms

Fólki sem starfað hefur við skógrækt en ekki menntað sig í greininni býðst nú raunfærnimat hjá Austurbrú sem stytt getur námstíma þess í skógræktarnámi við Landbúnaðarháskóla Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Matið styrkir starfsmanninn í starfi og getur leitt til starfsþróunar.

Austurbrú er sjálfseignarstofnun sem vinnur að þróunar- og þekkingarmálum á Austurlandi, markaðsmálum fyrir landshlutann og menningarmálum. Að stofnuninni standa sveitarfélögin eystra, háskólar landsins, fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur.

Raunfærnimat í skógrækt er leið til að meta raunverulega færni og kunnáttu fólks sem er orðið 23 ára og unnið hefur a.m.k. þrjú ár í skógrækt. Hugmyndin er sú að þetta mat styrki fólk í starfi og starfsþróun og opni því dyr til náms í greininni. Reynsla þess og þekking er metin með hliðsjón af þeim námsgreinum sem kenndar eru í skógtækni og skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og ef viðkomandi ákveður að hefja námið er möguleiki að námstíminn styttist í samræmi við þá færni sem nemandinn hefur öðlast í starfi.

Til að komast í raunfærnimatið er ekki skilyrði að þátttakendur skrái sig til náms en raunfærnimatið skjalfestir kunnáttu og færni þeirra í faginu. Raunfærnimat getur styrkt stöðu þátttakanda innan skógræktargeirans og leitt til starfsþróunar. Fari svo að viðkomandi hefji nám getur raunfærnimatið nýst til styttingar námstíma á brautinni Skógur/náttúra í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi sem er hluti af LbhÍ. Námið er starfsmenntanám á framhaldsskólastigi.

Nú þegar hafa átta manns lýst áhuga á að komast í raunfærnimat í skógrækt hjá Austurbrú að sögn Else Möller sem hefur umsjón með verkefninu. Á næstu vikum og mánuðum tekur náms- og starfsráðgjafi Austurbrúar viðtöl við umsækjendur og í kjölfarið fylgja viðtöl við fulltrúa LbhÍ. Raunfærnimat er í boði fyrir ýmsar aðrar starfsgreinar og hefur gefið mjög góða raun. Það hefur hjálpað mörgum sem af ýmsum ástæðum hafa ekki aflað sér menntunar. Því er ástæða til að hvetja fólk með reynslu af skógræktarstörfum til að huga að þessum möguleika. Fólk sem gengst undir raunfærnimat í vetur getur sótt um skólavist næsta haust.

Allar frekari upplýsingar gefur Else Möller hjá Austurbrú, else@austurbru.is eða 470 3850. Þau sem vilja kynna sér málið nánar eru hvött til að hafa samband.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson