Finnskur furuskógur. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Tiltækt er land á jörðinni til ræktunar skóga sem gætu bundið tvo þriðju af þeim koltvísýringi sem mannkynið hefur losað frá iðnbyltingu. Þessi skógrækt myndi ekki þrengja að þéttbýlis- og landbúnaðarsvæðum heimsins. Samanlagt er þetta tiltæka skógræktarland á stærð við Bandaríkin.
Frá þessu hefur verið sagt í fjölmiðlum víða um heim að undanförnu, meðal annars hérlendis. Á vefnum Live Science er fjallað um málið og sagt frá rannsókninni sem leiddi af sér þessar niðurstöður. Fyrir rannsóknarhópnum fór Thomas Crowther, prófessor í vistfræði við ETH-tækniháskólann í Zürich í Sviss. Í fréttatilkynningu frá skólanum segir að um 900 milljónir hektara lands vítt og breitt um heiminn gætu hentað til endurheimtar skóglendis sem á endanum gæti bundið tvo þriðju þeirrar koltvísýringslosunar sem athafnir mannsins hafa leitt af sér.
Sérstök rannsóknarstofnun við ETH-tækniháskólann er kennd við áðurnefndan vísindamann, Thomas Crowther, og nefnist Crowther Lab. Stofnunin hefur fengið birta grein í vísindaritinu Science þar sem leidd eru rök að því að hér sé komið öflugasta vopnið í baráttunni við loftslagsröskun á jörðinni.
Hjá Crowther Lab eru rannsakaðar loftslagslausnir sem byggjast á aðferðum náttúrunnar sjálfrar. Með úttekt sinni urðu vísindamenn stofnunarinnar fyrstir til að taka saman hvar í heiminum gerlegt væri að rækta nýjan skóg og hversu mikið það skóglendi myndi binda af kolefni. Aðalhöfundur greinarinnar í Science er dr Jean-François Bastin. Í fréttatilkynningu Crowther Lab segir hann mikilvægt að í rannsókninni hafi allt landbúnaðarland og þéttbýli verið undanskilið við mat á mögulegu landi til nýskógræktar og endurheimtar skóglendis enda séu þessi svæði nauðsynleg fyrir fólk.
Skógræktarland á stærð við Bandaríkin
Vísindafólkið reiknaði út að miðað við núverandi veðurskilyrði gæti þrifist samfellt skóglendi á 4,4 milljörðum hektara lands á jörðinni. Það skóglendi sem nú er að finna á jörðinni nær yfir 2,8 milljarða hektara og því gæti verið rúm fyrir 1,6 milljarða hektara til viðbótar. þegar frá þeirri tölu er dretgið það land sem menn nota nú þegar undir byggð og matvælarækt standa eftir 900 milljónir hektara lands um allan heim. Samanlagt slagar það upp í stærð Bandaríkjanna sem er um 980 milljónir hektara. Á þessu landi mætti rækta nýjan skóg og þegar hann yrði fullvaxinn myndi hann geyma um 205 milljarða tonna af kolefni. Það nemur um tveimur þriðju af því kolefni sem mannkynið hefur losað út í andrúmsloftið frá upphafi iðnbyltingarinnar fyrir um 250 árum.
Meðhöfundur greinarinnar í Science og stofnandi Crowther Lab, Thomas Crowther prófessor, segir að jafnvel þótt rannsóknarhópurinn hafi vitað að nýskógrækt og endurheimt skóga í heiminum gæti leikið hlutverk í baráttunni við loftslagsröskun hafi hann ekki áttað sig á því að þetta hlutverk gæti verið svo stórt sem rannsóknarniðurstöðurnar sýna. Crowther fullyrðir að hér sé komin besta lausnin á loftslagsvandanum sem nú sé tiltæk. Hins vegar verði að bregðast fljótt við því skógar séu áratugi að vaxa upp og ná hámarksafköstum sem náttúrleg kolefnisgeymsla.
Mestir möguleikar í Rússlandi
Rannsóknin sýnir líka hvar í heiminum ná megi mestum árangri með nýskógrækt. Megnið af skógræktarlandinu er að finna í sex löndum, Rússlandi (151 milljón hektara), Bandaríkjunum (103 millj. ha), Kanada (78,4 millj. ha), Ástralíu (58 millj. ha), Brasilíu (49,7 millj. ha) og Kína (40,2 millj. ha).
Ekki víst að hækkandi hiti leiði til heildarútbreiðslu skóga
Í niðurstöðum rannsóknarinnar er fólk varað við því að trúa um of þeim loftslagslíkönum sem gefa til kynna að hækkandi hiti á jörðinni muni sjálfkrafa leiða til aukinnar útbreiðslu skóglendis. Þetta sé rangt. Jafnvel þótt rannsókn Crowther Lab sýni að líklega muni norðlægu barrskógarnir víða breiðast út, svo sem í Síberíu, sé skógarþekja þar að meðaltali aðeins 30-40 prósent. Hætt sé við að skógareyðing í hitabeltinu, þar sem eðlileg skógarþekja sé að meðaltali 90-100 prósent, muni vega upp aukna útbreiðslu í barrskógabeltinu.
Skóglendisvefsjá heimsins
Á vef Crowther Lab er að finna tól sem gerir fólki kleift að skoða hvern einasta blett á jörðinni og sjá hversu mörg tré þar megi rækta og hversu mikið kolefni þau gætu bundið. Þar eru líka talin upp ýmis samtök og stofnanir sem vinna að nýskógrækt í heiminum.
Markmið Crowther Lab er að skoða leiðir náttúrunnar sjálfrar til að:
- ráðstafa auðlindum betur og greina þau svæði sem gætu haft mest loftslagsáhrif ef þau yrðu ræktuð upp,
- setja raunhæf og mælanleg markmið til að ná sem mestum árangri með ræktunarverkefnum
- að mæla árangurinn til að fylgjast með því hvort markmiðin náist með tímanum og bregðast við ef nauðsyn krefur.