Tréð fórnar sprotum og jafnvel greinum
„Ég held að það hafi verið 8. janúar síðastliðinn vetur þegar það var mikið vestan hvassviðri og jós sjó yfir allt landið. Þá skemmdust þessar nálar. Ónæmisviðbrögð trésins eru þau að fylla sprotann af harpixi til að loka hann af. Af því þetta gæti verið sveppasýking eða einhver önnur sýking. En það þekkir náttúrulega ekki muninn á saltákomu og sveppasýkingu. Þetta er bara einhver skemmd. Það lokar greinina af og fórnar henni,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Óvenjumiklar skemmdir þetta sumarið
Skógræktin er með tilraunalund á Höfða innan við Egilsstaði með ólíkum kvæmum af stafafuru. Þar sést greinilega að þau þola saltið misvel. Skemmdirnar eru um allt land en óvenjumiklar á Austurlandi núna enda sjaldgæft að saltveður úr vestri nái alla leið austur.
„Svona skemmdir eru algengari á vestanverðu landinu af því að svona saltveður eru algengust í vestanáttum og suðvestanáttum. Við höfum þess vegna lagt meiri áherslu á að nota kvæmi sem þola þetta betur á vestanverðu landinu og Suðurlandi, eins og til dæmis stafafuru frá Skagway [í Alaska]. Hér fyrir austan höfum við ekki þurft að passa okkur svo vel að velja þau kvæmi þannig að við erum með kvæmi hér af stafafuru og sérstaklega skógarfuru sem við sjáum að hafa eiginlega ekkert þol gagnvart svona saltákomu,“ segir Þröstur.
Trén grænka aftur fyrir rest
Víða má sjá dauða sprota og ljóst að sum trén verða lengi að ná sér. „Sprotarnir sem eru svona mikið skemmdir þeir eru dauðir og munu ekkert lifna aftur. En innan um eru alls staðar grænir sprotar sem munu síðan taka við að vaxa og tréð mun grænka fyrir rest. En það fer eftir því hvað það er mikið skemmt hversu langan tíma það tekur og hversu mikinn vöxt það missir þá í millitíðinni,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson