Ríflega aldargamalt evrópulerki í Finnlandi.
Frumvarp um betra kolefnisbókhald vegna landnýtingar hjá ESB
Evrópuráðið lagði 20. júlí í sumar fram lagafrumvarp þar sem lagt er til að bæði losun og binding gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar (LULUCF) verði felld inn í rammaáætlun Evrópusambandsins um orku- og loftslagsmál sem miðuð er við árið 2030.
Tillagan var lögð fram í anda samkomulags Evrópuleiðtoga frá október 2014 sem kveður á um að allir þættir efnahagslífsins skuli leggja sitt til markmiða Evrópusambandsins um minnkandi losun fram til 2020, þar með talin starfsemi sem byggist á landnýtingu. Frumvarpið fellur líka að Parísarsamkomulaginu þar sem bent er á mikilvægt hlutverk landnotkunar í því langtímaverkefni að vega upp áhrif af losun gróðurhúsalofttegunda.
Skuldbindingar Evrópusambandsins
Í frumvarpinu eru hverju aðildarlandi Evrópusambandsins settar bindandi skuldbindingar sem tryggja eiga að uppgefin losun vegna landnotkunar sé vegin að fullu upp með bindingu, með öðrum orðum að jafnmikið sé bundið af koltvísýringsígildum og það sem losað er vegna nýtingar lands. Þetta er kallað „no debit rule“ á ensku sem við gætum snúið yfir á íslensku og kallað skuldajöfnunarregluna. Við losun verður til skuld sem greidd er með bindingu. Aðildarríkin gengust reyndar undir skuldbindingu sem þessa til ársins 2020 með Kíótó-bókuninni á sínum tíma en tillaga Evrópuráðsins nú festir hana áfram í evrópskum lögum á árabilinu 2021-2030.
Með þessum nýju reglum fá aðildarlöndin verkfæri til að stuðla að loftslagsvænni landnýtingu án þess þó að setja þurfi einstökum aðilum nýjar hömlur eða auka skriffinsku. Talið er að þetta muni hjálpa bændum að þróa og taka upp loftslagsvæna búskaparhætti og styðji um leið við skógræktendur því nú verði jákvæð loftslagsáhrif skógræktar og nýtingar skógarafurða sýnilegri. Þannig verður það hagur þess sem losar gróðurhúsaloft með landnýtingu að á móti sé ræktaður skógur og úr honum unnar afurðir sem hafa bundinn í sér koltvísýring úr andrúmsloftinu.
Lífmassi
Haldið verður saman tölum um magn útblásturs vegna lífmassa sem brenndur er til orkuframleiðslu og tölurnar lagðar fram í bókhaldi hvers aðildarríkis Evrópusambandsins vegna 2030-markmiðanna. Með þessu er brugðist við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram að útblástur vegna brennslu lífmassa sé ekki með í evrópskri löggjöf. Skógarnýting er aðaluppspretta þess lífmassa sem notaður er til orkuframleiðslu í álfunni og því treystir löggjöf um kolefnisbókhald og skógarnýtingu þann grunn sem lagður verður undir stefnu Evrópusambandsins um endurnýjanlega orku eftir 2020. Lífmassi úr skógi sem brenndur er til orkuframleiðslu er kolefnishlutlaus ef hans er aflað með sjálfbærum hætti og jafnmikill skógur ræktaður á ný og sá sem var felldur.
Frumvarp Evrópuráðsins gerir bókhaldskerfið sem tilheyrði Kíótó-bókuninni einfaldara og betra. Með því verður til nýtt stjórnkerfi hjá Evrópusambandinu til að fylgjast með hvernig aðildarríkin meta útblástur og bindingu í landbúnaði og skógrækt.
Að tryggja góðan og hagkvæman árangur markmiðanna
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum sveigjanleika fyrir aðildarríkin. Ef niðurstaða bókhaldsins vegna landnýtingar og skógræktar í einhverju landanna er nettólosun, semsé að meira sé losað en bundið, er leyfilegt að skiptast á losunarheimildum milli landa í krafti sérstakra reglna um dreifða ábyrgð, Effort Sharing Regulation. Þar er með öðrum orðum möguleiki fyrir viðkomandi land að uppfylla skuldajöfnunarreglu sína. Aðildarlöndin geta verslað með umframbindingu og í því felst hvatning til þeirra landa sem geta aukið bindingu að auka hana umfram sín eigin markmið.
Samráð
Haft var samráð við hagsmunaaðila á ýmsum stigum við undirbúning frumvarpsins sem nú hefur verið lagt fyrir Evrópuþingið, ráðherraráðið, efnahags- og félagsmálanefndina og svæðanefndina til frekari umfjöllunar eins og gangurinn er hjá Evrópusambandinu. Almenningi gafst færi á að gera athugasemdir við tillögurnar eftir að Evrópuráðið sendi það frá sér og samantekt þeirra athugasemda hefur verið kynnt þingmönnum á Evrópuþinginu og fulltrúum ráðherraráðsins.