Þessi sérstæða trjátegund vex í Ástralíu en ekki er tegundaheitið á hreinu. Á hverju ári eru um 2.000 nýjar plöntutegundir skráðar í heiminum og ætla má að tegundalisti trjáa haldi líka áfram að lengjast. Ljósmynd: Hallveig Björnsdóttir
Þekktar trjátegundir í heiminum eru 60.065 talsins. Þetta eru niðurstöður viðamikillar rannsóknar á plöntutegundum í lífríki jarðarinnar sem byggðar eru á gögnum frá yfir 500 grasafræðistofnunum um allan heim. Kortlagning trjátegunda er mikilvægt tól til að vernda megi þær tegundir sem taldar eru vera í útrýmingarhættu. Aðeins fundust sex tré af trjátegund í Tansaníu sem nú er unnið að því að breiða út á ný.
Frá þessu er sagt í frétt á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins, BBC News og nánar í tímaritinu Journal of Sustainable Forestry. Vonast er til að þessi trjátegundaskrá nýtist til að finna þær tegundir sem eru sjaldgæfastar og í mestri útrýmingarhættu svo vinna megi að því að vernda þær til frambúðar.
Alþjóðleg verndarsamtök grasagarða, BGCI, settu saman skrá um trjátegundir heimsins með því að keyra saman gögn frá yfir 500 aðildarfélögum sínum. Gögnin sem keyrð voru saman sýna að mest trjátegundaauðgi í einu landi er í Brasilíu. Þar telst mönnum til að sé að finna 8.715 trjátegundir. Fyrir utan pólsvæðin þar sem engin tré vaxa er fæstar trjátegundir að finna á nyrstu svæðum Norður-Ameríku, næst norðurskautssvæðinu. Þar eru tegundir þó hartnær 1.400 talsins.
Annað sem gögnin sýna og kemur á óvart er að meira en helmingur allra trjátegunda í heiminum (58%) er tegundir sem einungis er að finna í einu landi, hverja fyrir sig. Gera má ráð fyrir að slíkum tegundum sé hættara en öðrum við ýmsum ógnum sem geta steðjað að svo sem skógareyðingu vegna öfga í veðurfari eða framkvæmdagleði mannskepnunnar.
Um þrjú hundruð tegundir hafa verið skilgreindar í bráðri útrýmingarhættu enda vaxi færri en fimmtíu tré af hverri þeirra villt úti í náttúrunni.
„Einstök staða“
BBC News hefur eftir forseta BGCI, Dr Paul Smith, að fram undir þetta hafi verið ómögulegt að slá tölu á trjátegundir í heiminum enda sé það fyrst nú sem gögnum um trjátegundir hvarvetna hafi verið komið á stafrænt form. „Við erum í einstakri stöðu því innan okkar raða eru 500 grasafræðistofnanir,“ sagði Paul Smith í samtali við BBC News. Hann segir að mikið af þessum gögnum sé ekki aðgengilegt almenningi en með því að koma þeim á stafrænt form sé búið að koma á einn stað afrakstri af margra alda vinnu.
Mikilvægur hluti af þessari rannsókn er staðsetning trjátegunda í landfræðilegum kerfum sem gerir þeim sem vinna að verndun trjátegunda betur kleift að kortleggja hverja tegund fyrir sig að sögn Pauls Smiths. Slíkar upplýsingar, til dæmis um hvaða löndum tiltekna trjátegund er að finna, séu grundvallargögn í verndarstarfinu. Með þeim megi raða tegundunum upp eftir því hversu brýnt sé að huga að verndun þeirra og hvaða tegundir þurfi að rannsaka til að meta ástand þeirra og stöðu.
Á barmi útrýmingar
BGCI hefur greint tegund sem var á barmi útrýmingar vegna rányrkju. Tegundin ber latneska heitið Karomia gigas og vex í afskekktum hluta Tansaníu. Í árslok 2016 fann hópur vísindamanna einungis sex tré af tegundinni á einum stað.
Þegar í stað var gripið til aðgerða og heimafólk ráðið til að gæta trjánna og láta vita hvenær þau bæru fræ. Ætlunin er að fræjunum verði sáð í grasagörðum í Tansaníu og ræktuð upp tré sem verði gróðursett í fyllingu tímans úti í náttúrunni.
Forsvarsfólk BGCI gerir ekki ráð fyrir að trjátegundalisti jarðarinnar, GlobalTreeSearch list, sé endanlegur enda séu á hverju ári skráðar um það bil tvö þúsund nýjar plöntutegundir á ári. Listinn verður því uppfærður jafnóðum og nýjar trjátegundir finnast í heiminum.