Innleiðing á stefnumótunaráætlun Sameinuðu þjóðanna um skóga fram til ársins 2030, UNSPF, var rædd á ársþingi alþjóðlega skógaráðsins, UNFF14, sem fór fram dagana 6.-10. maí í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Einnig var fjallað um samhengi heimsmarkmiða SÞ um skóga við sjálfbærnimarkmið samtakanna og um alþjóðlegt samstarfsnet um fjármögnun skógræktar sem ætlunin er að hafi höfuðstöðvar í Kína.

Þetta var í fjórtánda sinn sem UNFF heldur ársþing sitt og sóttu það um þrjú hundruð manns frá aðildarþjóðunum, alþjóðlegum samtökum, samstarfsneti um skóga sem kallast Collaborative Partnership on Forests og fulltrúum hagsmunahópa um sjálfbærnimál sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint og kallast Major Groups á ensku. Málefni sjálfbærrar þróunar eru í sífelldri endurskoðun hjá pólitískum fulltrúum á æðstu stigum hjá Sameinuðu þjóðunum og á ársþinginu var tekið mið af því sem þar fer fram en einnig því þema sem alþjóðlegur dagur skóga hafði á þessu ári, skógum og fræðslu.

Á þinginu var rætt um tengslin milli alþjóðlegra markmiða um skóga, CFG, og sjálfbærnimarkmiðanna, SDG, einkum markmiðs 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmiðs 8 um sjálfbæran hagvöxt, markmiðs 16 um frið og réttlæti og markmiðs 4 um menntun. Fjallað var um árangursmat og skýrslugjöf en líka leiðir til að innleiða, kynna og tengja fólk við stefnumótunaráætlun Sameinuðu þjóðanna um skóga fram til ársins 2030.

Opnunarávarp þingsins hélt Inga Rhonda king, forseti ECOSOC, efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Hún benti á að skógar skiptu sköpum ef ná ætti sjálfbærnimarkmiðum SÞ í efnum á borð við loftslagsmál, líffjölbreytni, vatn og hnignun landgæða. Hún brýndi fyrir þingfólki að senda skýr skilaboð til æðsta ráðs Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, HLPF, um mikilvægi skóga til að fylgja mætti þeirri dagskrá um sjálfbæra þróun sem sett hefur verið fram til ársins 2030 en einnig svo efla mætti samfélög fólks með þeirri þjónustu og gæðum sem skógarnir gefa.

Fyrir áhugasama um skrifræði og málefni eins og breytingar á skrifstofuhaldi eða fjármögnun á nýrri starfsemi á vegum SÞ í Kína skal bent á umfjöllun um þingið á upplýsingaveitu um málefni sjálfbærrar þróunar, sdg.iisd.org.

Þingið UNFF15 verður haldið í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 4.-8. maí 2020.

Texti: Pétur Halldórsson