Þann 3. nóvember var Sigurður Blöndal fyrrum skógræktarstjóri áttræður.
Um komandi helgi 6. nóvember verður haldin svokölluð Blöndalshátíð á Hallormsstað sem ber yfirskriftina "Þetta getur Ísland". Í tilefni hennar er hér birt grein úr blaðinu Listin að lifa sem er blað félags eldri borgara. Þetta er gert með góðfúslegu leyfi ritstjóra blaðsins. Hér sést Sigurður í skjóli skógarins.
Mynd: Skarphéðinn Smári Þórhallsson (SÍ) 2004
Skógarhöfðinginn á Héraði segir Ísland land í tötrum ? vill breyta því í land í skrúða
Lögurinn var spegilsléttur og skógurinn teygði gróskumiklar blaðkrónur á móti sólu þegar skógarhöfðinginn á Hallormsstað var sóttur heim árla morguns. Sigurður Blöndal tók á móti gesti í Mörkinni, teinréttur og höfðinglegur. Segja má að Sigurður sé fróðleiksbrunnur um skógrækt á Íslandi, svo lengi er hann búinn að helga skóginum krafta sína. Hann var skógarvörður hér 1955- 1977, þá tók við starf skógræktarstjóra til 1989. Sigurður býr enn í miðjum skóginum. Hann er enn að ?skapa skóginn? og gengur iðulega á milli trjánna. ?Svo gaman að fylgjast með þessum vinum sínum og sjá að þeim líður vel!?
Hver eru tildrög að heitinu Mörkin, Sigurður?
?Mörkin er gamalt örnefni á skóglitlu svæði, 5½ hektara, sem Danir girtu af 1902 og hófu þar tilraunir með skógrækt. Nú er Mörkin trjásafn sem við ætlum að gera ekki síðra en listasafn. Hér er upphaf allrar lerkiræktunar á Íslandi. Fyrstu lerkitrén voru gróðursett hérna 1920. Nú eru um 100 tegundir í trjásafninu, voru 70 þegar ég hætti. Nú er danskur skógfræðingur að kortleggja safnið. Brátt verða öll trén í Mörkinni komin á tölvukort.?
Sigurður er alinn upp í skóginum hérna, fáir á Íslandi eiga slíkt uppvaxtarumhverfi, og lærði ungur að sporrekja í skóginum. ?Kúasmölun gat verið erfitt starf, en ég vandist á að rekja förin ?eftir klaufförum og dellum? eins og indíáni. Sveppirnir gátu ruglað kýrnar fyrir mér, þær voru ótrúlega sólgnar í þá ? á undan Íslendingum. Ég var alltaf smeykur að ná þeim ekki heim fyrir myrkur. Í myrkrinu komu nefnilega vofur út á milli trjánna, þá var vandinn að fara ekki að hlaupa!?
Í veglegri forstofu Húsmæðraskólans á Hallormsstað, Höllinni, hanga myndir af foreldrum Sigurðar, Sigrúnu og Benedikt Blöndal. ?Foreldrar mínir áttu mikið frumkvæði að stofnun skólans. Móðir mín var forstöðukona hans frá 1930 til dauðadags. Faðir minn var kennari og saman ráku þau skólabú. Skólahúsið var byggt 1929-?30. Hingað lá enginn vegur fyrr en 1931, svo að allt efni var flutt á bát frá Egilsstöðum.?
Á menntaskólaárunum á Akureyri sagði Sigurður eitt sinn af rælni. ?Kannski maður skelli sér í skógrækt.? Ósjálfrátt fór þetta að þróast með honum og varð að föstum ásetningi. Sá sem elst upp í Hallormsstaðaskógi á þar sterkar rætur. Sigurður segist einn af fáum sem hafi getað flust í sína sveit og stundað þar sín háskólafræði. ?Skógurinn hefur afskaplega góð áhrif á sálina. Í skógarvarðarstarfi mínu fólst mikil pappírsvinna sem stundum lagðist af þunga yfir mig. Þá gekk ég í skóginn og læknaðist. Ég saknaði skógarins mikið í þau fjórtán ár sem ég bjó við Faxaflóa. Skógurinn er ekki síðri að vetrarlagi, sígrænar tegundir lífga upp á.
Íslendingar sem aldir eru upp við skóglaust land, skilja ekki hvað skógurinn gefur mikið. Mjög margir óttast að missa útsýnið þegar við erum komin með skóg út um allt. Útsýnið er alltaf hægt að leysa með útsýnisstöðum meðfram vegum á landi sem ekki er slétt. Víða eru líka glufur í skóginum.
Ég sat eitt sinn norræna ráðstefnu í Finnlandi og sagði frá ótta Íslendinga við að missa útsýnið. Ég gleymi ekki skellihlátrinum sem glumdi frá 1500 manns í Finlandia-húsinu.?
Á uppvaxtarárum Sigurðar var Hádegisfjallið ofan við Hallormsstað skóglaust. ?Nú er birkið búið að vinna fjallið. Á Hallormsstað hefur aldrei verið gróðursett birki, en birkifræið á auðveldari aðgang í snöggu mólendi, einnig ef jörð er mjög bitin. Ef rækta á skóg með fræsáningu birkis, er nauðbitið land heppilegt, kannski albest að láta hross naga það niður í rót. Ég ráðlagði þeim á Hólum í Hjaltadal eitt sinn að nota þessa aðferð til að koma upp skógi í Hólabyrðu, þar sem snarrótin kæfir allt um leið og beit er aflétt. Því miður reyndu þeir þetta víst aldrei.?
Hvernig hafa nytjar af skóginum verið?
?Fyrr á árum seldum við 10-12 þúsund girðingarstaura. Sá markaður var eyðilagður þegar rekabændum var veitt undanþága frá söluskatti. Þetta var mikill atvinnuvegur, einkum á Ströndunum. Ég bað um undanþágu fyrir okkur, en þeirri beiðni var hafnað. Seinna var farið að flytja inn girðingarstaura úr eukalyptus-viði, en sá innflutti viður reyndist illa ? sem betur fer! Og nú er sala á girðingarstaurum aftur komin í gang.
Gróðursetning og plöntusala var mikil hjá okkur áður. Reyndar var oft vandamál að koma plöntunum frá sér, þær voru lengi vel sendar með skipum út um allt land. Nú má Skógræktin ekki selja lengur, öll trjáplöntusala komin til einkaframtaksins.
Um 1960 byrjuðum við að gróðursetja sérstaka jólatrésreiti að danskri fyrirmynd, Danir standa sig best í jólatrjánum, og upp úr 1970 sendum við mikið frá okkur af jólatrjám. Afskaplega gaman að fylla heila Dakotavél af jólatrjám og sjá hana taka sig á loft frá Egilsstaðaflugvelli. Þá var plöntusalan fyrsta vertíðin. Jólatréssalan önnur vertíð.
Hvernig sérðu skógarnytjar fyrir þér í næstu framtíð?
?Nytjar af fyrstu grisjun í bændaskógum verða ekki verulegar, markaður fyrir girðingarstaura er svo lítill, en lerkið er prýðisefni í þá. Efnahagsleg forsenda skógræktarinnar er framleiðsla í borðviði, eins og alls staðar þar sem skógur er ræktaður í norðlæga barrskógabeltinu. Öðru máli gegnir um skóg sem vex upp sjálfgróinn. Þar nýtist grannur skógur í massa, pappír og fleiri vörur. Borðviður fæst fyrst að ráði úr grisjun í 30-40 ára gömlum skógi og fer svo vaxandi eftir það með hverri grisjun, uns skógurinn er allur felldur, 80-100 ára gamall. Þá hefst ný ræktun og svo koll af kolli, endalaust.
Ýmsir velta fyrir sér hvað felist í bændaskógum?
?Bændaskógar eru það magnaðasta sem hefur gerst í skógrækt á Íslandi. Sprotinn að þeim var lítið reynsluverkefni í Fljótsdal ? að girða af 1500 hektara og græða á 25 árum. Þetta varð reyndar minna í sniðum, en tókst afskaplega vel, og er hvatinn að bændaskógum. Nú erum við komin með óendanlega miklu meiri reynslu og vitum miklu meira um vaxtarmöguleika trjáa á Íslandi. Niðurstaðan er að möguleikar á skógrækt eru miklu meiri en menn höfðu gert sér í hugarlund. Jón Loftsson skógræktarstjóri hefur nefnt það markmið, að 5% af landinu verði skógklætt. Nú þekur birki aðeins 1%, en 80% af því er lágvaxið kjarr.?
Við landnám voru 20-30% af landinu þakið trjám. Öruggar heimildir segja okkur það. Á Íslandi hefur orðið mesta jarðvegseyðing norðan Alpafjalla. Skógurinn er mesta jarðvegsvörnin. Fréttir greina frá stórslysum af völdum flóða sem má aftur rekja til eyðingar á skógi. Ég hef gjarnan kallað Ísland land í tötrum, en vil breyta því í land í skrúða. Jarðvegseyðingin er víða mikil hryggðarmynd.
Nú erum við búin að eignast trjátegundir sem geta endurheimt jarðveginn. Lerkið er sprettharður frumherji, ljóskært tré, sem hentar afar vel hérna. Á Héraði eru víða þurraskeggsmóar ? kjörlendi fyrir lerkið. Svo koma fylgjendurnir, grenitrén, sem líkja má við langhlaupara. Oft höfum við velt fyrir okkur hvað tré geta orðið há á Íslandi. Nú sjáum við að tré geta náð 30 metrum, við góðar aðstæður. Birkitrén hérna ná um 13-14 metrum. Svipuð hæð er á hæstu reynitrjám. Margar alaskaaspirnar eru 22-23 metrar, greni og lerki um 21-22 metrar.
