Landssamtök skógareigenda (LSE) héldu áttunda aðalfund sinn á Laugum í Sælingsdal helgina 19.-21. ágúst sl. LSE eru hagsmunasamtök skógareigenda, með aðild að Bændaskamtökum Íslands og flokkuð sem búgreinafélag, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Rétt til setu á aðalfundi samtakanna hafa félagsmenn í sex aðildarfélögunum, sem nú starfa um land allt.

Nánar má lesa um fundinn í Bændablaðinu, 30. ágúst 2005.

Á fundinum voru gerðar tvær samþykktir og samþykktar fimm ályktanir.

Aðalfundurinn samþykkti
-að lögbýli verði sem fyrr forsenda fyrir þátttöku í landshlutabundnum skógræktarverkefnum.
-að endurgreiðsluákvæði í samningum skógarbænda við landshlutabundin skógræktarverkefni verði áfram í þeirri mynd sem þau eru nú.

Ályktanir

Ljúka þarf vinnu við gagnagrunn
Aðalfundurinn beindi því til umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis að ljúka
sem fyrst vinnu við gagnagrunn sem skiptir landinu í sjö mismunandi landnýtingarflokka. Þetta er forsenda fyrir því að alþjóðasamfélagið samþykki kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu.

Í greinargerð segir að alþjóðlegar reglur um hvernig ríki eigi að telja fram kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu vegna Kyoto-samkomulagsins hafi ekki lengið fyrir fyrr en í desember 2004. ?Megin inntak þeirra er að ein ríkisstofnun hafi landfræðilegan gagnagrunn þar sem öll skógræktar- og landgræðsluverkefni eru kortlögð og landið sé flokkað í sjö landnýtingarflokka. Með þessu er tryggt að ekki sé verið að telja fram kolefnisbindingu með t.d. skógrækt og landgræðslu frá sama svæði - og að tekið verði tillit til skógareyðingar þegar t.d. stækkun þéttbýlis, vegagerð eða aðrar framkvæmdir valda því að skógi sé eytt. Síðan verði vísindalegum aðferðum beitt til að áætla breytingar á kolefnisforða þessara svæða á fyrsta viðmiðunartímabili Kyoto-samkomulagsins 2008-2013. Skógrækt ríkisins í góðri samvinnu við aðra skógræktendur er nú þegar langt á veg komin að uppfylla öll skilyrði um landfræðilegar upplýsingar og kolefnisbindingu skóglenda sem krafist er af alþjóðasamfélaginu. Það sem enn stendur út af er að landbúnaðar- og umhverfisráðuneyti komi á fót nefndum gagnagrunni sem tekur við upplýsingunum frá skógræktinni, landgræðslunni, Landbúnaðarháskólanum, Bændasamtökunum, Umhverfisstofnun og öðrum sem annast skýrslugjöf um mismunandi landnýtingu vegna Kyoto-samningsins. Þarna vantar sem sagt ennþá aðeins herslumuninn til að sú vinna sem unnin hefur verið af skógræktargeiranum í að meta kolefnisbindingu nýtist til fullnustu.?

Vottunarþjónusta
Aðalfundurinn beindi því til stjórnar LSE að hefja samstarf við landshlutabundin skógræktarverkefni að koma á fót vottunarþjónustu sem markaðssetur kolefnisbindingu hjá skógareigendum.

Í greinargerð segir: ?Kyoto-samningurinn skyldar iðnríki til að meta kolefnislosun með skógareyðingu og kolefnisbindingu með nýskógrækt sem átt hefur sér stað frá og með 1990 þegar losun þeirra af gróðurhúsalofttegundum er metin. Þar sem nýskógrækt er meiri en skógareyðing kemur hún ríkinu til góða og auðveldar því að ná markmiðum sínum í að hefta aukningu á nettó-losun koldíoxíðs. Í löndunum í kringum okkur er nú almennt að myndast innri markaður þar sem iðnaður/einkafyrirtæki geta keypt sér mótvægisaðgerðir fyrir aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda. Misjafnt er hvort þetta er gert með einhverjum afskiptum ríkisins eða ekki. Evrópubandalagið hefur skyldað fáeinar iðngreinar til að stuðla að aukinni kolefnisbindingu sem mótvægisaðgerð á móti stækkunum sem leiða til aukinnar mengunar. Almennt líta ríkin mjög jákvætt á að slíkur innri markaður myndist, enda mun það stuðla að því að auðveldara verður fyrir ríkið að ná markmiðum sínum um minni nettó losun gróðurhúsalofttegunda.

Það að ríkið þurfi að meta kolefnisbindinguna á landsvísu hefur gert hana að markaðsvöru og raunverulegri afurð skógræktar. Það er hins vegar almennt ekki ríkið sem greiðir fyrir hana beint, nema þá með því að auka áherslu á nýskógrækt í ríkisrekstri sínum og stuðla að minni skógareyðingu með breytingum á skipulagi og landnýtingu.?

5% láglendis verði klætt skógi
Aðalfundurinn skoraði á Alþingi að standa við lögin um Landshlutabundin skógræktarverkefni sem hafa það að markmiði að 5% láglendis verði klætt skógi á næstu 40 árum. Til að ná þessu markmiði laganna þarf að minnsta kosti að þrefalda árlega gróðursetningu frá því sem nú er.

Í greinargerð segir: ?Í erindi sem haldið var af Bjarna Diðrik Sigurðssyni, skógfræðiprófessor við LBHÍ, kom fram að ef árleg gróðursetning verði ekki aukin frá því sem nú er megi gera ráð fyrir að við lok Landshlutabundinna skógræktarverkefna árið 2040 hafi aðeins tekist að klæða um 2% láglendis skógi, eða um 80.000 hektara. Helsti þröskuldur fyrir aukinni árlegri gróðursetningu er að fjárframlög til Landshlutabundinna skógræktarverkefna hafa ekki fylgt þeirri áætlun sem löggjafinn setti fram né þingsályktunartillögu landbúnaðarráðherra frá 2003".

Námsbraut fyrir háskólakennslu í skógrækt
Fundurinn fagnaði þeim ?merka áfanga að Landbúnaðarháskóli Íslands hafi nú komið á fót prófessorsstöðu í skógfræði við skólann. Í því felst mikil viðurkenning á þessari nýju búgrein. Jafnframt beinir fundurinn því til rektors Landbúnaðarháskólans að endurreisa sem fyrst sérstaka námsbraut fyrir háskólakennslu í skógrækt og skógfræði sem áður hafði verið sett upp við Háskólann á Hvanneyri en lögð var niður nú þegar hinn nýi háskóli tók til starfa.

Þróunarsjóður
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn á Laugum í Sælingsdal þann 20. ágúst 2005, beinir þeim tilmælum til stjórnar samtakanna að hún, fyrir hönd skógarbænda, kanni möguleika á stofnun þróunarsjóðs sem hafi það markmið að styðja við og styrkja úrvinnslu skógarafurða Stjórnin vinni að hugmyndum um form og eðli slíks sjóðs í nánu samstarfi við Skógrækt ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnin.

Heimild: Bændablaðið, 30. ágúst 2005