Hluti forsíðu nýjasta tölublaðs Rits Mógilsár
Þorbergur Hjalti Jónsson, skóghagfræðingur og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er höfundur nýrrar greinar í Riti Mógilsár þar sem fjallað er um markaðsverð skógareignar. Þar ber hann saman sjö aðferðir til að meta markaðsverð á skógi í einkaeign á Stóra-Bretlandi. Í ljós kemur að svokölluð sjálfbærniaðferð reynist best til að gefa óskekkt virðismat og er mælt með henni við mat á markaðsverðmæti skóga á Íslandi.
Greinin er á ensku en með íslenskri samantekt. Hún ber titilinn Methods of forest appraisal compared to market prices in Britain. Þar segir að markaðsverð skógareignar geti þurft að meta vegna sölu eða kaupa á skógi, vegna eignamats í bókhaldi, skiptingar dánarbús, veðhæfni, trygginga, skattlagningar eða skaðabóta. Sem fyrr segir ber Þorbergur Hjalti saman sjö aðferðir til að meta markaðsverð á skógi í einkaeign á Stóra-Bretlandi. Aðferðirnar voru 1) bundið fé í skóginum, 2) verðmæti viðarforðans, 3) valið það sem hærra er, bundið fé eða verðmæti viðarforðans, 4) verðmæti skógarins metið út frá innri ávöxtun viðarnytja á ræktunarlotu, 5) núvirði miðað við jafnar árlegar tekjur af skóginum í jafnvægi nýtingar og endurnýjunar metið með ávöxtunarkröfu jafnri meðalarðsemi skógarfjárfestinga á Bretlandseyjum (4,8%), 6) væntingarvirði út frá núvirði framtíðartekna með ávöxtunarkröfu sem víða er notuð í arðskógrækt (8,0%) eða með meðalarðsemi skógarfjárfestinga á Bretlandseyjum (4,8%) og 7) sjálfbærnivirði metið út frá tímagildismati.
Sjálfbærnivirðið er ný aðferð sem sett er fram í greininni og er byggt á tilgátu um tímagildismat mannsins. Skógunum var skipt í A) skóga á láglendi með lauftrjám eða blöndu af barrtrjám, B) smá svæði með barrskógi og C) víðlenda barrskóga (mest sitkagreni í Hálöndum Skotlands). Þeim var nánar skipt í aldursflokka: 0-9 ára, 10-14 ára, 15-19 ára, 20-24 ára, 25-29 ára, 30-49 ára, 50-99 ára og eldri. Vegið meðalverðmæti á hektara var metið með fyrrnefndum aðferðum fyrir alla skóga í einkaeign á Stóra-Bretlandi skipt eftir skógargerð og aldursflokki. Aðferðir 1-6 gáfu skekkt mat á markaðsverð en sjálfbærniaðferðin gaf óskekkt virðismat og fór nærri markaðsverði í öllum tilvikum. Hún mat rétt meðalverð, efri verðmörk og neðri verðmörk. Með sjálfbærniaðferðinni má meta verðmæti skóga óháð því hvort þeir skila tekjum eða ekki. Hér er mælt með sjálfbærniaðferðinni við mat á markaðsverðmæti skóga á Íslandi. Mat á skaðabótavirði er byggt á tjóni eigandans en ekki endilega markaðsvirði. Sjálfbærniaðferðin hentar því sjaldan við mat á skaðabótum.
Í inngangskafla greinar Þorbergs Hjalta er áhugaverð frásögn af breska fjárfestinum og lávarðinum James Goldsmith sem kom auga á tækifæri í skuldsettum kaupum eða yfirtöku á vanmetnu landi með timburskógi. Í efnahagslægðinni á níunda áratugnum keypti hann ásamt viðskiptafélögum sínum samsteypu tveggja skógarfyrirtækja, Diamond International og Crown Zellerbach. Þeir aðskildu sjálfa skógana frá timburvinnsluhluta samsteypunnar og seldu hlutana hvorn í sínu lagi með miklum gróða, enda reyndist úrvinnsluhlutinn illstarfhæfur þegar undirverðlagður skógurinn hafði verið tekinn frá honum. Þessi skuldsetta yfirtaka Goldsmiths og félaga leiddi í ljós að í frjálsu markaðshagkerfi felst mikil áhætta fyrir skógareigendur að vanmeta eða leiða hjá sér raunverulegt verðmæti trjánna.
Það er nefnilega mjög misjafnt hvernig verðmæti standandi skógar er metið eða skráð. Á Íslandi og í öðrum löndum þar sem markaður með skóglendi er varla fyrir hendi eða vanþróaður gæti sjálfbærniaðferðin komið að góðu gagni til að áætla raunverulegt verðmæti skóga með faglegum hætti. En eins og getið er í niðurstöðukafla greinar Þorbergs Hjalta getur tjón skógareiganda verið í miklu ósamræmi við markaðsverðmæti skógar. Sömuleiðis eru bætur vegna tjóns á nýskógrækt yfirleitt byggðar á mati á tjóni skógareigandans en ekki raunverulegu metnu markaðsvirði.
Methods of forest appraisal compared to market prices in Britain