Á baksíðu New York Times birtist mynd af Jóni Ásgeiri Jónssyni, skógfræðingi hjá Skógræktarfélagi Ís…
Á baksíðu New York Times birtist mynd af Jóni Ásgeiri Jónssyni, skógfræðingi hjá Skógræktarfélagi Íslands, með lerkibakka í annarri hendi og geispu í hinni á leið til gróðursetningar í rýru mólendi.

New York Times fjallar um skógrækt á Íslandi

Mynd af Jóni Ásgeiri Jónssyni, skóg­fræð­ingi hjá Skógræktarfélagi Íslands, birtist á baksíðu sunnudagsblaðs bandaríska stór­blaðsins New York Times 22. október. Í blaðinu og á vef þess er rætt við Jón Ásgeir um hvernig forfeður okkar eyddu nær öllum skógi á Íslandi og hversu hægt gengur að endurheimta skóglendi á landinu. Einnig er rætt við Guðmund Halldórsson hjá Land­græðslunni og Sæmund Þorvaldsson hjá Skógræktinni.

Yfirskrift greinarinnar er „Vikings Razed the Forests, Can Iceland Regrow them?“ Vík­ing­arnir eyddu skógunum, geta Íslendingar ræktað þá aftur? Í undirfyrirsögn segir að landið hafi misst mestalla skóga sína fyrir löngu og þrátt fyrir að unnið hafi verið í áraraðir að gróðursetningu miði verkinu hægt. Greinina skrifar Henry Fountain og myndir eru eftir Josh Haner.

Á myndinni af Jóni Ásgeiri Jónssyni sést hann á gangi um snauða og skóglausa móa með tvo bakka af lerkiplöntum í annarri hendinni og geispu í hinni. Blaðið ræðir við Jón Ásgeir og fram kemur að landsmenn vilji fá til baka eitthvað af því skógi vaxna landi sem þakti fjórðung Íslands við landnám en eyddist fljótt þegar landið byggðist. Tilgangurinn sé að bæta og beisla snauðan jarðveginn, lyfta undir með landbúnaði og berjast gegn loftslagsbreytingum.

En það gengur hægt að rækta á ný þó ekki væri nema brot af því mikla skóglendi sem áður þreifst á landinu og verkið virðist óendanlegt. Þrátt fyrir að árlega hafi verið gróðursettar þrjár milljónir trjáplantna síðustu árin stækkar gróðurþekjan hægt. Hún var komin niður í eitt prósent í upphafi 20. aldarinnar.

„Þetta er sannarlega torsótt,“ segir Jón Ásgeir í blaðinu. Á undanfarinni öld hafi náðst að koma upp ræktuðum skógi á hálfu prósenti landsins. Jafnvel þótt Ísland sé lítið land séu fáeinar milljónir trjáplantna eins og dropi í hafið.

Blaðið ræðir um að þetta bera og að mestu skóglausa land, prýtt jöklum og eldfjöllum, hafi orðið mjög vinsælt til kvik­myndagerðar hin seinni ár. Sú ásýnd hafi líka stuðlað að stórfjölgun ferðamanna. Fegurðinni fylgi þó vandi sem Ís­lend­ingar hafi þurft að kljást við um aldir. Skógleysið og gosefni sem upp koma í eldgosum hafi leitt til alvarlegrar jarðvegseyðingar.

Gróðurinn á erfitt með að festa rætur og búskapur með grasbíta hefur verið erfiður á stórum svæðum landsins. Jarð­vegurinn er laus í sér og veðurfar vindasamt. Moldrokið ýtir undir eyðingu landsins og sandbyljir geta orðið svo miklir að lakk hreinsist af bifreiðum.

Íslenskir bændur hokruðu um aldir þrátt fyrir uppblástur og landeyðingu. Blaðið segir frá því að í kjölfarið á óvenju­miklum uppblæstri 1882 hafi stjórnvöld ráðist í markvissar aðgerðir til að endurheimta skóglendi og vernda jarðveg.

Meiri útbreiðsla skóga í sveitum Íslands myndi að sögn blaðsins hafa ýmsa kosti umfram þá að vernda lönd bænda fyrir eyðingaröflunum. Eftir því sem umræðan um loftslagsbreytingar hefur orðið háværari hafi leiðtogar landsins horft meira til þess að rækta mætti skóg til að landið gæti uppfyllt loftslagsskuldbindingar sínar.

Þrátt fyrir almenna notkun jarðvarmaorku og vatnsafls bendir blaðið á að sótspor landsins sé stórt. Útblástur gróður­húsa­lofts á hvert mannsbarn sé mikill, aðallega frá flutningatækjum og þungaiðnaði eins og álverum. Stjórnvöld vinni með Evrópusambandinu og Noregi að sameiginlegu markmiði um 40 prósenta samdrátt losunar frá 1990 fram til 2030. Fram til 2050 skuli draga úr losun um 75 prósent.

Tré taka til sín koltvísýring og geyma kolefnið úr honum í stofni, rót og öðrum vefjum. Tré geta því bundið eitthvað af losun landsmanna. New York Times ræðir líka við dr Guðmund Halldórsson, rannsóknarstjóra Landgræðslunnar, sem segir að gróðursetning trjáplantna sé mikilvægur þáttur í mótvægisaðgerðum Íslendinga og mikið um hana rætt. En eins og Jón Ásgeir bendi á sé auðveldara um að tala en í að komast að endurskapa horfið skóglendi.

