Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, segir að grenitré jafni…
Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, segir að grenitré jafni sig oftast af lúsafaröldrum á fáeinum árum en tré í görðum megi þvo eða jafnvel eitra til að draga úr skemmdum vegna sitkalúsar.

Enginn landshluti undanskilinn

Sitkalúsafaraldur gengur nú yfir landið í grenitrjám sem fer mjög illa með trén. Frá þessu er sagt á fréttavefnum visir.is og Stöð 2 fjallaði um það einnig í fréttum. Nefnt er sem dæmi að víða megi sjá illa farin tré á Selfossi en forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar segir að talsvert sé um lúsina í Skagafirði, á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi.

Fréttin er á þessa leið:

Lúsin veldur því að nálar trjánna verða brúnar og ljótar. Oftast jafna trén sig á lúsinni á nokkrum árum en ef fólk er með falleg grenitré í garðinum sínum sem eru með sitkalús er hægt að eitra fyrir henni.


Víða má sjá illa farin grenitré á Selfossi sem eru full af Sitkalús á meðan önnur tré virðast alveg sleppa. Lúsin er mjög víða í trjám á Suðurlandi og víðar um landið, það þekkir Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknarsviðs hjá Skógræktinni á Mógilsá.

Það er enginn landshluti sem virðist vera undanskilinn,“ segir Edda en bætir við að talsvert sé um lúsina í Skagafirði, höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi. Þá segist hún eiga eftir að skoða suðvestur horn landsins.

Áhrif Sitkalúsarinnar á tré eru þannig að nálarnar verða gular. „Byrja svona sem guldoppóttar og brúnar og verða síðan alveg gular og ef maður snýr þeim við þá sér maður undir lýsnar. Litlar og grænar sem skríða á neðra yfirborði nálanna,“ segir Edda.

„Sitkalúsin sækir sér næringu í grenið og stingur gat á nálina og það eru í rauninni viðbrögð við þessu gati, hún dælir síðan inn efni til að ná næringunni úr vökvanum og það er það sem veldur þessu viðbragði hjá trénu,“ segir Edda.

Lúsin byrjar alltaf innst við stofninn því hún kærir sig ekki um nálar sem eru í vexti. Spurð að því hvort eitthvað sé til ráða við Sitkalúsinni, segir Edda að hægt sé að þvo trén eða hreinlega nota eitur.