Vel ræktaður lerkiskógur, bjartur og fallegur með ríkulegum botngróðri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
(fræðiheiti: Larix sibirica var. sukaczewii),
Lerki er ættkvísl sumargrænna barrtrjáa sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli jarðar eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt (Pinaceae) og ættbálkinum Pinales. Fyrrum var lerki kallað lævirkjatré eða jafnvel barrfellir enda ólíkt öðrum barrtrjám sem við þekkjum að því leyti að það fellir barrið á haustin.
Af lerkitegundum hafa nokkrar verið reyndar hérlendis, aðallega þó síberíulerki sem eins og heitið gefur til kynna er ættað frá Síberíu og er einkennistré í víðáttumiklum skógum Rússlands og Síberíu. Reynd hafa verið ýmis kvæmi lerkis frá Rússlandi og Síberíu og hafa þau rússnesku, sem við köllum rússalerki, reynst betur hérlendis. Þau síberísku þola mjög illa umhleypinga og hlýnandi loftslag enda aðlöguð köldum staðviðrasömum vetrum fjarri sjó. Rússalerki er m.ö.o. ekki sérstök tegund, heldur samheiti yfir þau kvæmi síberíulerkis sem eru í Úralfjöllum og vestan við þau. Rússalerki hefur reynst dýrmætt í skógrækt á Norður- og Austurlandi og jafnvel inn til landsins í öðrum landshlutum en þrífst illa í umhleypingum við sjávarsíðuna, sérstaklega sunnan- og vestanlands.
Vex hratt í æsku
Rússalerki er stórvaxin trjátegund og gæti náð a.m.k. 30 metra hæð hérlendis. Það er ein þeirra trjátegunda sem nú þegar hafa náð yfir 25 metra hæð á Íslandi. Þetta er oftast einstofna, fremur beinvaxið tré með mjóa krónu en erfið vaxtarskilyrði geta haft þau áhrif á vaxtarlagið að trén myndi fleiri en einn stofn og stofnar nokkuð kræklóttir.
Lerki vex hratt í æsku en eftir þrítugt fer að draga úr vexti þess. Í nytjaskógrækt hérlendis er nú talið skynsamlegt að nytja lerki fáeinum áratugum fyrr en áður var talið eða um 50-60 ára aldur. Sem frumherjategund í skógrækt hefur lerki þann kost að vera ljóselsk tegund en ungplöntur þola illa samkeppni við gras. Það vex hins vegar vel í rýrum jarðvegi enda í góðu samfélagi við örverur og sveppi sem gefa því næringu. Lerki gefur gott timbur sem hefur innbyggða fúavörn og hentar því vel utanhúss.
Ráðist gegn veikleikum með kynbótum
Helstu veikleikar rússalerkis eru vorkal. Frá heimkynnum sínum í Rússlandi og Síberíu er það vant því að veturinn standi stöðugur fram á vor og síðan komi vorið fyrir alvöru. Hérlendis geta komið hlýindakaflar síðla vetrar og snemma vors sem lerkið túlkar sem svo að nú sé vorið komið. Svo koma hretin sem við þekkjum öll vel og þá getur farið illa fyrir lerkitrjám sem eru komin í vöxt. Vorkal eftir vetrarhlýindi veldur stundum skemmdum og vaxtartapi hjá rússalerki. Eftir því sem loftslag hlýnar er líklegt að slíkar skemmdir verði tíðari. Því er skynsamlegt að gróðursetja nú rússalerki hærra í landinu en gert hefur verið hingað til. Enn um sinn verður rússalerki þó besta tegundin sem völ er á til að rækta í rýru landi á Norður- og Austurlandi
Til að bregðast við þessari þróun hefur um árabil verið unnið að kynbótum á rússalerki og tilraunum til blöndunar úrvalstrjáa af rússalerki og evrópulerki. Þessi blöndun hefur borið þann árangur að nú er í ræktun hjá Skógræktinni lerkiblendingur sem kallast 'Hrymur'. Fræ af þessum blendingi eru ræktuð með stýrðri víxlun í stóru gróðurhúsi í Vaglaskógi. 'Hrymur' sýnir kosti beggja tegundanna en síður galla þeirra. Hann vex mun betur en rússalerki en þrífst almennt betur hérlendis en evrópulerki. Þá hefur komið í ljós að hann vex einnig vel á réttum stöðum við suður- og vesturströndina.
Með hlýnandi veðri í framtíðinni gæti evrópulerki líka orðið mikilvæg trjátegund í íslenskri skógrækt þar sem skilyrði verða best, einkum á Suðausturlandi til að byrja með.
#trjátegundir