Steinsteypt borðtennisborð, ánamaðkar, merk tré og margt fleira

Á skógardegi Norðurlands sem haldinn verður í Kjarnaskógi laugardaginn 9. júlí verður meðal annars hægt að reyna sig í borðtennis á glænýjum steinsteyptum borðtennisborðum sem Möl og sandur á Akureyri hefur gefið í skóginn. Boðið verður upp á sögugöngu um skóginn og fræðslu um merk tré, ánamaðkafræðslu, ratleik, ýmiss konar veitingar og að sjálfsögðu hið ómissandi ketilkaffi.

Skógardagur Norðurlands verður nú haldinn í þriðja sinn. Þessi viðburður er hafður til skiptis í Kjarnaskógi og Vaglaskógi. Í fyrra var lögð áhersla á skógarhögg og viðarnytjar en nú verður meira gert með skóginn sem útivistarsvæði og ýmsa möguleika sem þar búa. Hátíðin fer fram á Birkivelli, nýju útivistar- og grillsvæði í Kjarnaskógi sem unnið hefur verið að undanfarin misseri. Svæðið er nú að mestu tilbúið þótt enn eigi eftir að bætast við leiktæki og fleira sem áformað hefur verið. Birkivöllur er rétt sunnan við strandblakvellina og völundarhúsið í suðurhluta Kjarnaskógar.

Meðal þess sem verður í boði á skógar­deg­in­um eru tvær gönguferðir. Hallgrímur Indriðason sem um áratuga skeið var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna, efnir til göngu sem hann kallar „Aftur til framtíðar“. Þar leiðir hann göngufólk um sögustaði í skóginum og bendir m.a. á minjar um búskap á Kjarnajörðinni sem var stórbýli um aldir. Ingólfur Jóhannsson, núverandi framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna, fer hins vegar með fólk í göngu milli merkra trjáa í skóginum. Þá verða feðginin og náttúrufræðingarnir Bjarni E. Guðleifsson og Brynhildur Bjarnadóttir með fræðslu um ánamaðka á Birkivelli og getur fólk fengið að skoða maðkana í víðsjá. Jarðvegurinn er undirstaða alls lífs á landi og ánamaðkarnir gegna þar mjög mikilvægu hlutverki í þágu annarra lífvera, meðal annars trjáa og að sjálfsögðu okkar mannanna þar með.


Ýmiss konar skógarlegt góðgæti verður í boði, pinnabrauð, lummur, popp og að sjálfsögðu ketilkaffi ásamt fleiru. Þessa dagana er verið að koma fyrir stein­steypt­um borðtennisborðum á Birkivelli. Möl og sandur tók vel málaleitan Skógræktar­fé­lags­ins um að steypa slík borð og ákvað að gefa þau í skóginn. Þetta eru þó ekki fyrstu borðtennisborðin sem sett eru upp í skógi hérlendis því slíkum borðum var komið fyrir í Heiðmörk fyrir fáeinum árum, hafa reynst vel og verið mikið notuð. Ratleikur verður í boði fyrir alla á Skógar­deg­i Norðurlands á laugardag og kennsla í flautugerð úr þeim efniviði sem skógurinn gefur.

Allir eru velkomnir á Skógardag Norðurlands sem hefst kl. 13 og lýkur kl. 16. Gönguferðirnar verða í boði kl. 13.30 og 14.30.

Þessi viðburður er samvinnuverkefni Skógræktarinnar, Skógræktarfélags Eyfirðinga, Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga og Félags skógarbænda á Norðurlandi.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson