Norrænar skógrannsóknir, SNS, hafa fjármagnað sjö ný samstarfsnet um skógartengdar rannsóknir. Þar verður fjallað um margvísleg málefni svo sem fjöllitna tré, samstarf um birkikynbætur í Evrópu, aðferðir til að endurhæfa vistkerfi með sjálfbærar skógarnytjar í huga, notkun lífkola í skógrækt og fleira. Frá þessu er sagt í nýútkomnu fréttabréfi SNS.

Hér að neðan eru verkefnin talin upp og þeim lýst í örstuttu máli.

Polytree
Samstarfsnet sem á að tengja saman rannsóknarfólk á Norðurlöndunum sem vinnur við fjöllitna tré og varpa ljósi á hlutverk slíkra trjáa í aðlöguninni að loftslagsbreytingum.

SSFE
Samstarf skógarhagfræðinga frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

WSE
Fullnýting og samhæfing þess sem lagt er til rannsóknarverkefna á sviði viðarfræða og viðartækni.

Stronger together – facilitating efforts in birch breeding in the Baltic Sea region
Sterkari saman - liðkað fyrir starfi að birkikynbótum í Eystrasaltslöndunum. Vinnustofa um birkikynbætur í Evrópu og samtenging samstarfshópa.

Ecological restoration methods for sustainable forest use
Endurhæfing vistkerfa með sjálfbærar skógarnytjar í huga. Mynda kjarnahóp vísindafólks til að þróa styrkumsóknir til rannsókna á endurheimt skóglendis og kortleggja áhuga og þarfir í þessum efnum.

NEFUN
Flétta saman eldri rannsóknir og þróa ný rannsóknarverkefni sem fást við möguleg áhrif loftslagsbreytinga á beitardýr og afleiðingar slíkra breytinga fyrir sjálfbærni og aðlögun skógargeirans.

Biochar in forestry
Lífkol í skógrækt. Skipuleggja vinnuhóp þar sem rannsóknarfólk, fagfólk og framleiðendur geta rætt saman og skipst á þekkingu og reynslu af lífkolum í skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson