Risafura, séð upp eftir strjástofni og í bláan himininn
Risafura, séð upp eftir strjástofni og í bláan himininn
#Vesturameríkuskógar2013

Af stærstu lífverum heims

Stærstu lífverur heims eru risafurur (Sequoiadendron giganticum). Þær eru engar furur, heldur teljast þær til sýprusættar rétt eins og einir. Heimkynni þeirra eru í 1.000-2.000 metra hæð í vesturhlíðum Snjófjalla (Sierra Nevada) í Kaliforníu. Á því hæðarbili er næg úrkoma til að halda uppi þéttum og miklum barrskógum, en þessi úrkoma fellur mest sem snjór að vetrarlagi. Þegar farið er um fjallgarðinn má sjá risafurur mjög víða, allt frá syðsta hlutanum norður til Tahoe-vatns. Þær vaxa í skógum innan um gulfuru, sykurfuru, rauðþin, degli og risalífvið og eru óvíða miklu stærri en þær tegundir, enda ungar. Þarna hafa skógar verið nytjaðir í um 170 ár og eru flestir endurvaxnir eftir skógarhögg.

Hlynur gauti við rætur risans. Alvöru trjáknús, þetta!Þeir gömlu risafurulundir sem enn standa eru allir verndaðir innan þjóðskóga eða þjóðgarða og verða aldrei felldir. Risafurur vaxa hratt upp í loftið en það tekur þúsund ár eða meira að ná þeim gríðarlega sverleika sem þær eru þekktastar fyrir. Þær sverustu eru meira en 3.000 ára gamlar. Hefðu öll stærstu trén verið felld væri tegundin ekki útdauð en allmargar kynslóðir manna myndu koma og fara þar til nokkur sæi álíka tré aftur. Það hefði getað talist glæpur gegn mannkyninu að fella síðustu risafururnar, því það er mögnuð upplifun að ganga um skóga þessara risa.

Risafurur í skógiLangt var liðið dags þegar Héraðsbúar sem þarna voru á ferð í september óku upp snarbratt fjallið til að skoða Héraðsmann hershöfðingja (General Shermann), þá stærstu af öllum risafurum og alstærstu lífveru í heimi. Viðarmagnið í því eina tré (um 1.400 m3)  samsvarar um helmingnum af árlegri grisjun skóga á Íslandi. Allt til ársins 2009 var minna viðarmagn fellt árlega á Íslandi en er í þessu eina tré.

Þegar loksins var komið að lundinum var skollið á kolniðamyrkur. Ekki létu menn það á sig fá og gengu stíginn að trénu, sem var um hálfur kílómetri. Ef eitthvað var, fann maður enn meira fyrir smæð sinni innan um alla þessa risa í myrkrinu. Þegar loks var komið að General Shermann fór það ekki milli mála hvar hann var. Það var heil gönguferð í sjálfri sér að ganga í kringum stofninn. Þegar horft var upp byrgði krónan helminginn af stjörnubjörtum himninum. Tréð hafði sitt eigið aðdráttarafl.  

Risi í myrkriEflaust hafa flestir sem þetta lesa séð myndir af General Shermann trénu. Þær koma strax upp við að gúgla. En myndir geta ekki sýnt tilfinningarnar sem vakna við að standa við hlið svo tignarlegrar lífveru.   

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Kvikmyndataka: Hlynur Gauti Sigurðsson
Samsetning: Kolbrún Guðmundsdóttir
Fréttin var uppfærð 26.10.2021