Garðyrkjuskólinn, Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Héraðsskógar, Vesturlandsskógar, Austurlandsskógar og Skjólskógar hafa gert með sér samning um gerð námsbókar fyrir Grænni skóga.

Nú eru 120 skógarbændur í Grænni skógum á Suðurlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum og því brýnt að koma út námsbók fyrir námið, sem verður aðlöguð námskeiðaröð Grænni skóga.

Við gerð bókarinnar verður byggt á reynslu þátttakenda, leiðbeinenda og aðstandenda af námskeiðunum síðustu ár. Bókin á einnig að henta öllum skógræktendum og gagnast sem námsbók í grunnatriðum skógræktar. Sérstök ritnefnd hefur tekið til starfa sem skipuð er fulltúa frá Garðyrkjuskólanum, Skógræktinni, Landgræðslunni og tveimur frá landshlutabundnu skógræktarverkefnunum. Ráðin verður ritstjóri til að stýra verkinu en hann og ritnefndin munu ákveða hvernig efni verður skipt upp í sjálfstæðar einingar, finnur höfunda að efni og ákveður hvernig efnið myndar eina heild í bókinni. Þá munu samstarfsaðilar Grænni skóga leggja til höfunda að efni í bókina. Námsbókin á að vera tilbúin eigi síðar en 1. september 2005.

Skrifað var undir samninginn í gær í tilraunagróðurhúsi Garðyrkjuskólans. Fimm fulltrúar af níu sem standa að bókinni gátu mætt á staðinn og skrifað undir. Hinir fá samningin sendan í pósti til sína og skrifa undir hann. Á myndinni eru, talið frá vinstri; Guðjón Magnússon frá Landgræðslunni, Ólafur Oddsson frá Skógræktinni, Arnlín Óladóttir frá Skjólskógum, Björn Bjarndal Jónsson frá Suðurlandsskógum og Sveinn Aðalsteinsson, skólameistari Garðyrkjuskólans.