Fyrirlestur um viðarnytjar á landnámsöld og miðöldum
Félag fornleifafræðinga og námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands standa fyrir fyrirlestraröð á vormisseri undi yfirskriftinni Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði.
Annar fyrirlesturinn verður fluttur miðvikudaginn 28. janúar kl. 12.05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Erindið flytur Dawn Elise Mooney, nýdoktor við Háskóla Íslands, og kallar það á ensku Pillaging the forests? Towards a better understanding of wood utilisation in Viking Age and Medieval Iceland. Það mætti útleggja sem: Skógarnir rændir? Í átt að betri skilningi á viðarnytjum á landnámsöld og miðöldum á Íslandi.
Í kynningu segir: Fornumhverfisfræðilegar rannsóknir og ritaðar heimildir sýna að þegar Ísland tók að byggjast á seinni hluta níundu aldar hafi menn tekið að ryðja birkiskóginn því þörf var fyrir land til heyöflunar. Viðurinn hafi verið notaður í eldinn og til smíða. Hratt hafi gengið á hið upprunalega skóglendi sem þakið hafi 18-40 prósent landsins við landnám en nú aðeins eitt prósent. Í fyrirlestrinum verða niðurstöður fornleifarannsókna bornar saman við ritaðar heimildir um hvar Íslendingar fengu við og timbur á fyrstu öldum byggðar í landinu. Markmiðið er að endurmeta viðteknar hugmyndir og skoða hnignun íslenska skóglendisins í ljósi viðarnytja og nýtingar á uppsprettum timburs á landinu.
Í umræddum rannsóknum var stuðst við viðarfræðilegar greiningar á viðartegundum í varðveittum hlutum úr viði en líka í koluðum og steingerðum viðarleifum úr flornleifauppgrefti á nokkrum stöðum á landinu. Með slíkum rannsóknum má sjá hvað er innlendur viður, hvað innfluttur og hvað rekaviður. Nauðsynlegt er að varpa ljósi á hversu mikið var notað af öðrum viði en innlendum svo sjá megi hvernig menn skiptu innlendu viðarauðlindinni á milli sín og stjórnuðu nýtingu hennar.
Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að náttúrlegu skógarnir hafi látið undan síga hafi menn haldið áfram allar miðaldirnar að nota skógviðinn í brenni, til smíða á nytjahlutum og húsbyggingar. Einnig kemur í ljós að forsendan fyrir því að framboð á innlendum viði héldist var að nýtingunni væri stýrt. Í rannsókninni var tvinnað saman niðurstöðum fornleifafræði, sögulegrar umhverfisfræði og sagnfræði. Þannig fékkst heildarsýn á viðarnytjar á landnámsöld og miðöldum á Íslandi. Með þessu má fá betri skilning á nýtingu náttúruauðinda og samspili manns og náttúru við Norður-Atlantshaf.
Tekið er fram að niðurstöðurnar byggist aðeins á athugunum á nokkrum stöðum og þörf sé á að kafa dýpra ofan í viðfangsefnið. Lagt er til að þær aðferðir sem beitt var við umrædda rannsókn verði víkkaðar út í stærri rannsókn og hugað að fleiri vísindalegum aðferðum og heimildarýni.
Fyrirlesturinn verður tekinn upp og birtur á vef Félags fornleifafræðinga. Hann verður aðgengilegur þar fljótlega eftir fundinn en það gæti tekið fáeina daga.
Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Dawn Elise Mooney