Rekaviður var um aldir dýrmæt auðlind í löndunum kringum norðurskautið og er að einhverju leyti enn. Jafnframt geymir hann dýrmætar upplýsingar um fortíðina, meðal annars um loftslag á hverjum tíma. Mynd: Thewellman/Wikimedia Commons
Gerir kleift að endurgera veðurfarsgögn langt aftur í aldir
Fyrr í mánuðinum var haldinn á Mógilsá þriggja daga vinnufundur um rekavið sem tæki til að tvinna saman rannsóknir á umhverfi lands og sjávar. Saman kom vísindafólk á sviði trjá- og viðarfræði, loftslagssögu og fornvistfræði en einnig fornleifafræði, haffræði og aldursgreiningar með geislakolum. Öll þessi vísindasvið eiga snertifleti í norðurslóðarannsóknum og á fundinum sat 21 þátttakandi frá tíu löndum Evrópu og Norður-Ameríku.
Markmið fundarins var í fyrsta lagi að skipuleggja og samhæfa vettvangsrannsóknir sem eru í deiglunni, í öðru lagi að sameina krafta um þverfaglega yfirlitsgrein um rekavið og í þriðja lagi að sameinast um leiðir til að fjármagna starfið og leggja drög að styrkumsóknum til að efla alþjóðlegar rannsóknir á rekaviði.
Flestir þátttakenda fluttu erindi sem tóku mið af þeim ólíku fræðasviðum sem hver og einn starfar að. Fyrst var haldin málstofa um árhringjafræði og loftslagsfræði. Þar fékkst gott yfirlit um þann árangur sem náðst hefur á þessu sviði og þá möguleika sem rekaviður gefur til uppruna- og aldursgreiningar en einnig möguleikann á að búa til líkön af hafstraumum í fortíðinni og breytileika á hafís í Íshafinu.
Önnur málstofa hófst með því að kafað var ofan í fornloftslag norðurslóða sem byggist meðal annars á vísbendingum sem lesa má úr rekaviði. Þá var einnig fjallað um ýmsar fornleifarannsóknir sem byggjast á rekaviði, allt frá sveppum sem brjóta niður við yfir í viðarnotkun til forna og aldursgreiningu fornleifa úr rekaviði með árhringjarannsóknum.
Á þriðju málstofunni var fengist við sjávarstöðubreytingar í norðri, áhrif minnkandi íss á norðurslóðum, notkun upplýsinga um fornveðurfar til að styrkja spár um þróun fornveðurfars og einnig var drepið á þeim framförum sem orðið hafa að undanförnu í aldursgreiningu með geislakolum.
Umræðan á þessum þriggja daga vinnufundi einskorðaðist ekki við þau málefni sem fjallað var um í erindunum heldur var einnig til umræðu hvernig skiptast mætti á sýnum milli landa og tryggja hindrunarlausan aðgang að gögnum. Sömuleiðis voru settar fram hugmyndir að styrkumsóknum.
Hér má glöggva sig á hinum flóknu farleiðum rekaviðarins á norðurslóðum en einnig magni hans og viðartegundum. Þættir eins og gróður- og jarðvegseyðing og umfang skógarhöggs í hinum norðlægu barrskógum koma þarna við sögu einnig. Hversu mikinn við rekur lengra til og í hvaða áttir hann fer ræðst af því hvað berst til sjávar úr fallvötnum, útbreiðslu hafíss, sjávarstraumum og þeim tíma sem ferðalagið tekur sem helgast af floti viðarins. Rekaviðinn rekur yfirleitt að ströndum
þar sem aðgrunnt er og íslaust.">
Samkomulag varð um að hópurinn myndi skrifa þverfaglega yfirlitsgrein um núverandi stöðu þessara mála og þau viðfangsefni sem blasa við á komandi árum á sviði rekaviðarrannsókna á norðurslóðum. Á meðfylgjandi mynd má glöggva sig á flóknu leiðakerfi rekaviðar í norðurhöfum sem undirstrikar þörfina fyrir þverfaglega rannsóknarsamvinnu um þessi efni.
Þátttakendur taka að sér að skrifa mismunandi kafla í yfirlitsgreininni en helsta hvatningin að þessum skrifum er hversu viðkvæmt norðrið er fyrir loftslagssveiflum. Sömuleiðis er þröskuldur í þessari vinnu hversu saga beinna mælinga er stutt á norðurslóðum. Þekkingu skortir á þeim sveiflum sem hafa orðið í aldanna rás á útbreiðslu hafíssins, hafstraumakerfum, sjávarhæð, útbreiðslu lífvera, flutningshraða innan Íshafsins og mikilvægi rekaviðar fyrir samfélög fólks í norðri.
Rekaviður á norðurslóðum er sameiginlegur sem tengir saman mismunandi rannsóknarsvið á norðurslóðum. Hann er aðgengilegur og fremur ódýr upplýsingabanki um umhverfið og gefur geysimikla möguleika sem enn eru vannýttir og þarfnast rannsókna. Með þverfaglegri samvinnu er hægt að vinna áreiðanlegri gögn um fortíðina og ná lengra aftur í tímann en fyrirliggjandi gögn úr mælitækjum leyfa.
Til þess að ná til sem flestra er nauðsynlegt að taka saman í yfirlitsgreininni þær aðferðir sem notaðar eru og efnivið sem tiltækur er úr þeim ólíku greinum sem nýta rekavið á norðurslóðum í rannsóknum. Vettvangsrannsóknir, hagnýt framkvæmdaatriði, og vinnulag við sýnatöku eru líka atriði sem mikilvægt er að huga vel að í rekaviðarrannsóknum í norðri. Við greiningu sýna má notfæra sér aðferðir viðarfræði, árhringjatímatals, sveppafræði og aldursgreininga með kolefni 14 og strontíni.
Í yfirlitsgreininni verður talað áfram fyrir nauðsyn þess að rekaviður á heimskautasvæðinu verði nýttur sem þverfaglegur gagnabanki sem geti bætt fyrir skortinn á langtímamælingum og ítarlegum líkönum. Yfirlitið gefi færi á því að forgangsraða vettvangsathugunum og rannsóknarverkefnum á komandi árum og koma rekaviði norðurslóða á framfæri sem fjölþættri gagnauppsprettu svo betur megi skilja eðlisþætti heimskautakerfanna í fortíð og nútíð.
Gert er ráð fyrir því að haldinn verði framhaldsfundur um rekaviðarrannsóknir á norðurslóðum í maí 2017.