Vinnufundur í Sviss 16. júní

Í tengslum við fund um skóga og sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Sviss 16. júní hefur verið gefinn út dreifimiði þar sem bent er á hversu skógar og skógarafurðir eru snar þáttur í lífi mannanna. Á miðanum er meðal annars spurt hvort lífið á jörðinni gæti þrifist án skóga.

Hvernig tengjast skógar markmiðunum um sjálfbæra þróun? Er sjálfbær þróun möguleg án skóga og eru til ósjálfbærir skógar? Að þessu er spurt í yfirskrift miðans og svo fylgir langur listi um ýmislegt í daglegri tilveru okkar sem á uppruna sinn í skógum eða er gert úr skógarafurðum. Þar kennir ýmissa grasa og kemur sumt vafalaust mörgum á óvart eins og hitahlífar á geimför, borðtenniskúlur og einnota fatnaður heilbrigðisstarfsfólks.

Á þessum ágæta einblöðungi er líka spurt hvort líf geti þrifist á jörðinni án skóga og hvort sjálfbærar tækniframfarir geti átt sér stað án skógarafurða. Eins er spurt hvort sjálfbær húsagerðarlist, byggingar og þéttbýlismenning geti átt sér stað og þróast áfram án viðar og viðarafurða en líka hvernig fólk telji að hægt væri að berjast gegn loftslagsbreytingum án þess að gera ráð fyrir að skógar séu þar í aðalhlutverki við að vega upp og vinna á móti losun gróðurhúsalofts.

Fundurinn sem haldinn verður í höll þjóðanna í Genf 16. maí er annar vinnufundur sameiginlegrar skógræktar- og timburdeildar tveggja stofnana Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, efnahagsnefndar Evrópu, UNECE, og matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar FAO. Þetta er annar fundurinn þar sem rætt verður um samband skógræktar og skógarafurða við markmiðin um sjálfbæra þróun. Fyrsti fundurinn var haldinn í janúar á þessu ári og þar velti fundarfólk fyrir sér hvernig mætti flétta skógum með markvissum hætti inn í yfirlýst markmið um sjálfbæra þróun.

http://www.unece.org/index.php?id=35313

http://www.unece.org/contact/UNECE404.html

http://www.unece.org/index.php?id=35313


Nánar um fundinn

Á fundinum 16. júní verður unnið með tíu markmið tengd skógum sem skilgreind voru á fyrsta fundinum í janúar:


I. Aukin samfélagsleg og menningarleg áhrif skóga og trjáa

    1. Störfum fjölgi og tekjur aukist i dreifbýli

    2. Forræði og sjálfsákvörðunarréttur fólks yfir skógum tryggður.

    3. Fæðuöryggi og fæðuframboð úr skógum aukist

II. Áhersla á eflandi áhrif skóga á vistkerfi

    4. Auðlindir skóganna vaxi og gæði þeirra verði meiri

    5. Líffjölbreytni skóga verði vernduð og aukin

    6. Bættur vatnsbúskapur og aukin vatnsgæði skóga

    7. Aukinn máttur skóga til að hamla gegn og draga úr loftslagsbreytingum

III. Framlag skóga og trjáa til græns hagkerfis aukið

    8. Meiri orka nýtt úr skógum, örugg og sjálfbær

    9. Nýting auðlinda skóganna betri og skilvirkari

   10. Fjárfesting aukin í sjálbærum nytjaskógum og notkun afurða úr slíkum skógum


Sem kunnugt er halda Sameinuðu þjóðirnar úti opnum vinnuhópi um sjálfbæra þróun (OWG) og á fundinum í Genf verður tekið mið af framgangi þeirrar vinnu. Unnið verður með markmiðin tíu sem hér voru talin upp, dregið fram hvernig koma má sjónarmiðum skógargeirans inn í störf OWG. Þróaðir verða vísar eða leiðbeiningar um hvert stefna skal. Áhugasömum skal bent á markmiðslýsingu vinnuhópsins sem finna má hér.

Fundurinn fer fram í tengslum við 36. fund sameiginlegs vinnuhóps UNECE og FAO um hagtölur skóga, efnahag og stjórnun sem haldinn verður 17.-18. júní. Hægt er að hafa samband við Roman Michalak eða Alicja Kacprzak ef óskað er frekari upplýsinga