SAMANTEKT

Lárus Heiðarsson og Loftur Jónsson. Ákvæðisvinna við grisjun í lerkiskógum. Rit Mógilsár Rannsóknastöðvar Skógræktar nr. 18 /2004. 14. bls.

Árið 2003 ákváðu Héraðsskógar að taka upp ákvæðisvinnu í skógarhöggi. Fram að því hafði grisjun verið unnin í tímavinnu. Tilgangurinn með þessari breytingu var að auka hagræðingu við grisjun, bæði fyrir Héraðsskóga og þá sem stunda grisjunarvinnu á vegum verkefnisins. Grisjaðir voru 5 skógarteigar á misjöfnum aldri og mælt hve langan tíma það tók að fella mismunandi stór tré og hversu mörg voru felld á tímaeiningu. Við þessar mælingar unnu höfundar ásamt tveimur starfsmönnum Skógræktar ríkisins á Hallormsstað. Ákvæðisvinnukerfið er af norrænni fyrirmynd og er greitt fyrir hvert fellt tré. Eins árs reynsla af ákvæðisvinnukerfinu hefur leitt til töluverðar aukningar á afköstum og tekjum hjá duglegum grisjunarmönnum. Auk þess geta skógareigendur áætlað kostnað við grisjun með meiri nákvæmni en í tímavinnu.