Fyrir skömmu var undirritaður nýr samstarfssamningur milli Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins. Markmið samningsins eru m.a. að efla fræðslu og menntun á sameiginlegum fræðasviðum samningsaðila. Þá vilja aðilar auka rannsóknir á sviði skógræktar og skyldra greina. Af öðrum markmiðum má nefna þann vilja stofnananna að efla innlent og alþjóðlegt starf á fræðasviðum samningsaðila, svo sem á sjálfbærri landnýtingu, nýtingu erfðaauðlinda, gróður og jarðvegsverndar, vatnsbúskapar vistkerfa, kolefnisbindingar með skógrækt og félagslegum undirstöðum skógræktarstarfs. Einnig að nýta möguleika til samreksturs tækja og aðstöðu í þágu sameiginlegra verkefna og fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Ágúst Sigurðsson, rektor LbhÍ og Jón Loftsson, skógræktarstjóra, með Hvanneyrarkirkju í baksýn.
Hér að ofan voru markmið samningsins rakin en því næst segir orðrétt:
1.2 Forsendur markmiða
LbhÍ er mennta- og rannsóknastofnun á sviði náttúrunýtingar og umhverfisfræða með áherslu á verndun og sjálfbæra nýtingu auðlinda landsins, skipulagsmál, menningu og sjálfbæra þróun. Við LbhÍ er rekin námsbraut í skógfræði og landgræðslu þar sem meðal annars er boðið upp á sérhæfð námskeið á sviði skógræktar og skógræktarfræða. Einnig er við skólann námsbraut í náttúru- og umhverfisfræðum þar sem boðið er upp á fjölmörg námskeið er tengjast skógræktarstarfi á einn eða annan hátt, svo sem á sviði vatnshags, fjarkönnunar og landfræðilegra upplýsingakerfa. LbhÍ býður upp á framhaldsnám á ofangreindum fræðasviðum (M.Sc. og Ph.D.). Hjá LbhÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir á þeim fræðasviðum sem S.r. fæst við.
S.r. starfar eftir lögum um skógrækt nr. 3/1955 og er þekkingar-, þróunar- og þjónustuaðili fyrir stjórnvöld, almenning og aðra hagsmunaaðila að rannsóknum, ráðgjöf og þekkingarmiðlun á sviði skógræktar. Þá er stofnunin í forsvari fyrir Íslands hönd í erlendu samstarfi á sviði skógræktar.
Meginhlutverkið er:
1. Að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar sem eru í landinu.
2. Að græða upp nýja skóga þar sem henta þyki.
3. Að leiðbeina um meðferð kjarrs og annað það sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur.
Traust fagleg þekking og vel menntað starfsfólk er undirstaða þessa starfs og leggur S.r. áherslu á rannsóknir og fræðslu, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra.
Löng hefð er fyrir rannsóknasamstarfi S.r. og LbhÍ, auk þess sem stofnunin hefur tekið þátt í kennslu og leiðbeiningum hjá LbhÍ á fræðasviðum stofnunarinnar og keypt sameiginlega sérhæfð rannsóknatæki. Samning þennan gera samstarfsaðilar til að efla enn frekar samstarf sín á milli.
1.3 Menntun
Samningsaðilar vinna saman að mótun og framkvæmd stefnu varðandi námskrárgerð grunn- og framhaldsnáms í skógrækt og öðrum undirstöðugreinum fyrir vernd, eflingu og sjálfbæra nýtingu gróðurs og jarðvegs.
Starfsmenn Skógræktar ríkisins koma að kennslu og leiðsögn í lokaverkefnum nemenda bæði í grunn- og framhaldsnámi við LbhÍ samkvæmt nánara samkomulagi.
LbhÍ og S.r. munu eiga með sér samstarf um námskeiðahald á formi sí- og endurmenntunar þar sem samningsaðilar geta staðið saman að námskeiðum, ásamt hugmyndavinnu og greiningu á því hvers konar fræðslu er þörf.
1.4 Rannsóknir
Samningsaðilar munu vinna saman að stefnumörkun um auknar rannsóknir á hinum ýmsu undirstöðusviðum skógræktarstarfsins, m.a. með samstarfi hvað varðar hugmyndavinnu, starfskrafta, tæki og aðstöðu, öflun fjármagns, gagnasöfnun og kynningu á niðurstöðum. Stefnt er að því að nemendur komi að slíkum verkefnum í ríkum mæli og nýti sér sem námsverkefni. Jafnframt er lögð áhersla á að alþjóðlegt samstarf verði eflt.
1.5 Starfsmenn
S.r. og LbhÍ geta gert sérstaka samninga um sameiginlega starfsmenn á fræðasviðum sem samkomulag er að leggja sérstaka áherslu á, t.d. vegna rannsókna, kennslu, leiðsagnar og verkefna í rannsóknatengdu framhaldsnámi við LbhÍ. Gert er ráð fyrir því að ráðning sameiginlegra starfsmanna verði að jafnaði tímabundin.
Sérfræðingar S.r. sem sinna kennslu og leiðsögn nema eiga kost á að fá akademíska nafnbót (lektor/dósent/prófessor) við LbhÍ samkvæmt sérstökum samningi þar um og þeim reglum um hæfnismat sem gilda hjá LbhÍ.
Sameiginlegir starfsmenn og nemendur sem kostaðir eru af báðum aðilum birta ritverk sín í nafni beggja aðila og meistara- og doktorsverkefni sem S.r. kemur að, skulu bera auðkenni S.r. auk auðkenna LbhÍ.
1.6 Aðstaða
Verði þess óskað mun S.r. veita LbhÍ aðgang að húsnæði, rannsóknaaðstöðu og búnaði í starfsstöðvum stofnunarinnar um allt land samkvæmt nánara samkomulagi.
Á sama hátt veitir LbhÍ S.r. aðgang að starfsaðstöðu og þjónustu á Hvanneyri og Keldnaholti samkvæmt nánara samkomulagi.
2 Framkvæmd og gildistími
2.1 Gildissvið samningsins
Samningur þessi nær til samstarfs á sameiginlegum fræðasviðum samstarfsaðila og í raun hvar sem hagsmunir og áhugasvið þeirra liggja saman. Eftir því sem við á skal á grundvelli þessa samnings gera sérstakan samning um einstök verkefni þar sem markmiðum og formi þeirra er nákvæmlega lýst.
2.2 Samstarfsnefnd
Sett verður á fót samstarfsnefnd til að vinna að markmiðum samningsins. Í nefndinni sitja fjórir fulltrúar, tveir frá hvorum aðila. Hlutverk samstarfsnefndar er að hafa umsjón með og fylgja eftir markmiðum samningsins.
2.3 Gildistími
Samningurinn tekur gildi við undirskrift beggja aðila og gildir þar til honum hefur verið sagt upp, en uppsögn þarf að vera skrifleg og með tveggja mánaða fyrirvara. Verði veruleg breyting á rekstri annarrar hvorrar stofnunarinnar, eða þær sameinaðar öðrum stofnunum skal samningurinn endurskoðaður innan 6 mánaða frá þeirri breytingu.
Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum. Skal Landbúnaðarháskóli Íslands halda einu og Skógrækt ríkisins einu.
Reykjavík, 9. október 2009
F.h. Landbúnaðarháskóla Íslands
Ágúst Sigurðsson, rektor
F.h. Skógræktar ríkisins
Jón Loftsson, skógræktarstjóri