Hér er hópurinn í þrjátíu ára sitkagrenilundi þar sem upplagt er að sýna fólki ýmsa skógarumhirðu svo sem að uppkvista tré svo að í framtíðinni fáist kvistalaus hágæðaviður
Tilraunanámskeið í skógarleiðsögn
Tilraunanámskeið í skógarleiðsögn var haldið í síðustu viku í Ólaskógi í Kjós. Þar fór Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, yfir hugmyndafræði sína um skógarleiðsögn og skógartengt útinám. Í undirbúningi er diplómanám í skógarleiðsögn og margvísleg önnur skógarfræðsla sem rekin verður undir heitinu Skógarskólinn.
Ólafur hefur áralanga reynslu af skógarleiðsögn og skógartengdu útinámi og hefur starfað með ýmsu fólki, fyrirtækjum og stofnunum að þeim málum, meðal annars menntavísindasviði Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, leik-, grunn og framhaldsskólum, Iðunni fræðslusetri og fleirum. Hugmyndafræði hans byggist ekki síst á því að gera fólk að virkum þátttakendum, að það komi í skóginn til að gera og gefa ekki síður en að þiggja.
Mánudaginn 1. júní stóð Ólafur fyrir tilraunanámskeiði í skógi sínum, Ólaskógi, sem er að Stekkjarflöt í Kjós. Þátttakendur voru frá Skógræktinni, Landssamtökum skógarbænda og Landbúnaðarháskóla Íslands. Stór hluti hópsins situr í fræðslunefnd um skógarfræðslu og námskeiðið er liður í því að þróa skógarfræðslu af margvíslegum toga, diplómanám í skógarleiðsögn og styttri námskeið fyrir leiðsögufólk, hefðbundin skógarnámskeið fyrir fólk á öllum aldri og námsefni sem nýtist við slíka fræðslu.
Hugmyndafræði Ólafs snýst um upplifun, að skoða skóginn og skipulag hans, finna sig í honum og nýta það sem fyrir hendi er, Horft er eftir ýmsum tengingum í skóginum, gömul grjóthleðsla hefur tengingu við fjallið sem rís í nágrenninu en líka við sögu byggðar, tjörn hefur tengingu við lækinn, ána, sjóinn eða skaflana í fjallinu og vatnsbúskap lífkerfisins, litir og form spila saman og geta kveikt hugmyndir og svo framvegis. Slíkar tengingar nýtast vel við skógarfræðslu og til að tengja fólk við skóginn.
Skógarleiðsögumaður þarf að huga að því að það sem fram fer sé gert fyrir gestina eða þátttakendurna en ekki öfugt. Búa þarf til stemmningu með því að gera og upplifa, ekki með því að gestirnir séu einungis þiggjendur og mataðir á staðreyndum. Í skóginum er ró. Skógurinn er lengi að vaxa og þar er tíminn mældur í árum, áratugum og jafnvel öldum. Þar er því best „að vera og gera á hægan hátt“ eins og Ólafur orðar það. Í hugann koma orð eins og vandvirkni, alúð, umhyggja, friður, slökun. Útivist í skógi bætir heilsu og þar má virkja hugmyndaflug og athafnasemi með öðrum hætti en í streitu hversdagslífsins.
Skipulögð aðstaða í skógi þarf ekki að vera skilyrði fyrir fræðslu og upplifun. Notast má við það sem fyrir er, hvort sem í skóginum eru mannvirki eða ekki. Þegar haldnir eru skógardagar eða aðrir viðburðir í skógum er upplagt að skipuleggja mannaðar stöðvar hingað og þangað í skóginum þar sem eitthvað er í boði að gera, upplifa, fræðast um og njóta.
Á þessum nótum var tilraunanámskeiðið í Ólaskógi. Þátttakendur reyndu fyrir sér með tálgun og réttu hnífsbrögðin, gengið var um skóginn og skoðaðir mismunandi staðir sem henta til skógarfræðslu, leiðsagnar og athafna og loks var kveiktur eldur, bakað brauð yfir eldi, hitað kaffi og farið yfir vinnslu eldiviðar, geymslu, uppkveikju og þvíumlíkt. Eldivið á alltaf að kljúfa áður en honum er raðað upp til þurrkunar. Eldur brennur niður og því á að kveikja í efst í bálkestinum en ekki neðst. Slíkir fróðleiksmolar eru dæmi um veganesti sem fólk getur fengið sem nýtur leiðsagnar skógarleiðsögumanns eða tekur þátt í ýmsum skógartengdum viðburðum. Skógurinn er fróðleiksnáma og uppspretta, gleði, hugmynda og vellíðunar.
Á tilraunanámskeiðinu í Ólaskógi var ýmislegt skoðað og velt fyrir sér ýmsum möguleikum til fræðslu og upplifunar. Þátttakendur voru Björgvin Eggertsson, Björn B. Jónsson, Hallgrímur Indriðason, Hlynur Gauti Sigurðsson, Hrönn Guðmundsdóttir, Jón Þór Birgisson, Pétur Halldórsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Sæmundur Þorvaldsson.
Einn þessara þátttakenda, Hlynur Gauti, gerði myndband um námskeiðið sem sjá má á Youtube-rás Skógræktarinnar
Skógarleiðsögunámskeið í Ólaskógi (horfa)
Flestum kemur á óvart sá fróðleikur að best sé að kveikja í efst á viðarkestinum.
Raunin er þó sú að þar er mest súrefni og eldurinn brennur niður en ekki upp.
Ef kveikt er neðst í staflanum getur verið erfitt að koma eldinum í gang
og vegna súrefnisskortsins myndast meiri reykur.
Hér sýnir Ólafur stroffustrekkjara sem orðið hefur eftir uppi í tré og er orðinn
samvaxinn stofninum. Þetta er dæmi um litla hluti, gjarnan skrýtna og
skemmtilega, sem nota má í skógarleiðsögn til að auka upplifun fólks.