Sjálfboðaliðahópurinn frá svissneska skólanum var heppinn með veður enda skein sólin drjúgan hluta þ…
Sjálfboðaliðahópurinn frá svissneska skólanum var heppinn með veður enda skein sólin drjúgan hluta þess tíma sem nemarnir voru við störf á Þórsmörk.

Hefð að hópur frá svissneskum skóla ljúki vertíðinni

Frá því að sjálfboðaliðar á vegum Skógræktarinnar hófu störf á Þórsmörk fyrir fimm árum hefur sá siður haldist að síðasti sjálfboðaliðahópur sumarsins sé frá svissneska skólanum International School of Zug and Luzern.

Nemendurnir vinna að því að ganga frá ýmsum stígaframkvæmdum og verkefnum sem snúast um varnir gegn rofi og lagfæringar á skemmdum vegna ágangs og rofs. Sömuleiðis vinna þau að gróðursetningum og ýmsum smíða- og viðhaldsverkefnum í aðalbækistöðvum sjálfboðaliðastarfsins í Langadal.

Þessir svissnesku hópar hafa því verið mikilvægur hluti af sjálfboðastarfinu frá upphafi. Dýrmætt er að fá þessa öflugu og vinnusömu hópa til að ljúka ýmsu sem ljúka þarf fyrir veturinn.

Veðraöflin birtast að jafnaði í ýmsum myndum í septembermánuði en að þessu sinni var hópurinn frá svissneska skólanum heppinn með veður enda skein sólin drjúgan hluta þess tíma sem nemarnir dvöldu á Þórsmörk. Í hópnum var lagtæk kvikmyndagerðarkona, Chanine Enthoven, sem bjó til skemmtilegt myndband um dvölina.

The Iceland PDW 2017

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Trailteam.is
Mynd: Chanine Enthoven