Mikil ásókn en unglingana vantar
Nokkrir myndarlegir skógarskólar eru reknir í skógum Berlínarborgar enda yfir 40% borgarlandsins vaxin skógi. Í skólunum fer fram fjölbreytilegt starf og flestallir grunnskólanemendur koma einhvern tíma í skóg til að læra um náttúruna, vistkerfið, hringrásir lífsins, skógarnytjar og fleira. Af einhverjum ástæðum koma þó fáir hópar úr efstu bekkjum grunnskólans.
Útikennsla er nokkuð sem rutt hefur sér til rúms víða, meðal annars á Íslandi, þótt hér hafi óttinn við misjöfn veður gert að verkum að hægar hefur gengið að þróa útinám hér en víða annars staðar. Þó hafa verið útbúnar útikennslustofur víða og sums staðar hefur hver grunnskóli aðgang að eigin útikennslustofu, oftast í skógi eða trjálundi í grennd við skólann. Þá eru dæmi um að útikennslu sé beitt í sérkennslu og hefur til dæmis verið unnið áhugavert starf í Hveragerði í þeim efnum.
Í Berlín þekur skóglendi yfir 40% borgarlandsins sem fyrr segir og skólar borgarinnar nýta sér ríkulega þá skógarskóla sem er að finna í Berlínarskógum. Þeir eru í það minnsta sex talsins. Einn þeirra heitir Waldschule Zehlendorf og er í suðvesturhluta Berlínar. Forstöðukona þar er Bettina Foerster-Baldenius sem tók á móti þátttakendum á árlegum fundi samstarfsnets kynningarfólks hjá evrópskum skógarstofnunum, Forest Communicators' Network (FCN), sem haldinn var í Berlín í lok aprílmánaðar. Fundurinn var í þetta sinn í boði þýska skógasambandsins, Deutscher Forstverein (DFV) með stuðningi þýska matvæla- og landbúnaðarráðuneytisins (BMEL) og skógarstofnunar Berlínar, Berliner Forsten. Á dagskránni var meðal annars kynnisferð um skóga Berlínar og þá var skógarskólinn í Zehlendorf heimsóttur.
Bettina forstöðukona sagði frá starfsemi skólans og sýndi þar aðstöðu og húsakynni. Á svæðinu er yfirbyggð útikennslustofa með veggi á tvo vegu þar sem eru borð og bekkir og nauðsynlegustu kennslugögn. Einnig er þar upphitað bjálkahús með uppstoppuðum dýrum og fleiri sýnishornum úr náttúru skógarins, völlur þar sem fara má í alls kyns leiki og fleira. Vettvangur kennslunnar er svo auðvitað skógurinn sjálfur og allt sem hann hefur upp á að bjóða. Þar eru dádýr, villisvín og fleiri spendýr, ótal fuglategundir og margvíslegt líf sem nemendur læra að umgangast og þekkja.
Skógarskólinn er ekki einungis fyrir grunnskólabörn heldur eru allir velkomnir að nýta sér aðstöðuna og njóta aðstoðar og leiðsögn starfsfólksins. Þarna kemur fólk til að upplifa skóginn, fræðast, halda ýmiss konar viðburði, segja þjóðsögur og fræðast um söguna, stunda rannsóknir og vísindastörf, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægur þáttur í starfinu segir Bettina þó vera að gefa börnum og unglingum færi á að tengjast náttúrunni og læra um hana, yfirvinna óttann við lífið í skóginum og þess háttar.
Algengast er að heimsóknir skólakrakka byrji í bjálkahúsinu þar sem þau geta séð ýmislegt sem er að finna í skóginum, fuglsfjaðrir, köngla, dýraspor, dýrahorn, uppstoppuðu dýrin og fleira. Þarna eru sagðar sögur eða farið með aðra skemmtun sem tengist skóginum og með þessu er magnaður upp áhugi gestanna á að fara út í skóginn og sjá meira og upplifa. Þar tekur við ævintýraheimur með dimmu trjáþykkni, ungum og gömlum trjám, föllnum trjábolum og þar fram eftir götum. Á vegi manns verða dýr, stór og smá, plöntur af ýmsum toga, skordýr og fuglar. Gefinn er tími til leikja, til að klifra í trjám og jafnvel búa eitthvað til eða smíða. Svo er ekki óalgengt að hugmyndaflug krakkanna sé látið ráða. Þau reyna þarna á þolrifin í sjálfum sér og hver vinnur eftir eigin áhuga og styrkleikum. Samveran er líka mikilvæg og börnin fá aðra mynd af hvert öðru en í daglegu lífi sem bætir dagleg samskipti.
Í Zehlendorf-skógarskólanum er hægt að velja um mismunandi dagskrá fyrir skólabekki og aðra hópa, hvort sem það er upplifun, ákveðið þema eða kvöldgöngur svo eitthvað sé nefnt. Þá er líka í boði að vinna með ferskan við úr skóginum, skipuleggja upplifunardag eða jafnvel heilar vikur með ákveðnum verkefnum. Fyrir fullorðna er líka margt í boði. Kennarar eða kennaranemar geta t.d. komið og tileinkað sér útikennslu í skógi, skipuleggja má sumarfrísdagskrá, skógardaga fyrir fjölskyldur og fleira og fleira.
Að sögn Bettinu koma flestir skólakrakkar í Berlín einhvern tíma í skógarskóla og vel gengur að fá kennara í yngri bekkjum grunnskólans til að koma með hópa sína í skóginn. Síður gengur með unglingana, segir Bettina, en hún hafði enga hugmynd um hvernig á því gæti staðið.
Skógarnám á Íslandi á langt í land að ná því sem sjá má í Berlín og víðar í meira skógi vöxnum löndum. Smám saman þróast þetta þó og vert að vekja athygli á því sem gert er, ekki síst verkefnum sem unni eru undir heitinu Lesið í skóginn, samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins og Reykjavíkurborgar. Hér fyrir neðan eru fleiri myndir frá skógarskólanum Zehlendorf í Berlín.
Góð aðstaða er til leikja við Zehlendorf-skógarskólann
Útikennslustofa þarf ekki að vera flókin að gerð
Einfaldur kofi úr efniviði skógarins
Skemmtilegt eldstæði sem yljar á köldum dögum
Kynjaverur verða til úr því sem skógurinn gefur
Villisvín eru í skógum Berlínarborgar og þau eru upplagt viðfangsefni
Myndir og texti: Pétur Halldórsson