Í liðinni viku heimsótti norskur maður, Eigil Tettli frá Follafoss í Þrændalögum, sunnlenska skóga í leit að trjám sem hann hafði unnið við að gróðursetja fyrir 58 árum. Kom Eigil til landsins í einni af fyrstu skiptiferðum skógræktarfélaga Íslands og Noregs árið 1955. Hann var þá tæplega tvítugur yngstur í hópi 50 Norðmanna sem dvöldu hér á landi í tvær vikur og unnu við gróðursetningu á Laugarvatni, í Haukadal, í Heiðmörk og Þingvöllum og gróðursetti hópurinn um 30 þúsund trjáplöntur af ýmsum tegundum. Nú 58 árum seinna kom Eigil í för með íslenskum nágranna sínum í Follafoss, Bjarna Heimi Traustasyni.

Skógarvörðurinn á Suðurlandi og verkstjóri Skógræktar ríksisin í Haukadal, Einar Óskarsson, tóku á móti Eigil ásamt ferðamálafulltrúanum í uppsveitum Árnessýslu, Ásborgu Arnþórsdóttur, oddvita Bláskógabyggðar, Drífu Kristjánsdóttur og fleiri gestum. Voru nokkrir trjáreitir í Haukadal skoðaðir og þótti Eigil mikið til um að ganga um 15-20 m háa greni-, lerki- og furuskóga sem hann hafði tekið þátt í að gróðursetja í lágvaxið lynglendi og kjarr sem fyrir var á svæðinu. Mundi Eigil einnig eftir eyðimörkinni sem umlukti kjarrbörðin ofan Haukadalsskógar og gróðurlausa heiðina þar fyrir ofan, en þessi svæði eru í dag að mestu gróin.

Skoðað var minnismerki í Haukadalsskógi um einn af upphafsmönnum um skiptiferðir til Noregs, Torgeir Anderssen-Rysst fyrsti sendiherra Norges á Íslandi (1945-1958), sem hófust árið 1949 þegar 70 Íslendingar fóru til Troms í Noregi. Voru það Norska skógræktarfélagið og Skógræktarfélag Íslands sem stóðu að samstarfinu en þá var Hákon Bjarnason bæði skógræktarstjóri og formaður Skf. Ísl. og var hann lykilmaður í því samtarfi. Voru ferðirnar farnar á þriggja ára fresti til 1982 og fjórða hvert ár eftir það fram til ársins 2000.





















Texti og myndir: Hreinn Óskarsson