Hópur erlendra sjálfboðaliða sem starfaði að stígaviðhaldi í Þórsmörk og á Goðalandi sumarið 2013. S…
Hópur erlendra sjálfboðaliða sem starfaði að stígaviðhaldi í Þórsmörk og á Goðalandi sumarið 2013. Sitja og standa í grasi, birkiskógur bak við.

Lagfæring stíganna tekur áratug

Mikið verk er að vinna við göngu- og hjólaleiðir í Þórsmörk og á Goðalandi. Mikilvægt er til dæmis að loka gömlum rofsárum við stíga og ganga þannig frá að umferðin skemmi ekki landið og komi af stað jarðvegsrofi.

Nýlega var stofnað verkefni á vegum Skógræktarinnar sem kallast Trail Team eins og sagt var frá hér á vef Skógræktarinnar í sumar. Frumkvæðið hafði Chas Goeaman og tilgangurinn var að vinna að stígamálum á svæðinu. Hópar erlendra sjálfboðaliða frá Umhverfisstofnun störfuðu að verkefninu í sumar. Helstu verkefnin voru við upphaf „Laugavegarins“ úr Langadal, í Valahnúk, bæði ofan Húsadals sem og Langadalsmegin, auk þess sem stígar á toppi Valahnúks voru lagfærðir, sem og stígurinn upp Stangarháls við Stóra-Enda.

Goðalandsmegin var unnið að lagfæringum á Básahringnum, á stígnum upp á Réttarfell og á upphafi stígarins yfir Fimmvörðuháls, bæði ofan Kattahryggja sem og neðar á stígnum. Áhersla var lögð á að setja varanleg þrep á stígana og setja ræsi þar sem bratti er svo vatn renni ekki eftir stígunum og valdi jarðvegsskemmdum. Einnig unnu hóparnir að því að loka gömlum sárum þar sem úrrennsli hefur verið úr stígunum. Gamlir grenireitir á Þórsmörk höfðu verið grisjaðir og efni úr þeim var notað í þrep og ræsi og kemur sér vel að til sé efniviður á svæðinu.




Viðhald stíga á Þórsmörk og Goðalandi er erfitt og krefjandi verkefni sem tekur engan enda því tugþúsundir ferðamanna ferðast um stígana og slíta þeim. Sjálfboðaliðahóparnir unnu þrekvirki í sumar og fram á haust við erfiðar aðstæður.



Greinilegt er að nóg er af ungu og hraustu fólki sem vill koma til Íslands og starfa að landbótum um leið og það nýtur stórbrotinnar náttúru. Hér má sjá skemmtilega frásögn frá einum sjálfboðaliðanna, Bretanum Mattocks, sem bloggar um sex vikna dvöl sína í sumar. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru úr safni hans.

Talsvert fleiri sjálfboðaliðar sóttu um að fá að starfa í Þórsmörk í sumar og til starfanna valdist fólk sem er þrautþjálfað í stígagerð og viðhaldi. Tveir 16-18 manna hópar voru við störf í einu og til viðbótar komu hópar sjálfboðaliða frá samtökunum Working abroad. Segir skógarvörðurinn á Suðurlandi, Hreinn Óskarsson, að miklu hafi verið áorkað með þessum góðu hópum en betur megi ef duga skal. Meira fé vanti til þessara verkefna og mikið sé óunnið. Eins og sagt var frá í fjölmiðlum nýlega er nærri þriðjungur stíganna í Þórsmörk í lélegu eða afleitu ástandi. Þetta eru alls um 90 kílómetrar þannig að verkefnin eru ærin. Það tekur því áratug eða svo að koma stígakerfi Þórsmerkur og Goðalands í gott lag ef haldið verður áfram með sama hraða og sumarið 2013.

Stígaverkefnið er unnið í samvinnu við Vini Þórsmerkur og stærstu ferðaþjónustufyrirtæki og -samtök á Þórsmörk með styrkjum úr Umhverfissjóði Landsbankans, Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Pokasjóði, 66°N og fleirum.
 
Nánari upplýsingar um verkefnið sem og fleiri myndir af framkvæmdum má sjá á síðu Trail Team og Flickr.

Sólin lágt á lofti skín milli tveggja hraunkletta, göngukona neðst til vinstri í forgrunni horfir móti sólu