Á höfuðborgarsvæðinu er sitkalús farin að láta töluvert á sér kræla og sér nú þegar á trjám á stöku stað.  Sitkalúsarfaraldrar geysa jafnan eftir milda vetur og skv. vef Veðurstofunnar (http://www.vedur.is/) var undangenginn vetur mjög hlýr, raunar sá fjórði hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga bæði í Reykjavík og á Akureyri, aðeins 1929, 1964 og 2003 voru hlýrri.  Það er því veruleg hætta á faraldri nú í haust og á höfuðborgarsvæðinu er hann raunar hafinn nú þegar.  Lúsarinnar hefur einnig orðið vart á nokkrum stöðum á vestanverðu landinu, en athuganir á stofni lúsarinnar á öðrum svæðum á landinu hafa enn ekki farið fram.  Það er því veruleg hætta á að sitkalúsarfaraldur brjótist út nú í haust, sérstaklega um suðvestanvert landið en e.t.v. einnig í öðrum landshlutum.  Reynslan sýnir að slíkir faraldrar drepa mjög sjaldan tré en nálatap er mikið og tré eru lengi að ná sér.  Þetta getur verið bagalegt þar sem um er að ræða tré sem skipta miklu máli fyrir útlit einstakra garða eða svæða.

 

Guðmundur Halldórsson

Skordýrafræðingur, Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá