Staðfesting á því sem skógræktarfólk þóttist vita

Skógar eru ekki einungis stórkostleg vistkerfi sem fóstra ótal tegundir jurta, sveppa, þörunga og dýra, frá smæstu örverum og skordýrum upp í spendýr – og menn. Skógar eru líka tæki náttúrunnar til að hægja á hringrás vatns. Þeir verka eins og svampur sem sýgur í sig vatn þegar mikið er af því og gefur það hægt og rólega frá sér aftur þegar þurrara er í veðri.

Þetta er ekki nýr sannleikur í hugum skógræktarfólks en ný rannsókn staðfestir þetta enn betur en áður fyrir okkur. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Water Resources Research. Vísindamenn, meðal annars við Smithsonian-stofnunina í hitabeltisrannsóknum (STRI), sýna fram á það með viðamikilli rannsókn að að skógar í Panama draga úr áhrifum stórviðra með því að draga úr flóðum vegna ofsarigninga og geyma í sér vatn sem nýtist í þurrkum. Niðurstöðurnar eru byggðar á mælingum á nærri 450 hitabeltislægðum eða fellibyljum. Mælingar voru bæði gerðar í skógum og á gresjum. 

Aðalhöfundur greinar um rannsóknina heitir Fred Ogden, vísindamaður við STRI-stofnunina og verkfræðiprófessor við Wyoming-háskóla. Hann segir þessi gögn verði notuð í ítarleg vatnafræðileg reiknilíkön sem eigi að geta aukið skilning manna enn á þessum áhrifum skógarins. Með slíkum reiknilíkönum sé hægt að sýna betur fram á hvaða áhrif það hefur á vatnasvið í hitabeltinu að ryðja skóg til landbúnaðar eða annarra nota.


Rannsóknin þykir styðja mjög mál þeirra sem haldið hafa því fram að afrennsli vatns af landi sé mun hægara í skógum en þar sem skóglaust er eða skógi hefur verið eytt. Robert Stallard, vatnafræðingur við STRI-stofnunina er meðhöfundur að greininni en hann starfar líka við bandarísku náttúruvísindastofnunina U.S. Geological Survey. Hann segir mjög greinilegt eftir stórviðri með mikilli úrkomu hversu miklu hraðar vatnið rennur burt af beitilöndum en þar sem skógurinn stendur enn. Skýrast sjást semsé niðurstöður rannsóknanna rétt eftir að miklum óveðrum slotar.

 
En það kemur líka skýrt fram í mælingum vísindafólksins að skógarnir gefa af sér meira vatn á þurrkatíð sem sýnir okkur skýrt og greinilega hversu mikilvægt hlutverk þeirra er við að tempra hringrás vatnsins árið um kring. Landbúnaðarsvæði á láglendi njóti góðs af skógum ofar í landinu og ekki síður sé mikilvægt að ferskvatnsflæði sé stöðugt í Panamaskurðinn svo hann geti gegnt hlutverki sínu.


Þessar niðurstöður koma skógræktarfólki kannski ekki mikið á óvart en það sem gerir þær verðmætar er að gögnin að baki niðurstöðunum eru óvenjulega ítarleg. Mælingarnar voru gerðar á löngum tíma. Stallard bendir á að þótt menn hafi þóst vita um þessa eiginleika skógarins hefur nægilega traustum vísindalegum gögnum ekki verið til að dreifa hingað til sem staðfestu þetta. Það sem til þurfi sé langtímarannsókn þar sem tiltekin stofnun eða rannsóknarhópur helgar sig verkefninu og gagnaöfluninni nógu lengi. Þetta sé hægt að gera ef sterkar stofnanir taka sig saman eins og hér hefur verið gert, USGS, STRI, Wyoming-háskóli og yfirvöld Panamaskurðsins sem hér voru líka með í för.

Auðvitað er ólíku saman að jafna, regnskógum hitabeltisins og íslenskum skógum. Vatnið er hins vegar eins, hvort sem er í hitabeltinu eða norður undir heimskautsbaug, og áhrif skóganna á hringrás vatns og hraustleika vistkerfa án efa mikil hér eins og í Panama.

 

Heimildir:
Ogden, F.L., Crouch, T.D., Stallard, R.F., Hall, J.S. 2013. Effect of land cover and use on dry season river runoff, runoff efficiency, and peak storm runoff in the seasonal tropics of central Panama. Water Resources Research. Online. doi:10.1002/2013WR013956
Vefsíðan mongabay.com. http://news.mongabay.com/2013/1220-natural-sponges.html#C1fsmt26TKVufv33.99