Út er komin mikil skýrsla frá sænsku skógrannsóknastofnuninni (Skogforsk) um aspir og mögulega ræktun þeirra og nýtingu í Svíþjóð. Nefnist hún  ARBETSRAPPORT FRÅN SKOGFORSK NR 733 2011  - Orienterande studie om ett svenskt forskningsprogram för poppel. Investigation for a Swedish research program on the genus Populus.Höfundar skýrslunnar eru Lars Rytter & Tord Johansson, Almir Karačić og Martin Weih og meðhöfundar Pål Börjesson, Niklas Fogdestam, Mats Hannerz, Pär Ingvarsson, Håkan Rosenqvist og Lars-Göran Stener. Höfundar og meðhöfundar eru starfsmenn Skogforsk, Landbúnaðarháskólans (SLU) og orkuyfirvalda (Energimyndigheten).

Skýrslan er úttekt á rannsóknum og reynslu af asparræktun og kynbótum á ösp í heiminum og möguleikum á stórfelldri asparrækt í Svíþjóð. Hingað til hafa Svíar mestmegnis ræktað víðitegundir til lífmassaframleiðslu en hyggjast nú gera átak í að kynbæta ösp og prófa í tilraunum vítt og breitt um landið. Fram kemur í skýrslunni að Ísland er hið eina af norrænu löndunum sem nú vinnur að kynbótum á ösp.

Í skýrslunni er lagt til að rannsóknir verði auknar og dregin fram þau vandamál sem helst standa í vegi fyrir að asparrækt í stórum stíl geti orðið arðbær í Svíþjóð, og farið yfir mögulegar lausnir á þeim. Lagt er til að hafnar verði kynbætur á ösp, bæði með tilliti til skjóts árangurs í að fá fram hraðvaxta efnivið og kynbætur sem miða að aukinni fjölbreytni þegar til lengri tíma er litið. Í langtímakynbótunum verði lögð áhersla á mótstöðu gegn skaðvöldum. Einnig er lagt til að rannsóknir á viðareiginleikum, ræktunartækni, umhverfisáhrifum og mörgum fleiri atriðum verði auknar. Kannað verði einnig hversu mikið land sé til ráðstöfunar fyrir asparæktun.

Þessi skýrsla er mikill fengur fyrir skógræktarfólk á Íslandi og ætti að vera góður leiðarvísir um hver verkefnin verða hér á landi. Auðvitað höfum við ekki bolmagn til þess að framkvæma allt sem Svíar hyggjast gera. Það er því gott að vera í góðu sambandi við sænska vísindamenn og skógræktarfólk á þessu sviði.

Þess má að lokum geta að Svíar hafa falast eftir íslenskum alaskaaspar- og blendingsklónum sem þeir munu prófa í víðtækum klónaprófunum sem hafnar verða á þessu ári. Þeir fengu reyndar marga af okkar klónum rétt fyrir aldamótin og eru þeir í safni í Sävar (Umeå). Þeir hafa víst ekki reynst sem skyldi á þeim stað, en þeir suðlægu (Iðunn og Salka) standa sig vel í Uppsölum.


Texti: Halldór Sverrisson