Sherry við úttekt á rigningardegi í Hvammi á Völlum.
Sherry við úttekt á rigningardegi í Hvammi á Völlum.

Kveðja frá Skógræktinni

Sherry Lynne Curl, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni á Egilsstöðum, varð bráðkvödd aðfaranótt laugar­dags­ins 30. desember.

Sherry fæddist í Joplin í Missouri-ríki í Bandaríkjunum 27. júlí 1957. Hún ólst upp vestan hafs en fluttist 1978 til Ís­lands ásamt eiginmanni sínum, Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra. Hingað komin stundaði hún fyrst íslenskunám fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands. Hún kenndi ýmiss konar hannyrðir á Húsavík um hríð samhliða heimilis­störfum, svo sem saumaskap, vefnað, bútasaum og fleira, enda lék allt í höndum hennar.


Árið 1987 flutti fjölskyldan til Maine í Bandaríkjunum þar sem Sherry lagði stund á nám í mannfræði og lauk BA honnors gráðu árið 1990. Hún starfaði við fornleifauppgröft í tengslum við rannsóknir á lifnaðarháttum fornra frum­byggja í Maine en síðar einnig við fornleifarannsóknir á Austurlandi. Því næst hóf hún störf hjá Skógræktinni á Egils­stöðum við kortagerð og hóf samhliða störfum sínum þar fjarnám í skógfræði við háskólann í Montana. Hún varð fyrst allra til að ljúka meistaragráðu í þeirri grein við Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2008. Meistaraverkefnið fjallaði um nýtingu skóga til útivistar, var að mestu unnið í Hallormsstaðaskógi og í þessum efnum var Sherry frumkvöðull. Hún var ráðin til Héraðs- og Austurlandsskóga sem skógræktarráðunautur að náminu loknu.

Undanfarin 10 ár hefur Sherry veitt bændum á Austurlandi ráðgjöf og aðstoð við skógrækt á jörðum sínum. Hún lagði mikla alúð við þau störf sem önnur, þolinmæði og þrautseigju. Eftir hana liggur fjöldi ræktunar- og grisjunar­áætlana auk þess sem hún endurbætti eldri áætlanir. Segja má að hún hafi komið að hönnun allra nýrra skóga á Austurlandi á öðrum áratug aldarinnar og áætlanir hennar munu duga vel fram á þann þriðja.


Sherry hafði forgöngu um að koma í fram­kvæmd snemmgrisjun í skógrækt á Íslandi, málefni sem lengi hafði verið rætt hérlendis en lítið hreyfst. Hún talaði fyrir því að fjár­magna þyrfti grisjun, hélt námskeið, hafði forgöngu um að til yrðu verktakar til starf­ans, áætlanir gerðar og úttektarkerfi. Síð­asta árið gegndi hún stöðu amtmanns Skógræktar­innar fyrir Austurland og bar þar með faglega ábyrgð á rekstri framlagakerfis til skógræktar á lögbýlum í lands­hlut­an­um. Skógrækt á Íslandi býr að þessari vinnu um ókomna tíð. Óbornar kynslóðir munu njóta skóganna og búa í húsum úr timbri sem varð nothæft vegna vinnu Sherryjar.

Þau Sherry og Þröstur eignuðust tvö börn, Sóleyju sem er tónlistarskólastjóri og flautu­leikari á Egilsstöðum og Kveld­úlf sem er sérfræðingur í forritun á Veðurstofunni. Barnabörnin eru tvö.

Skógræktin þakkar Sherry samfylgdina og verðmætt framlag til skógræktar á Íslandi. Skógræktarstjóra og fjölskyldu er vottuð innileg samúð. Bálför fer fram í kyrrþey.