Héraðsskógar komu í kjölfarið á Fljótsdalsáætlun?
?Já, eftir að Héraðsskógar tóku til starfa 1991 hefur ríkið kostað þessa skógrækt um 97%, en bændur 3%. Á þeim þrettán árum eftir að þeir komu til, er ríkið búið að leggja í þetta 80-100 milljónir árlega. Þetta hefur styrkt búsetuna á Héraði geysilega mikið. Stuttu áður var mikið af sauðfé skorið niður vegna riðu. Það var geysilegt áfall. Tvímælalaust hefur þessi fjárveiting komið að verulegu gagni fyrir landeigendur sem gróðursetja sjálfir og fá borgað fyrir hverja plöntu.
Ég vil taka fram að verkefnið borgar fyrstu grisjun, sem er mjög þýðingarmikið ákvæði. Grisjun er grundvallaratriði við skógrækt, birki og lerki þurfa að hafa græna krónu á helmingi stofnlengdar, en greni þarf græna krónu á um ¾ stofnlengdar til að halda fullum þrótti. Grisjunin sér fyrir þessu.
Nú kunna menn að spyrja, hvers vegna er verið að gróðursetja svona þétt? Jú, þá er verið að hugsa um að fá ekki óreiðu í árhringjum og grófum greinum sem rýra gildi trjábolsins. Við erum að rækta upp nytjaskóg! Tré geta orðið 5-600 ára í frumskógi, en við látum tré aldrei verða svo gömul. Þetta er munurinn á ræktuðum skógi og frumskógi.
Nú er farið að grisja elstu teigana í Héraðsskógum. Bændur á Héraði eru búnir að koma sér upp flokki skógarhöggsmanna, um 15 talsins. Ég hef notið þeirrar ánægju að vinna með þessum mönnum á nokkrum stöðum. Mitt hlutverk er að fara á undan og velja út sláturlömbin ? trén sem eiga að falla. Grisjun er skemmtilegasta verk sem ég vinn. Með grisjun erum við að skapa skóginn, gefa hverju tré lífsrými. Ég hef ekki gróðursett mörg tré, en merkt mörg til falls. Mér hefur veist sú ánægja að búa til vegakerfi og grisja skóginn sem ég gróðursetti. Skógur þarf að hafa gott vegakerfi og hvert tré lífsrými. Það er alltaf jafn gaman að sjá þessar lífverur, svo fallegar ef þeim líður vel.?
Sigurður sér meira en skógartrén, Lagarfljótsormurinn varð líka fyrir sjónum hans:
?Þetta var 5. október 1962, kl. 8.30 að morgni. Þá verður mér litið út um gluggann, og sé eitthvað svart og ávalt koma upp úr vatnsfletinum. Þetta hélt áfram að sýna sig, svo að ég hringdi í nágrannakonu sem horfði á fyrirbærið með mér. Helst minnti það á svartan hvalbak. Af og frá að þetta væri sjónhverfing. Ég tek það skýrt fram að þetta var ekki á mánudegi og ég var ekki timbraður. Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru: ?Reynslan hefur kennt mér að meta meira alþýðuráð en vísindalega hleypidóma.? Þetta finnst mér viturlega sagt.
Hvað var þitt helsta baráttumál, þegar þú varst orðinn skógræktarstjóri?
?Ég er ekki baráttumaður að eðlisfari, en mér var strax ofarlega í huga að ná góðu sambandi við bændurna, þeirra var landið og nýting þess, og stofnanir landbúnaðarins, ekki síst landbúnaðarráðuneytið sem ég átti afar gott samstarf við öll árin. Ennfremur átti ég mikil samskipti við fagskóla landbúnaðarins. Ég var oft með stutt námskeið og síðustu ár mín syðra kenndi ég á Hvanneyri og í Garðyrkjuskólanum. Það var ánægjuleg lífsreynsla. Síðustu 6 veturna kenndi ég landafræðistúdentum í Háskóla Íslands á námskeiði um gróðurbelti jarðar og gróður á Íslandi. Mjög gaman að kynnast hinu gervilega unga fólki þar. Kominn heim aftur, kenndi ég svo skógfræði tvo heila vetur við Menntaskólann á Egilsstöðum.
Sigurður er oft búinn að taka á móti hópum eldra fólks og leiðbeina um skóginn. ?Ég held samt að mikilvægasta skógræktin á Íslandi sé í þéttbýlisstöðum, af því að þar njóta flestir hennar. Hver vill sjá Reykjavík og Egilsstaði, eins og þeir voru áður? Afkastamesta fólkið í skógræktinni eru samt sumarbústaðaeigendur, þeir framkvæma oft það ómögulega.
Horfur í skógræktarmálum eru góðar á Íslandi. Þetta er með heitustu sumrum sem ég man eftir,? segir skógarhöfðinginn á Hallormsstað. Við horfum á eftir honum inn í sólbjartan skóginn.