Hluti fyrirlesara og ráðstefnugesta í Öskju s.l. laugardag. Fremst fyrir miðri mynd má sjá þrjá fyrirlesara, f.v.: (1) Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu. Hún flutti erindi með yfirskriftinni 'Hafa skógar áhrif á heilsufar fólks?'; (2) Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð. Hún flutti erindið 'Skógrækt er heilsurækt - Hreyfing í fallegu umhverfi og fersku lofti'; (3) Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjavíkur. Hún flutti erindið 'Náttúra í borg'. Mynd: Ingimundur Stefánsson.
Ráðstefnan „Skógar í þágu lýðheilsu á Íslandi“ sem fór fram s.l. laugardag á vegum Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá, hefur vakið nokkra athygli í prent- og ljósvakamiðlum landsins. Við birtum hér efni greinar í Fréttablaðinu og auk þess hlekki inn á vef ríkisútvarpsins.
Á bls. 16 í Fréttablaðinu í dag („Spurt og svarað“) er fjallað um ráðstefnuna og rætt við Brynjólf Jónsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands, undir yfirskriftinni „Skógar bæta líðan og geð“, sem hér segir:
Athyglisverð ráðstefna sem bar yfirskriftina Skógar í þágu lýðheilsu fór fram um helgina en þar kynntu fjölmargir aðilar nýja sýn á skóga sem útivistarsvæði og gildi slíkra svæða fyrir líf og heilsu landsmanna. Erlendis hefur sama umræða átt sér stað lengi og telja margir að ekki finnist betri eða hollari útivist en í skóglendi. Brynjólfur Jónsson er framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.
Hvað er þarna um að ræða?
Þetta er nýtt fyrir okkur hér en hefur lengi verið ofarlega á baugi erlendis víða og við viljum vekja athygli á hérlendis. Meiningin er að skóglendi hafi beinlínis jákvæð áhrif á lýðheilsu almennings með ýmsum hætti og að markmiðin eigi að vera meira í þá átt að byggja upp slíka staði nálægt þéttbýlum svæðum og leggja í staðinn minni áherslu á nytjaskóga eins og við gerum til dæmis hér.
Hvernig eru áhrif skóganna jákvæð?
Það er svo mikil fjölbreytni í skógunum. Þeir breytast eftir árstíðum en veita nær alltaf skjól og vernd fyrir veðri og vindum, jafnvel um hávetur. Skynjun fólks á skógunum er breytileg og þeir hafa mismunandi áhrif á hvern og einn en nær alltaf jákvæð áhrif. Þar má yfirleitt finna kyrrð og ró og í því samfélagi sem hér er orðið er það nokkuð sem við verðum að varðveita og helst auka. Erlendis sýna kannanir að sé til falleg gróðurvin nálægt borgum sækja allt að níutíu prósent íbúanna í skóginn á einhverjum tímapunkti.
Er ætlunin að efla slíka skógrækt í framhaldinu?
Sé fólk meðvitað um að dvöl í fallegum skógi sé til heilsubótar og almennrar ánægju er ekki útilokað að almenningur kalli eftir fleiri slíkum svæðum í framtíðinni. Víða er gott svæði til uppbyggingar og magir geta vart beðið eftir að vinnudagurinn endi svo hægt sé að taka göngutúr um gróið og fallegt svæði. Því fleiri sem komast á þá skoðun, því líklegra er að fjármagni verði veitt til slíkra verkefna.
Einnig var fjallað um efni ráðstefnunnar í þættinum „Samfélagið í nærmynd“ á Rás 1 ríkisútvarpsins, en hlusta má á vefupptöku af þættinum HÉR.
Einnig var fjallað um efni ráðstefnunnar í viðtali við Önnu Björgu Aradóttur, yfirhjúkrunarfræðing hjá Landlæknisembættinu, sem flutt var í hádegisfréttum RÚV, sunnudaginn 12. mars. Heyra má viðtalið HÉR.