Hér kynnir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, skipurit …
Hér kynnir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, skipurit stofnunarinnar og fyrirkomulag stuðnings og samstarfs við skógarbændur. Myndin er frá fundinum að Þurranesi í Dölum.

Bændur upplýstir og hlustað eftir væntingum þeirra

Skógarauðlindasvið Skógræktarinnar stend­ur þessa dagana fyrir fundum með bændum vítt og breitt um landið. Á fund­un­um eru kynntar þær breytingar sem fólust í sameiningu skógræktarstofnana í Skóg­rækt­ina, farið yfir skipurit stofnunarinnar og fyrirkomulag þjónustunnar og samstarfsins við bændur. Markmið fundanna er bæði að upplýsa bændur og heyra viðhorf þeirra og væntingar, kynnast og mynda tengsl.

Haldnir hafa verið fundir í Þurranesi í Dala­sýslu og á Hvanneyri, í Gunnarsholti á Rangárvöllum, á Kirkjubæjarklaustri og í Reykjavík. Góðar umræður hafa skapast á fundunum. Vaxandi áhugi er á skógrækt í landinu, meðal annars vegna umræðu um loftslagsbreytingar og þau tækifæri sem felast í aukinni skógrækt í því samhengi. Sömuleiðis er skógarauðlindin farin að sýna sig æ betur, ekki síst hjá þeim bændum sem fyrstir hófu skógrækt og eru nú farnir að uppskera svolítið úr skógum sínum.


Næsti fundur verður í kvöld kl. 20 á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Því næst verður fundur á Húsavík 9. mars kl. 20 í sal stéttar­félagsins Framsýnar við Garðars­braut 26, að Löngumýri í Skagafirði 15. mars kl. 15, Tálknafirði 16. mars (nánari stað- og tímasetning auglýst síðar) og loks að Holti í Önundarfirði 20. mars.

Ástæða er til að hvetja alla bændur og aðra landeigendur til að sækja sér upp­lýsingar um þá möguleika sem þeim bjóð­ast í skóg­rækt og skjólbeltarækt. Til slíks eru fundir sem þessir upplagður vettvang­ur.

Þá er sömuleiðis smám saman verið að tína inn meiri upplýsingar um þessi efni á vef Skógræktarinnar, skogur.is, undir flip­anum Nýskógrækt. Þar er farið yfir þau skref sem landeigendur þurfa að stíga til að hefja nytjaskógrækt á lögbýlum og hægt að finna fræðsluefni sem aukið verður og endurbætt á næstu vikum og mánuðum.

Skógræktarráðgjafar Skógræktarinnar í öllum landshlutum gefa fúslega upplýsingar alla virka daga á skrifstofutíma.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Sæmundur Þorvaldsson