Helgina 2. og 3. mars var haldið skógarnytjanámskeið fyrir skógarbændur á Vesturlandi í námskeiðsröðinni Grænni skógar I á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands. Á námskeiðinu kynntust þátttakendur ferskum viðarnytjum og gömlum vinnubrögðum með notkun tálguhnífa, exi og annarra skógaráhalda. Þeir unnu sjálfir ýmis búsáhöld og skrautgripi sem nota má í daglegu lífi eða gefa sem tækifærisgjafir. Reynslan hefur sýnt að þessar „smáviðarnytjar“ er ágæt leið fyrir skógarbændur til að kynnast eiginleikum einstakra trjátegunda og hvaða viðartegundir henta í einstök verkefni. Á námskeiðinu voru um 20 skógarbændur af Suður- og Vesturlandi enef einstakir bændur missa úr námskeiðsröðinni geta þeir sótt það annars staðar.

Guðmundur Sigurðsson, starfsmaður Vesturlandsskóga, sótti námskeið á vegum Lesið í skóginn- tálgað í tré hjá Skógrækt ríkisins í Hvammi í Skorradal árið 2001 og hefur síðan þá tálgað fugla og ýmsa gripi sem hann hefur til skrauts eða gefið. Ólafur Oddsson, leiðbeinandi á námskeiðinu, notaði  tækifærið og sýndi þátttakendum hvernig má þróa tálguvinnuna og gera hana arðbæra í einkalífinu. Auk þess eru heimaunnir nytja- og skrautmunir í umhverfi skógarbænda hluti af því að vera fyrirmynd annarra í sjálfbærni á því sviði. Ólafur nefndi einnig dæmi um einstaklinga sem hafa af því töluverðar tekjur að selja tálgaða minjagripi og skrautmuni og fer sá hópur stækkandi með hverju árinu.

19032012_2

19032012_3

Texti: Ólafur Oddsson
Myndir: Björgvin Eggertsson