Lucile Delfosse með auðnutittling í lófa sér, sallarólegan.
Vaxandi fuglalíf í Fljótshlíð með auknum skógum og hlýnandi veðri
Hrafn Óskarsson og Lucile Delfosse, sem bæði vinna í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð, hafa hænt að sér auðnutittlinga með fóðurgjöfum. Þeir huguðustu setjast í lófa þeirra og ná sér í sólblómafræ. Kvenfuglarnir eru frakkari en karlfuglarnir.
Auðnutittlingunum hefur fjölgað á Tumastöðum eftir hrun sem varð í stofninum fyrir fáeinum árum, líkt og gerðist um allt land. Áður en stofninn hrundi voru um hundrað fuglar að staðaldri allan veturinn við starfstöðina. Þeim fækkaði niður í fáeina tugi en fjölgar nú á ný. Hrafn hefur fylgst með fuglum í áratugi og gefið þeim á vetrum. Hann segir að þegar kemur fram á vorið og minna sé orðið af fræi til að éta í skóginum verði fuglarnir ákafari á gjafabrettinu. Þeir venjist mannfólkinu smám saman. „Svo endar með að maður prófar að rétta þeim korn í lófanum,“ segir Hrafn. Kvenfuglarnir séu mun hugaðri en karlfuglarnir. Fleiri „kerlingar“ þori að koma í lófann og næla sér í fræ en stöku „karl“ láti slag standa líka.
Ýmsum fuglategundum fer nú fjölgandi með stækkandi skógum og hlýnandi veðri, segir Hrafn. Mest er af auðnutittlingum á Tumastöðum en þar eru líka svartþrestir og skógarþrestir allan veturinn sem ekki voru áður. Svartþrösturinn fór að verpa þar fyrir um þremur árum. Glókolli, minnsta fugli Evrópu, fjölgaði mikið í fyrra en líkt er um stofn glókollsins og auðnutittlingsins að hann sveiflast mjög mikið. Ýmsum fleiri skógarfuglum bregður fyrir á Tumastöðum. Þar voru eyruglur um tíma en hafa ekki sést upp á síðkastið. Hins vegar virðist sem hrafninn líti æ meir til skóganna eftir varpstöðum og síðustu fjögur ár hefur hrafnspar haft laup í stóru grenitré á Tumastöðum.
Fólki sem vill laða til sín fugla ráðleggur Hrafn fyrst og fremst að sýna þolinmæði. Gott sé að fóðra þá í grennd við tré til að byrja með og leyfa þeim að venjast návist mannsins. Smátt og smátt verði þeir spakari og þá er hægt að fara að prófa að rétta út höndina og sjá hvort þeir koma og setjast. Yfirleitt byrji einn kjarkmikill og í kjölfarið komi hinir. Einn þurfi til að byrja. Fuglarnir séu greinilega mjög mishugaðir, sumir þori aldrei þótt þá langi greinilega mjög og karlfuglarnir séu greinilega varari um sig en kvenfuglarnir. Einn og einn karlfugl láti sig þó hafa þetta. Þau Lucile gefa fuglum allan vetruinn úti á bretti, aðallega sólblómafræ en líka brauð, feitmeti og ávexti sem skógarþrestirnir og svartþrestirnir sækja mjög í.
Nú er allt orðið grænt yfir að líta í Fljótshlíðinni, í það minnsta viku eða tíu dögum fyrr en venjulega. Hrafn hefur farið að Heklu og segir að þar sé gróðurinn síst skemmra á veg kominn. Allt líti vel út og til dæmis séu horfur á mjög mikilli blómgun á ýmsum tegundum, ekki síst sitkagreni sem virðist ætla að blómstra mikið en sömuleiðis furu, alaskaösp og fleiri tegundum.
Meðfylgjandi myndir tók Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi.