Vel horfir með verkefni sumarsins hjá sjálfboðaliðahópum á Þórsmerkursvæðinu. Þótt fáein snjókorn ha…
Vel horfir með verkefni sumarsins hjá sjálfboðaliðahópum á Þórsmerkursvæðinu. Þótt fáein snjókorn hafi fallið í svölu veðri undanfarna daga skín sólin glatt á fyrstu sjálfboðaliðana sem koma sér fyrir í Langadal í dag. Ljósmynd af trailteam.is.

Fyrstu sjálfboðaliðarnir sem starfa munu á Þórsmerkursvæðinu á komandi vertíð komu í Langadal í dag og verða fyrstu verkefnin að kortleggja ástand gönguleiðanna og gera við skemmdir sem orðið hafa í miklum rigningum undanfarnar vikur. Mjög margar umsóknir bárust um sjálfboðastörf á Þórsmörk að þessu sinni og þurfti að vísa mörgum frá.

Þetta verður níunda sumarið sem sjálfboðaliðar starfa á Þórsmerkursvæðinu á vegum Skógræktarinnar og undir merkjum Þórsmörk Trail Volunteers. Fyrsti hópur sjálfboðaliða kemur sér fyrir í starfstöð Skógræktarinnar í Langadal Þórsmörk en einnig verða búðir í Básum á Goðalandi og útstöðvar fjær miðstöðvunum þegar kemur fram á sumarið.

Þrátt fyrir að enn séu í gildi ferðatakmarkanir vítt og breitt um heiminn eru vonir bundnar við að hægt verði að halda úti sjálfboðastarfinu samkvæmt áætlun og vinna þau verkefni sem skipulögð hafa verið. Fyrir liggja nýfrakvæmdir við timburmannvirki sem felld verða inn í landslagið eftir megni. Timbrið er að miklu leyti fengið úr íslenskum skógum.

Fyrstu verkefnin verða hins vegar að fara yfir gönguleiðirnar og meta ástand þeirra. Nokkrar skemmdir hafa orðið í miklum rigningum síðustu vikurnar og mörg handtök sem þarf til að lagfæra þær. Eins og venjulega verður líka unnið að almennu viðhaldi og viðgerðum ásamt landbótum þar sem rof hefur orðið vegna ágangs ferðamanna eða vatns og vinda.

Sjálfboðastarfið fer svo á fullt í júnímánuði þegar sjálfboðaliðunum fjölgar fyrir alvöru. Dvöl sjálfboðaliðanna er þó ekki eingöngu strit því jafnframt eru skipulagðar ævintýraferðir um náttúruna og svo fá sjálfboðaliðarnir líka að taka til hendinni við gróðursetningu, meðal annars til að vega upp á móti kolefnislosun vegna ferðalaga þeirra.

Mjög fallegt verður hefur verið á Þórsmörk síðustu daga en þó svalt og stöku él hafa fallið líka. En byrjunin er góð og vel horfir með verkefni sumarsins eftir því sem fram kemur á vef verkefnisins, trailteam.is.

Texti: Pétur Halldórsson