Ræktaður skógur í Japan. Mynd: Appropedia/Jin Hong.
Skólum sem kenna skógargreinar fjölgar hratt
Japanar réðust í mikla gróðursetningu trjáplantna vítt og breitt um landið að lokinni síðari heimsstyrjöldinni. Nú er kominn uppskerutími í þessum skógum en sárlega vantar kunnáttufólk til starfa. Skólum sem kenna skógmenntir fjölgar hratt í landinu.
Frá þessu er greint í fréttamiðli ástralska timburiðnaðarins, Timberbiz, sem hefur heimildir sínar úr The Japan Times. Í Japan búist menn við því að spurn eftir timbri aukist á næstunni, meðal annars vegna Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Tókíó árið 2020. Ýmis teikn eru á lofti um að notkun timburs muni aukast í byggingariðnaði á kostnað steinsteypu og stáls eins og oftlega hefur verið minnst á hér á skogur.is. Þetta á vafalaust við í Japan eins og annars staðar og þá er gott að hafa byggt upp skógarauðlind eins og Japanar gerðu eftir stríð.
En það er ekki sama hvernig staðið er að verki. Skógariðnaðurinn í Japan hefur staðið frammi fyrir því undanfarin ár að sárlega vantar kunnáttufólk til starfa í skógunum. Þetta hefur leitt til þess að skólum sem kenna skógargreinar hefur fjölgað úr sex í fjórtán frá árinu 2011 og þegar nýtt skólaár hefst í apríl taka þrír nýir skólar í viðbót til starfa í héruðunum Iwate, Hyogo og Wakayama.
Í apríl 2012 var fyrsti skógræktarskólinn settur á fót í vestanverðu Japan, héraðsskógarskóli í borginni Kyotanba í Kíótó-héraði. Þar er í boði tveggja ára nám fyrir allt að tuttugu nemendur og meðal annars er þetta fyrsti skólinn í Japan sem býður upp á kennslu í notkun háþróaðra skógarhöggsvéla og veitir nemendum réttindi til starfa á slíkum vélum. Þegar hafa 58 nemendur lokið námi við skólann og níu af hverjum tíu þeirra starfa nú í skógargeiranum í Japan. Þetta menntaða vinnuafl er greinilega mjög eftirsótt, ekki síst nemendur úr skólanum í Kíótó-héraði, enda fá þeir góða starfsþjálfun við mismunandi aðstæður og þar með tækifæri til að sanna sig fyrir væntanlegum vinnuveitendum.
Það er líka til marks um vinnuaflsskortinn að mikið virðist vera lagt upp úr því að þjálfa nemendur hratt til starfa og að þeir geti öðlast ýmis réttindi á skömmum tíma. Í borginni Kami í Kochi-héraði tók til starfa skógræktarskóli fyrir tveimur árum með eins árs grunnnámi þar sem nemendur geta nælt sér í tólf mismunandi réttindi til að starfa í skógargeiranum. Með því er svarað kröfu þeirra sem vilja læra hratt og ná sér fljótt í vinnu. Allir nemendurnir fjórtán úr fyrsta árgangi skólans fengu vinnu og margir hverjir hjá fyrirtækjum í skógargeiranum í heimahéraði skólans.
Haft er eftir Tomonaga Nakashima, starfsmanni japönsku ríkisskógræktarinnar, að mörg þeirra fyrirtækja sem starfa í japanska skógargeiranum hafi úr lítilli þekkingu að spila og eigi erfitt með að byggja upp mannauð sinn. Þess vegna vilji þau ólm ráða til sín starfsfólk með grunnþekkingu í skógrækt og útlit sé fyrir að þessi þörf fyrir fólk með skógarmenntun muni aukast enn frekar. Hann varar þó við að menn fari fram úr sér í þessum efnum og til að forðast að skólarnir verði of margir og samkeppnin of mikil um nemendurna geti héruð tekið sig saman um stofnun nýrra skógræktarskóla.
Menntun í skógargreinum er mikilvæg víðar en í Japan. Á Íslandi vaxa nú upp skógar og vaxandi þörf fyrir grisjun. Í fyllingu tímans kemur líka að lokahöggi og endurræktun hér eins og annars staðar. Þá þarf að vera til nægilegur mannskapur til að vinna verkin og því þarf að huga vel að bæði menntun og rannsóknum í skógfræði og skógtækni. Þörf er bæði fyrir hina fræðilegu menntun með sínum vísindalega grunni og tæknilegu menntunina fyrir fólkið sem vinnur við gróðursetningu, umhirðu, grisjun og skógarhögg svo dæmi séu tekin. Horfa þarf fram í tímann og áætla hver þörfin verður og vinna síðan að því að kynna námið, laða að nemendur og sjá til þess að námið og þær rannsóknir sem því tengjast þróist í takt við þróun skóganna. Standa þarf vörð um það góða starf sem unnið er við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem í boði er nám í bæði skógfræði og skógtækni.