#Vesturameríkuskógar2013 

Þegar land tekur að hækka í átt að Klettafjöllunum í suðurhluta Bresku-Kólumbíu verða skógarnir öllu gróskumeiri en á láglendi milli fjallgarða, enda öllu meiri úrkoma. Í jöklaþjóðgarðinum Glacier National Park, áður en komið er upp í hæstu fjöll, er að finna gróðurbelti þar sem degli, marþöll og risalífviður eru ríkjandi trjátegundir.

Á stöku stað hafa skógarnir aldrei verið felldir og þar má sjá risatré. Þau sem vekja hvað mesta athygli á þessu svæði eru risalífviðir (Thuja plicata). Trén eru allt að 70 m há, en í svona skógum sést sjaldnast upp í toppa trjánna. Það eru því bolirnir sem fólk sér og eru hvað áhrifamestir; gildir og beinir. Á annarri myndinni sést í fólk, sem gefur stærðarsamanburð.

Risalífviður er trjáegund sem hægt er að rækta á Íslandi. Nokkur tré þessarar tegundar, einmitt ættuð frá Bresku-Kólumbíu, vaxa við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi, eru þráðbein og sýna góðan vaxtarþrótt. Þau hafa þroskað fræ og eru plöntur vaxnar upp af því fræi á nokkrum stöðum. Risalífviður hefur ýmsa kosti sem gera hann áhugaverðan í íslenskri skógrækt; stærð, glæsileika og verðmætan við sem er til margs nýtilegur og mjög endingargóður.

Tegundin er skuggþolin og langlíf en ekki frumherjategund. Risalífviður þarf algjört skjóli undir skermi anarra trjáa í æsku. Því ætti hann að vera meðal þeirra tegunda sem til greina koma til íblöndunar í yndisskógrækt og til endurnýjunar þegar kemur að lokafellingu skóga seinna á öldinni. Áhugafólk um skóg- og trjárækt ætti því að prófa sig áfram með þessa tegund svo upp safnist meiri reynsla af ræktun hennar hérlendis.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Kvikmyndataka: Hlynur Gauti Sigurðsson
Samsetning: Kolbrún Guðmundsdóttir
Fréttin var uppfærð 26.10.2021