Dagana 22.-26. ágúst fóru starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá og Landgræðslu ríkisins um landið til að fá heildstætt landsyfirlit yfir heilsufar trjágróðurs og orsakir skemmda ef einhverjar voru.

Í heild var ástand trjágróðurs gott, ef undan er skilið lerki en ástand þess var yfirleitt lélegt. Ástand lerkis var víða lélegt en langverst var vað á Mið-Austurlandi, þar eru nálar lerkis almennt brúnar. Ástandið virtist vera verst í ungum lerkireitum, hvort sem þar ræður kvæmaval eða aldur. Inn á milli eru þó tré sem hafa sloppið mun betur. Ástand lerkis er svipað allt norður í Fnjóskadal, en þegar kemur í Eyjafjörð og þar fyrir vestan eru lerkiskógar í allþokkalegu ástandi. Á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Austfjörðum er lerki víðast hvar heldur lélegt. Á því eru þó undantekningar, t.d. er lerki í þokkalegu ástandi sums staðar í uppsveitum sunnanlands. Dapurt ástand lerkis á Mið-Austurlandi og Norðausturlandi má eflaust rekja til óhagstæðs tíðarfars fyrri part sumars. Hverjar afleiðingarnar verða er óvíst. Lerki á þessu svæði hefur fyrr orðið fyrir áföllum, án þess að það hafi leitt til verulegra hnekkja þegar fram liðu stundir. Má þar t.d. minna á faraldur lerkibarrfellis sem geisaði á Fljótsdalshéraði í kringum aldamótin.

Niðurstaða leiðangursins er sú að heilbrigði trjágróðurs á landinu sé þokkalegt, ef undan er skilið lerki. Lítið bar á mörgum af helstu skaðvöldum, þ.e. asparryði, sitkalús og tígulvefara. Einnig varð ekki vart við ýmsa aðra skaðvalda sem hafa verið að stinga sér niður á undanförnum árum, s.s. greniryð eða lerkibarrfelli.


Mynd: Guðmundur Halldórsson