Laugardaginn 17. júlí býður Skógræktarfélag Reykjavíkur og M16.is fjölskyldufólk sérstaklega velkomið í Heiðmörk. Farið verður frá Borgarstjóraplaninu, sem er við Heiðarveg, skammt austan vegamótanna við Hjallaveg. Dagskráin hefst kl 12 og stendur til kl 16. 

Boðið verður upp á ýmsa leiki og þrautir, ásamt fræðandi gönguferðum um skóginn, fyrir alla aldurshópa. 

Í leiknum er markmið að öll fjölskyldan fái þrautir og leiki fyrir sitt hæfi.  Leikirnir og þrautirnar eru á stöðvum á gönguleiðum.  Fjölskyldan getur valið um tvær gönguleiðir, önnur er 2 k.m. en hin 4 k.m (leiðir frá Borgarstjóraplani að Fjölskyldulundinum.)  Í upphafi fær fjölskyldan skráningarblað og kort af gönguleiðunum.  Hver stöð er merkt á leiðina og nú reynir á samvinnu allra að finna stöðvarnar og leysa þrautirnar. 

Þegar fjölskyldan hefur leyst þrautirnar á leiðinni kemur hún við í Furulundi en þar verða grillaðar pylsur og gos selt við vægu verði.