Þegar landið byggðist var mikill hluti lág­lendisins hringinn í kringum landið þakinn birkiskóglendi. Guðmundur tíundar að hingað hafi komið fólk með járnaldar­menningu og hafi hegðað sér samkvæmt því, fellt og brennt skóginn til að rækta hey og bygg og til að beita landið. Viðurinn hafi verið notaður til húsbygginga og kolagerðar til járnsmíða. Flestar heimildir hermi að landið hafi verið að mestu orðið skóglaust á þremur öldum.


„Þau kipptu stoðunum undan vist­kerf­un­um,“ segir Guðmundur Halldórsson við blaðið. Í eldsumbrotum á öldunum sem á eftir fóru lögðust þykk öskulög yfir landið. Og jafnvel þótt askan sé næringarefnarík býr hún til mjög viðkvæman jarðveg sem þolir illa vatns- og vindrof. Afleið­ing­in var sú að Ísland er skólabókardæmi um eyðimerkur­myndun með litlum eða engum gróðri þrátt fyrir að hvorki hita né þurrki sé um að kenna.

Um 40% Íslands eru eyðimerkur, hefur blaðið eftir Guðmundi Halldórssyni. Samt rignir mikið. „Við köllum þetta blaut­ar eyði­merkur,“ segir hann. Ástandið er svo slæmt að nemendur koma til Íslands frá löndum þar sem eyðimerkur­mynd­un er mikil til að kynnast því hvernig eyðilegging­in fer fram.

Sagt er frá því að ein stærsta eldstöð lands­ins sé skammt frá Gunnarsholti þar sem skrifstofa Guðmundar er, um 60 kílómetrum austur af höfuðborginni Reykjavík. Í sandblæstrinum mikla 1882 hafi býlið í Gunnarsholti og stór svæði umhverfis breyst í auðn og allur gróður horfið. Mörg hundruð fjár drápust. Sandurinn hlóðst í ullina á þeim svo skepnurnar sliguðust og komust ekki í skjól. Stöðuvatn nærri bænum fylltist af sandi. Bændur fundu silunga liggjandi ofan á sandinum þegar veðrinu slotaði. „Allt sópaðist einfaldlega burtu,“ segir Guðmundur. „Á þessu áttar fólk sig ekki. Svona getum við misst mikið á tiltölulega fáum árum.“

Landgræðslan tók við jörðinni á þriðja áratug síðustu aldar og þar hafa síðan verið gerðar tilraunir með leiðir til að bæta jarðveginn og gera gróðri kleift að þrífast á ný. Fram kemur að venjulega sé byrjað á því að sá melgresi sem vaxi hratt og geti bundið jarðveginn. Oftast taki svo lúpínan við með sínum uppréttu fjólubláu blómum en síðar komi trén. Skógræktin byrji venjulega á því að gerð sé úttekt á viðkomandi svæði og Jón Ásgeir Jónsson hjá Skógræktar­félagi Íslands segir það felast í því að skoða þann gróður sem fyrir er. „Þannig má meta frjósemi jarðvegsins sem undir er,“ segir hann.

Svo gróðursetja Jón Ásgeir og félagar í skógræktarfélögum viðeigandi trjátegundir í landið, birki, sitkagreni, stafafuru, rússa­lerki og fleira. „Við myndum gjarnan vilja nota ösp,“ segir hann, „en kindurnar eru sólgnar í ösp.“.

Í blaðinu er því næst rætt við Sæmund Þorvaldsson, skógfræðing hjá Skóg­rækt­inni, sem vinnur bæði með skógrækt­ar­­félögum og bændum að skógrækt á Vest­fjörðum. „Rétta“ tegundin sé í þriðjungi tilfella birki, tegundin sem var ríkj­andi þegar landið byggðist. Birkið þoli rýran jarðveg og jafnvel þótt það vaxi mjög hægt búi það á endanum til skjól sem nýtist öðrum tegundum.

Flestar af þessum „öðrum tegundum“ eru upprunnar í Alaska svo sem sitkagreni, stafafura og alaskaösp. Þær eru aldar upp í íslenskum gróðrarstöðvum enda innflutningur á skógarplöntum bannaður. Þessar tegundir vaxa betur en birki og henta því betur til kolefnisbindingar. En allt vex hægt á Íslandi að sögn Þorvaldar sem bendir á skóg í ná­grenni Ísafjarðar þar sem gróðursett hafi verið sitkagreni á fimmta áratugnum. Þar séu trén um 15 metra há en í suð­austanverðu Alaska gætu þau auðveldlega verið orðin þrefalt hærri á þeim aldri.

Enginn gerir ráð fyrir því að fjórðungur Íslands verði nokkurn tíma aftur vaxinn skógi, segir í grein New York Times. En ef litið sé á hægan vöxtinn og gríðarlega stærð verkefnisins muni taka langan tíma að auka skógarþekjuna þó ekki væri nema örlítið. „Nú er litið til þess að við gætum e.t.v. náð 5 prósenta skógarþekju á næstu fimmtíu árum,“ segir Sæmundur. „En ef áfram verður haldið eins og nú miðar, tekur það hálfa aðra öld.“

Upprunalegur texti: Henry Fountain
Myndir: Josh Haner
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson