Skyldi einhver þessara bíla sjást í skógum landsins á komandi árum? Hvað sem því líður er stefna Skó…
Skyldi einhver þessara bíla sjást í skógum landsins á komandi árum? Hvað sem því líður er stefna Skógræktarinnar að allir bílar stofnunarinnar verði knúnir endurnýjanlegri orku áður en áratugurinn er liðinn. Samsett mynd.

Nokkrar gerðir af rafknúnum pallbílum með fjórhjóladrifi eru nú í þróun og væntanlegir á markað á næstu misserum. Fátt bendir til þess að tengiltvinnbílar verði millistig í orkuskiptum pallbíla því framleiðendur leggja nú áherslu á hreina rafbíla í þessum bílaflokki. Búast má við því að á síðari hluta þessa árs og því næsta verði fyrstu rafknúnu palljepparnir komnir á markað í Bandaríkjunum þar sem er stærsti markaðurinn fyrir þessa tegund farartækja.

Öflugir bílar með drifi á öllum hjólum eru ómissandi verkfæri við ýmsa skógarvinnu, hvort sem það er vinna við ræktun, viðhald og umsjón þjóðskóganna, ráðgjöf og úttektir á jörðum skógarbænda, skógmælingar og rannsóknir eða annað. Komast þarf um skógana og væntanleg skógræktarsvæði þar sem aðstæður geta verið mjög mismunandi.

Bílafloti Skógræktarinnar er kominn mjög til ára sinna og vonir eru bundnar við það hjá stofnuninni að við endurnýjun þessara bíla verði hægt að taka mjög ákveðin skref í átt til orkuskipta. Rætt hefur verið um að svokallaðir tengiltvinnbílar verði millistig í þróuninni frá bílum með sprengihreyfil yfir í hreina rafbíla en margt bendir nú til þess að þetta millistig verði ekki endilega nauðsynlegt. Hægt verði að skipta beint yfir í hreina rafbíla. Það gildi ekki aðeins um fólksbíla heldur jafnvel einnig stærri jeppa og pallbíla.

Lengur þarf að bíða eftir vetnistækninni en vel kann þó að vera að hún verði ekki aðeins nýtt í stórum farartækjum eins og flutningabílum, vinnuvélum og rútum heldur verði a.m.k. stærri jeppar mögulega í boði bæði sem hreinir rafbílar og vetnisbílar. Í flestum vetnisknúnum bílum er efnarafall sem vinnur rafmagn úr vetninu sem knýr drifkerfi bílsins. Tæknin er enn dýr og ekki eru í augsýn vetnisknúnir skógarbílar alveg á næstunni. Alla innviði vantar líka hérlendis eins og víðar svo hægt sé að fylla bíla með vetni hvar sem er.

En rafknúnir pallbílar eru sannarlega væntanlegir á markaðinn og hér eru helstu valkostirnir  sem binda má vonir við að fáanlegir verði, jafnvel á Íslandi, áður en langt um líður.

Tesla Cybertruck er byggður með svipuðum aðferðum og Space X geimflaugarnar. Hann lítur líka út eins og hann sé utan úr geimnum. Mynd af tesla.com/isTesla Cybertruck

Umtalaðasti rafknúni pallbíllinn þessi misserin er væntanlega Cybertruck-pallbíllinn frá Tesla. Stefnt hefur verið að því að framleiðsla á honum hefjist á þessu ári en mögulega dregst hún fram á það næsta. Framleiðslan hefst á dýrustu útgáfunni, eins og venjan er hjá Tesla. Sú verður með þremur rafmótorum og risastórri rafhlöðu sem á að koma bílnum allt að átta hundruð kílómetra á einni hleðslu. Þetta verður bíll með alla hefðbundna eiginleika fjórhjóladrifins palljeppa en að auki verður hann með viðbragð og afl á við dýrustu sportbíla. Dýrasta gerðin á að ná 100 km hraða á innan við þremur sekúndum. Það er kannski ekki beinlínis það sem þörf er á í skógarvinnunni en annar tæknibúnaður á borð við mjög fullkomið drifkerfi, rafmagnsúttak fyrir stærri raftæki og ýmsar snjallar lausnir á palli bílsins gera hann að freistandi kosti. Bíllinn verður líka firnasterkur með skotheldu gleri og ytra byrði úr ryðfríu stáli. Miðgerð bílsins, sem búast má við á markað seinna á næsta ári, á að komast um 480 km á einni hleðslu og geta dregið 5 tonn. Sú ódýrasta verður aðeins með afturhjóladrifi og myndi því ekki henta í skógarvinnu. Verðið á miðgerðinni er áætlað um 6,5 milljónir króna í Bandaríkjunum en yrði væntanlega nokkru hærra hér á landi.

Frumgerð að rafknúnum palljeppa frá Ford. Útlit bílsins verður væntanlega allt annað en hér sést. Ljósmynd af insideevs.comFord F-150 EV

Næsti bíll er heldur hefðbundnari og fellur væntanlega í kramið hjá þeim sem ekki vilja sýna með eins áberandi hætti að þau aki um á rafbíl. Hinn fornfrægi Ford F-150 er væntanlegur í rafbílaútgáfu þótt ekkert sé vitað um endanlegt útlit hans enn.  Ef til vill gefur nýr Bronco einhverja hugmynd um mögulegt útlit. Frumgerðin er kölluð Ford F-150 EV en litlar upplýsingar er enn að hafa um afl og eiginleika þessa bíls. Frumgerð hans bendir þó til að þetta verði öflugur bíll. Til dæmis var þessi frumgerð látin draga lestarvagna á teinum sem samtals voru tæp hálf milljón tonna að þyngd. Bíllinn dró þetta mikla hlass um 200 metra. Heimildir herma að bíllinn verði búinn tveimur rafmótorum og jafnvel verði í boði eins konar ljósavél sem koma megi fyrir á pallinum til að framleiða rafmagn ef það þrýtur af geymunum. Þar með yrði bíllinn blendingsbíll. Hjá Ford virðast menn þó ekki lengur horfa til þess að tengiltvinnútgáfur verði endilega millistigið yfir í hreina rafbíla. Í fyrri áætlunum var gert ráð fyrir að setja á markað tengiltvinnútgáfu af F-150 árið 2021 en allt bendir til þess að Ford ætli nú að sigta frekar á hreina rafbíla. Til þess bendir líka öll sú mikla kynning sem fyrirtækið hefur lagt í Ford Mustang rafbílinn að undanförnu. En hvað eigum við að kalla hreinan rafbíl ef búið er að bæta við hann eldsneytisknúinni ljósavél til að búa til rafmagn? Eftir því sem næst verður komist mun rafmagnsútgáfan af hinum fræga Ford F-150 kosta að lágmarki 70.000 Bandaríkjadollara sem eru um níu milljónir íslenskra króna. Ef það reynist rétt verður þessi bíll mun dýrari en Tesla Cybertruck. Samt sem áður virðist sem áhugi fólks sé meiri á Fordinum en Tesla-trukknum því fleiri hafa skráð sig fyrir eintaki af þeim fyrrnefnda.

Nýi rafknúni Hummerinn er vígalegur og búinn margvíslegri nýstárlegri tækni sem gerir hann að miklu torfærutæki. Mynd: GMGMC Hummer EV

Þriðji bíllinn sem hér skal nefndur er mjög spennandi líka og er bandarískur eins og þeir fyrri tveir. Bílaframleiðandinn General Motors hyggst endurvekja gamalkunnugt jeppamerki, Hummer, sem upprunalega var afsprengi hertrukka sem American Motors framleiddi fyrir Bandaríkjaher. Sá bíll var í raun frægur að endemum enda vandfundinn bíll sem eyddi meira eldsneyti miðað við notagildi. Það þótti því svolítið djarft að ráðast í hönnun á hreinum rafjeppa með palli og nota á hann þetta gamla heiti, Hummer. En það hefur farið öðruvísi en sumir héldu því mjög mikil eftirvænting hefur skapast kringum þennan bíl. Hann þykir mjög vel heppnaður og hefur margvíslegar snjallar lausnir, fyrir utan útlitið, sem fellur íhaldssömum betur í geð en Tesla Cybertruck.  Meðal annars er hann byggður á svokallaðri Ultium-rafbílatækni GM sem er eins konar staðlað einingakerfi rafhlaðna og drifkerfis sem hægt er að laga að stærð og gerð hvers rafbíls fyrir sig. Gert er ráð fyrir að GMC Hummer EV verði kominn í framleiðslu í árslok sem árgerð 2022. Bíllinn á að hafa mikla torfærueiginleika og komast allt að 560 kílómetra á hleðslunni. En þetta verður enn dýrari bíll en Ford F150 EV, væntanlega ekki undir 10 milljónum íslenskra króna.

Rivian RT er lúxusbíll og markhópur hans er ekki síst ævintýrafólk sem stundar útivist og ferðalög. Skjámynd af rivian.comRivian RT

Nokkuð lengi hefur þurft að bíða eftir að framleiðsla á bílum nýsköpunarfyrirtækisins Rivian færu að rúlla af færibandinu. Veirufaraldurinn COVID-19 hefur tafið fyrir framleiðslunni þar á bæ eins og víða annars staðar. Rivian þykir hafa tekið heldur hefðbundnari afstöðu til útlitshönnunar rafknúins pallbíls en Tesla. Bíllinn, sem kallast Rivian RT, er samt sem áður um margt óvenjulegur. Framendinn líkist engu öðru og í bílnum er líka skemmtileg lausn á einu helstu vandamáli palljeppanna sem er skortur á farangursrými. Með hugvitsamlegum hætti hefur tekist að nýta rými aftan við aftursæti bílsins og undir fremri enda pallsins þar sem koma má fyrir skíðum eða snjóbrettum, brimbretti eða öðrum farangri. Og hurðirnar á þessu geymslurými má líka nota sem tröppu til að klifra upp á pallinn eða sýsla með dót sem hlaðið hefur verið á bílinn. Bíllinn hefur meðal annars vakið mikla athygli fyrir svokallaða skriðdrekastillingu sem gerir kleift að snúa honum á punktinum ef undirlagið er laus möl eða sandur til dæmis. Þá eru hjólin látin snúast í öfuga átt vinstra og hægra megin líkt og belti á skriðdreka. Þá státar Rivian líka af því að bílar þeirra muni geta ekið í allt að eins metra djúpu vatni og jafnvel enn dýpra ef þeir eru fulllestaðir. Nú er stefnt að því að fyrstu Rivian-bílarnir verði afhentir í júní 2021. Þeir verða af dýrari gerð þessa bíls sem kemst um 650 kílómetra á hleðslunni en ódýrari gerðin kemur síðar með drægni upp á um 400 km.  Verðið verður frá um tíu milljónum króna í Bandaríkjunum.

Bollinger B2 pallbíllinn er sterkur eins og gamli landróver en algjörlega rafdrifinn. Mynd: bollingermotors.comBollinger B2

Aðdáendur gamla landróvers geta kæst því annað nýsköpunarfyrirtæki, Bollinger, hefur hannað rafknúinn jeppa, B1, sem líka verður boðinn í pallbílsútgáfu undir heitinu B2 og líkjast báðar útgáfurnar gamla Land Rover Defender mjög. Hugmyndin var að búa til vinnuhest sem þyldi sitt af hverju í daglegum störfum og athöfnum. Það skemmtilegasta fyrir skógarfólk við þennan bíl er að hann er hægt að opna að framan og gegnum farþegarýmið þannig að í raun er hægt að flytja á honum eins löng borð og planka - eða trjáboli - og hægt er að finna. En þessi bíll verður nokkuð dýr, frá sextán milljónum króna í Bandaríkjunum, þannig að hann kemur vart til greina fyrir skógargeirann á Íslandi. Auk þess verður hann með minni drægni en fyrrnefndir bílar, um 360 kílómetra, sem reyndar er kappnóg fyrir flesta.

Fyrsti rafknúni vinnuþjarkurinn í hópi pallbíla? Hver veit? Skjámynd af lordstownmotors.comLordstown Endurance

Öllu raunhæfara virðist hins vegar að þriðji nýliðinn á þessum markaði, Lordstown Motors í Ohio, geti boðið rafknúinn palljeppa á viðráðanlegu verði. Stefnt er að því að Lordstown Endurance verði kominn í framleiðslu á næsta ári. Tugir þúsunda pantana liggja þegar fyrir í þennan bíl, aðallega frá atvinnurekendum enda auglýsir framleiðandinn bílinn með þeim orðum að þetta sé fyrsti rafknúni vinnubíllinn af þessum toga á markaðnum. Verðið verður hátt í sjö milljónir króna vestan hafs, sem er nokkuð álitlegt. Þessi bíll verður með rafmótor á hverju hjóli sem gerir kleift að stýra veggripi og hemlun mjög nákvæmlega.

Atlis XT

Atlis Motor Vehicle Company heitir enn eitt nýsköpunarfyrirtækið á þessu sviði. Það hefur kynnt Atlis XT palljeppann sem það segir að sé einhver öflugasti bíll þeirrar gerðar sem sögur fari af. Dýrasta útgáfan með stærstu rafhlöðunni á að komast 800 kílómetra á hleðslunni, geta dregið 17 tonn og borið yfir tvö tonn. Þrjár stærðir af rafhlöðu verða í boði og tvær lengdir af palli. Ódýrasti bíllinn með 125 kílóvatta rafhlöðu og um 480 km drægni er talinn munu kosta tæpar sex milljónir króna vestra. Sala á bílnum á að hefjast 2022.

Chevrolet BET

Bandaríski bílarisinn Chevrolet er líka með svipuð áform og keppinautarnir vestan hafs. Áætlað er að hefja í lok þessa árs framleiðslu á rafknúnum palljeppa, Chevrolet BET, sem á að komast yfir 600 km á hleðslunni og nota að einhverju leyti sömu tækni og Hummer-bíllinn sem sagt er frá hér ofar, þ.e. Ultium-rafbílakerfi GM. Fátt er vitað meira um þennan bíl og meðal annars er litlar upplýsingar að hafa um væntanlegt verð.

Hercules Alpha

Hercules Electric Vehicles er enn eitt nýtt fyrirtæki í Bandaríkjunum sem vinnur að þróun rafknúinna palljeppa. Það er í bílaborginni forfrægu, Detroit, sem reyndar má muna sinn fífil fegurri í bílabransanum. Hercules Alpha er ætlað að vera sterkbyggður lúxusbíll með drægni upp á um 480 kílómetra. Hægt er að leggja inn pantanir fyrir slíkum bíl nú þegar en ekkert er vitað um hvað hann muni kosta þegar hann kemur á markað, sem gæti verið á næsta ári.

Nissan

Í framhaldi af því er vert að nefna Nissan-bílaframleiðandann sem hefur getið sér gott orð fyrir rafbílinn Nissan Leaf, mest selda rafbíl heims um árabil. Sögusagnir eru um að þar á bæ sé unnið að þróun palljeppa í fullri stærð sem ætlaður sé Bandaríkjamarkaði. Sagt er að þar hafi verið efnt til samstarfs við nýsköpunarfyrirtækið sem nefnt var hér að framan, Hercules Electric Vehicles, og palljeppi Nissan muni nota sama rafbúnað og Hercules Alpha.

Fleiri mögulega palljeppa mætti nefna en látum þessari upptalningu lokið í bili.  Fisker er með á teikniborðinu Alaska-jeppann eða jepplinginn og áformar mögulega framleiðslu á pallútgáfu í framhaldinu. Ekkert er vitað hvort af því verður. Heldur er ekkert vitað um hvort  Nikola Badger palljeppinn verður nokkurn tíma að veruleika. Þann bíl átti að framleiða í samvinnu við General Motors en ekkert verður af því. Ein útgáfa þessa bíls átti að vera vetnisknúinn rafbíll.

Stefna Skógræktarinnar um orkuskipti

Ljóst er að mikið er að gerast í þróun rafknúinna palljeppa og að öllum líkindum dregur til tíðinda á seinni hluta þessa árs og því næsta. Hjá Skógræktinni er stefnt að því að ráðast sem fyrst í orkuskipti í bílaflotanum og í umhverfis- og loftslagsstefnu stofnunarinnar stendur að við kaup á bifreiðum fyrir Skógræktina skuli velja sparneytin og visthæf ökutæki. Árið 2030 skulu öll ný ökutæki á vegum Skógræktarinnar knúin endurnýjanlegri orku og a.m.k. helmingur allra ökutækja í rekstri. Þá er stefnt að því að keðjusagir á vegum stofnunarinnar verði allar rafknúnar um miðjan áratuginn, glussavökvi á vélum stofnunarinnar á að vera lífrænn o.fl. Það verður ekki amalegt að hlaða rafknúnu keðjusagirnar beint úr rafbílnum og vinna við blíðan fuglasöng í hreinu skógarloftinu!

Texti: Pétur Halldórsson