Gengið á Silfrastöðum fimmtudag og á fjórum öðrum stöðum föstudag
Í tilefni af því að föstudaginn 1. júlí hefur ný stofnun, Skógræktin, formlega starfsemi sína verður gengið í skóg á sex stöðum á landinu. Fyrsta gangan verður í kvöld, fimmtudagskvöld, í Silfrastaðaskógi í Skagafirði en á morgun föstudag verður gengið í skóginum við Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, á Galtalæk í Biskupstungum, Oddstöðum Lundarreykjadal Borgarfirði, Innri-Hjarðardal Önundarfirði, og Strönd á Völlum Fljótsdalshéraði.
Gangan á Silfrastöðum er reyndar á vegum Félags skógarbænda á Norðurlandi í samvinnu við skógarbændurna á Silfrastöðum, skógfræðingana Hrefnu Jóhannesdóttur og Johan Holst. Af því að þessa göngu bar nánast upp á sama dag og ný stofnun tekur til starfa var samið við þau um að gangan þeirra yrði hluti af þessum göngum Skógræktarinnar. Fólk er velkomið klukkan 19 að Silfrastöðum sem eru við þjóðveg 1 í Akrahreppi rétt við mynni Norðurárdals um 70 km frá Akureyri og um 25 km frá Varmahlíð.
.">
Á föstudag, 1. júlí kl. 14, verður gengið í skóginn á Mógilsá í Kollafirði þar sem Rannsóknastöð skógræktar er til húsa. Skógurinn er fjölbreyttur og skemmtilegur með ýmsum trjátegundum og starfsfólk stöðvarinnar tekur á móti gestum með kaffi og með því eins og í öllum skógargöngunum. Á Galtalæk í Biskupstungum hefst einnig ganga klukkan 14 og rétt að vekja athygli á því að hér er ekki átt við hinn fræga Galtalækjarskóg í Rangárþingi ytra heldur er þessi skógur við Bræðratunguveg tæpum 6 km norðan við Flúðir. Þar er myndarleg skógrækt en bændurnir á Galtalæk, Agnes Geirdal og Guðfinnur Eiríksson, eru einnig með býflugnarækt. Rætt er við þau Agnesi og Guðfinn í Morgunblaðinu í dag.
Gangan á Vesturlandi verður hins vegar á Oddsstöðum sem eru norðan Grímsár innst í Lundarreykjadal í Borgarfirði, um 35 km frá Borgarnesi. Þar tekur heimafólk og starfsfólk Skógræktarinnar á Vesturlandi á móti gestum með ketilkaffiketilkaffi og kleinum eða öðru góðgæti og sýnir skógræktina. Starfsfólk Skógræktarinnar á Austurlandi tekur sömuleiðis á móti fólki í fallegri bændaskógrækt á Strönd á Völlum á Fljótsdalshéraði ásamt heimafólki þar. Strönd er við Lagarfljót á leiðinni inn í Hallormsstað um 10 km frá Egilsstöðum. Beygt er inn afleggjarann að Ásholti (Strandarási). Báðar þessar göngur eru á dagskrá klukkan tvö á morgun, föstudag.
Vestur á fjörðum verður einnig ganga en hún hefst klukkan 16 á föstudag. Gengið verður í skóg þeirra Sólveigar Bessu Magnúsdóttur og Björgvins Sveinssonar og þar verða starfsmenn Skógræktarinnar á Vestfjörðum með þeim. Innri Hjarðardalur er við sunnanverðan Önundarfjörð um 20 km frá Ísafirði og 11 km frá Flateyri.
Allir eru velkomnir í þessar skógargöngur til að njóta skógarins, kynnast skógrækt bænda og fagna því að nú tekur til starfa ný og öflug skógræktarstofnun sem m.a. mun leggja sig í framkróka um að þjóna bændum og efla skógrækt og skjólbeltarækt á bújörðum vítt og breitt um landið. Skógarbændur geta vitnað um það hversu mikil og jákvæð áhrif skógræktin hefur á aðrar búgreinar með þeirri auknu grósku og skjóli sem skóginum fylgir, meiri uppskeru og nytmeiri bústofni.
Velkomin í skóginn!